Ísland mætir Ungverjalandi á EM karla í handknattleik klukkan 17:15 í Malmö í dag. Ísland hefur þegar tryggt sér sæti í milliriðli II, en enn á eftir að koma í ljós hvort Ungverjaland eða Danmörk fylgir okkar mönnum. Með sigri í dag tekur Ísland tvö stig með sér í milliriðilinn og þá fara Danir áfram, takist þeim að sigra Rússa.
Fyrir gærdaginn höfðu Noregur og Portúgal þegar tryggt sér sæti í milliriðli Íslands og Slóvenía og Svíþjóð bættust við í gær. Noregur og Slóvenía taka tvö stig með sér í riðilinn en Svíþjóð og Portúgal byrja án stiga. Tvö efstu lið milliriðilsins fara áfram í undanúrslit.
Línur eru því farnar að skýrast og á aðeins eftir að koma í ljós hversu mörg stig Ísland tekur með sér í milliriðil og hvort Danir eða Ungverjar koma með.
Milliriðill Íslands:
Noregur
Slóvenía
Ísland
Svíþjóð
Portúgal
Danmörk eða Ungverjaland.