Uppskipun Áhugasamir áhorfendur á Þúfunni fylgjast með löndun afla úr skipi Brims við Norðurgarð á Granda.
Uppskipun Áhugasamir áhorfendur á Þúfunni fylgjast með löndun afla úr skipi Brims við Norðurgarð á Granda. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Komum fiskiskipa í hafnir Faxaflóahafna, í Reykjavík og á Akranesi, hefur farið fækkandi undanfarin ár og í fyrra voru þær færri en nokkru sinni fyrr í sögunni. Samkvæmt yfirliti á heimasíðu Faxaflóahafna sf.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Komum fiskiskipa í hafnir Faxaflóahafna, í Reykjavík og á Akranesi, hefur farið fækkandi undanfarin ár og í fyrra voru þær færri en nokkru sinni fyrr í sögunni.

Samkvæmt yfirliti á heimasíðu Faxaflóahafna sf. voru komur fiskiskipa í fyrra 331 í samanburði við 449 komur árið 2018. Er fækkunin 26%. Árið 2010 voru skipakomur 754 og er því um 56% fækkun að ræða síðasta áratuginn.

Þessar tölur vekja athygli því í Reykjavík eru nokkur öflug útgerðarfyrirtæki með starfsemi sína.

„Það eru nokkrar samverkandi ástæður fyrir því að komum fiskiskipa fækkaði í fyrra,“ segir Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóhafna. Fyrst nefnir hann breytingar á skipastól. Skip hafi verið seld og öðrum flaggað til Grænlands. Einum togara hafi verið lagt, Sturlaugi H. Böðvarssyni. Síðan hafi millilandanir fyrir vestan og norðan haft einhver áhrif á komur skipa til Reykjavíkur. Fiskkaup, sem gera út Kristrúnu RE, hafi að mestu landað fyrir norðan og flutt fiskinn landleiðina í vinnslu.

„Síðan hafa nokkrir smærri báta ekki skilað sér til okkar, m.a. þar sem ekki hefur verið veiddur humar í Faxaflóa a.m.k. 2019. Að ógleymdu loðnuleysi, sem þýðir að uppsjávarskipin hafa ekki verið að veiðum hér vestanlands,“ segir Gísli.

Fækkar í skipastólnum

Hann bætir því við að þetta séu reyndar óvenju miklar breytingar á stuttum tíma og spurning hvernig þróunin verði á næstu misserum. Ekki líti vel út með loðnuveiðar á næstunni.

Til lengri tíma litið bendir Gísli á að eftirtalin skip hafi horfið úr skipstól Reykvíkinga án þess að önnur hafi komið í staðinn: Ásbjörn, Ingunn, Ottó N. Þorláksson, Sturlaugur H. Böðvarsson (nú Mars), Þerney og Brimnes. Þá hafi Venus aðeins komið tvisvar í höfn í fyrra og Víkingur þrisvar.

Fram kemur á heimasíðunni að á árinu 2019 komu samtals 1.378 skip til Faxaflóahafna. Er það fækkun um 97 skipakomur milli ára, eða rúmlega 7%. Mest fjölgaði komum farþegaskipa á árinu 2019, eða um rúmlega 25%. Tankskip komu 10% oftar og flutningaskip 3% oftar. Hins vegar fækkaði mest í komum annarra skipa (þ.e. skúta, snekkja og skipa sem flokkast ekki undir ofangreindar tegundir), eða um rúmlega 49%. Komum rannsóknar- og varðskipa fækkaði um 27%.

Samanlögð stærð skipa sem komu til Faxaflóahafna árið 2018 var 12.143.107 brúttótonn. Hins vegar var heildarstærðin komin upp í 13.592.129 brúttótonn árið 2019. Hér munar mestu um að stórum skemmtiferðaskipum hefur fjölgað mikið.