Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Heildstæð endurskoðun kosningalaga, úrbætur í heilbrigðiskerfinu, samgönguáætlun, fjármálaáætlun og fleira eru á meðal þeirra stóru verkefna sem Alþingi stendur frammi fyrir á komandi vikum og mánuðum.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Heildstæð endurskoðun kosningalaga, úrbætur í heilbrigðiskerfinu, samgönguáætlun, fjármálaáætlun og fleira eru á meðal þeirra stóru verkefna sem Alþingi stendur frammi fyrir á komandi vikum og mánuðum.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, fundaði með þingflokksformönnum í gær og segir að þingmenn virðist hafa komið vel undan jólum. Þinghald hefst að nýju næstkomandi mánudag.

Samgönguáætlun og heilbrigðiskerfið verða með stærstu málum þingsins, að mati Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar.

„Það verður mikil umræða um heilbrigðiskerfið okkar og þann vanbúnað sem það býr við,“ segir Logi.

Hann segir að flokkana greini á um það hvernig fjármagna eigi samgönguáætlun og á þessu þingi sé einnig mikilvægt að taka sjávarútvegsmálin og auðlindaákvæðið föstum tökum.

Logi telur að umræðan á þessu þingi verði tengdari gildum flokkanna en áður.

„Nú fer að líða að kosningum og þá fara flokkarnir að sýna fyrir hvað þeir standa. Ríkisstjórnin mun ekki komast áfram upp með að tefla bara fram lægsta samnefnara, sem er afleiðing þess að það eru ólíkir flokkar í stjórn, og mun þurfa að sýna sitt rétta andlit.“

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, segir að mörg mál verði umdeild, helst þá heilbrigðis- og velferðarmál og fjármálaáætlun. Gunnar segir að hún muni líklega ekki gera ráð fyrir skattalækkunum eða ívilnunum fyrir atvinnulífið. Hann telur einnig að lítill friður verði um stefnu umhverfisráðherra þar sem hann boði að „umhverfisvæn orka á Íslandi verði ekki nýtt til fulls“ og einnig stefnu hans um miðhálendisþjóðgarð.