Loftslagsmálin eru mikilvæg og nauðsynlegt að finna lausnir á því hvernig við bregðumst við aukinni losun og hvort hægt er að hafa áhrif á náttúrulega losun. Ekki kann ég svör við hinu síðarnefnda en losun af mannavöldum má t.d.

Loftslagsmálin eru mikilvæg og nauðsynlegt að finna lausnir á því hvernig við bregðumst við aukinni losun og hvort hægt er að hafa áhrif á náttúrulega losun. Ekki kann ég svör við hinu síðarnefnda en losun af mannavöldum má t.d. reyna að takmarka með nýrri tækni, fjárfestingum og jákvæðum hvötum. Fyrir okkur Íslendinga skiptir heilsufar hafsins í kringum Ísland miklu. Að súrnun sjávar og breytt hitastig sé sem minnst af mannavöldum. Erfiðara getur verið að ráða við náttúruna.

Árni Finnsson ritar í Morgunblaðið sl. mánudag grein mér til heiðurs þar sem hann rifjar upp pistil sem ég skrifaði um hrópin í loftslagsumræðunni líkt og Gréta Thunberg o.fl. viðhafa og svo rifjar Árni upp eina af mínum góðu ræðum.

Ræðan sem Árna er hugleikin var flutt á Parísarráðstefnunni 2015. Árni segir að ræða þessi hafi aldrei verið birt, er það miður því hún var nokkuð góð. Fyrir Árna skal ég reyna að finna ræðuna og setja á fésbókina. Árni tekur síðan við að gera mér upp skoðanaskipti í loftslagsmálum og segir m.a. að eitt sinn hafi ég verið Gréta T. Ekki fallega gert gagnvart Grétu. En það er stundum þannig með þá sem daðra við öfgar í umhverfismálum að ef einhverjir eru ekki alveg sammála þeirra skoðunum þá eru þeir orðnir „afneitunarsinnar“ o.s.frv.

Í pistli mínum sem Árni vitnar til gagnrýndi ég hrópin, köllin og neikvæðu hvatana sem virðast ráða för hjá vinstrimönnum og þá hjá hinni sósíalísku ríkisstjórn sem stýrir Íslandi þessa stundina. Slík gagnrýni breytir engu um áhyggjur mínar eða margra annarra af aukinni losun, hlýnun og súrnun sjávar o.s.frv.

Ég hef reyndar talað fyrir því að lækka þær gríðarlegu niðurgreiðslur á jarðefnaeldsneyti sem ríki heims stunda og setja hluta af þeim fjármunum í fjárfestingar og þróun á umhverfisvænum orkugjöfum á borð við jarðhita. Það að hækka kolefnisskatt á Íslandi er óþarfi. Nær væri að verðlauna þá sem nýta umhverfisvænar lausnir t.d. í sínum rekstri. Skiptu út bensínbílnum og fáðu skattaafslátt eða eitthvað þess háttar. Setjum aukna fjármuni í rannsóknir á framleiðslu á innlendu eldsneyti, getum við nýtt þörunga til áburðarframleiðslu, getum við bundið meira af koltvísýringi í jörðinni? Endurvinnum sorpið á Íslandi í stað þess að flytja það út, virkjum meira af fallvötnum til að fá hreinustu orkuna, lærum af sjávarútveginum sem sýnt hefur mikið frumkvæði o.s.frv.

Áhyggjuefnin eru þau sömu í dag og voru 2015. Öfgarnar í umræðunni og hjá þeim sem hafa atvinnu af því af fóstra öfgarnar skemma fyrir raunverulegum lausnum. Við eigum að draga úr útblæstri því það er skynsamlegt og nauðsynlegt en við eigum ekki að gera það með upphrópunum, heimsendaspám, bönnum og sköttum sem leiða til stöðnunar efnahagslífs.

Því verð ég aldrei Árni.

Höfundur er þingmaður Suðvesturkjördæmis og varaformaður Miðflokksins. gunnarbragi@althingi.is

Höf.: Gunnar Bragi Sveinsson