Um áramótin féll bann við innflutningi á fersku kjöti og eggjum frá öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins úr gildi. Þar með efndi Ísland samningsskuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum – meira en áratug eftir að samið var við Evrópusambandið um að þessar vörur yrðu í frjálsu flæði á öllu EES. Það er full ástæða fyrir stuðningsmenn frjálsra milliríkjaviðskipta að fagna þessum tímamótum og að stofnanakerfi EES-samningsins virki eins og það á að gera; ríki komist ekki upp með að brjóta samninginn vísvitandi til að þjóna sérhagsmunum heima fyrir.
Frá og með áramótum er ekki lengur áskilið að kjöt sem flutt er til landsins þurfi að hafa verið frosið í 30 daga. Kerfi leyfisveitinga vegna innflutnings fellur jafnframt niður. Um leið tóku hins vegar gildi margvíslegar reglugerðir um svokallaðar viðbótartryggingar. Innflytjendur þurfa að sýna fram á að ferskt kjöt af alifuglum sé laust við kamfýlóbakter og innflutningi á eggjum, svínakjöti, nautakjöti og alifuglakjöti þurfa að fylgja vottorð um að varan sé laus við salmonellu. Hinar nýju reglur eru mjög umfangsmiklar og þurfa innflytjendur að uppfylla ýtrustu heilbrigðiskröfur.
Evrópska eftirlitskerfið virkar vel
Það er algjörlega fráleitt þegar talsmenn landbúnaðarins, sem börðust harkalega gegn því að Ísland uppfyllti samningsskuldbindingar sínar, tala eins og nú steðji ný hætta að heilsu bæði fólks og búfjár af því að við þurfum að reiða okkur á evrópskt eftirlitskerfi, sem hafi ekki virkað. Eftirlitskerfi Evrópusambandsins – sem byggist á sömu matvælalöggjöf og er í gildi hér á landi – hefur einmitt virkað vel. Það er aldrei hægt að koma í veg fyrir að matarsýkingar komi upp, en kerfið hefur virkað vel til að koma í veg fyrir að þær breiðist út. Rétt eins og okkar innlenda eftirlitskerfi hefur virkað vel þegar upp hafa komið salmonellasýkingar á fuglabúum (sem gerist reglulega) eða þegar stærsti e.coli-faraldur á Íslandi kom upp hjá ferðaþjónustubændum síðastliðið sumar.Þegar frumvarp landbúnaðarráðherra um afnám bannsins var til umræðu, var mikið gert úr hættunni á því að ófrosnu kjöti gætu fylgt sýklalyfjaónæmar bakteríur, sem ekki væru til á Íslandi. Nýjar rannsóknir samkvæmt evrópskum reglum, sem Ísland var heldur seint til að taka upp, sýna þó að sýklalyfjaónæmar bakteríur finnast í innlendu búfé og kjöti, þrátt fyrir bannið. Raunar má halda því fram að staðan í baráttu við sýklalyfjaónæmi sé betri nú en áður en dómar EFTA-dómstólins og Hæstaréttar féllu, því að þá töluðu menn eins og frystiskylda á innfluttu kjöti væri fullnægjandi vörn gegn sýklalyfjaónæmum bakteríum í mat. Sú umræða sem síðan hefur farið fram hefur orðið til þess að farið er að beina sjónum að öðrum uppsprettum slíkra baktería, til dæmis margföldun á fjölda ferðamanna sem sækja heim íslenzk býli og óviðunandi ástandi frárennslismála víða um land.
Enn hefur ekkert ferskt kjöt eða egg verið flutt til landsins. Innflytjendur þurfa að kanna vel markaðinn, stöðuna hjá birgjum og fara yfir hið nýja regluverk. Afar ósennilegt er að nokkuð verði flutt inn af fersku alifuglakjöti eða svínakjöti vegna takmarkaðrar endingar þeirrar vöru. Sú vara, sem væntanlega verður fyrst og fremst flutt inn fersk, er nautgripakjöt í hærri gæðaflokkum, fyrir verslanir með eigin kjötborð og veitingastaði. Þá eru einhverjir innflytjendur að skoða möguleika á innflutningi á ferskum eggjum. Breytingin þýðir því meira úrval fyrir neytendur.
Afnám 30 daga frystiskyldu þýðir líka að innflutningsfyrirtæki geta brugðist hraðar við skorti á tilteknum vörum, jafnvel þótt viðkomandi vara sé flutt inn frosin. Það verður þá liðin tíð að innflytjendur þurfi að bíða með að flytja inn vöru þar til 30 daga markinu er náð. Þetta þýðir jafnara framboð á kjötmarkaði og þá væntanlega hagstæðara verð, auk þess sem tollkvótar fyrir innflutning á kjöti nýtast betur.