Styttist í opnun gagnaversins.
Styttist í opnun gagnaversins. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Upplýsingatækni „Staðan á verkefninu er góð. Við erum að ljúka framkvæmdafasanum og ef allt fer sem horfir opnum við 1.

Upplýsingatækni

„Staðan á verkefninu er góð. Við erum að ljúka framkvæmdafasanum og ef allt fer sem horfir opnum við 1. mars,“ segir Gísli Valur Guðjónsson, stjórnarformaður Reykjavík DC og Opinna Kerfa, um gagnaverið sem reist hefur verið á Korputorgi í Reykjavík. Í fyrsta fasa er um að ræða um fimmtán hundruð fermetra húsnæði með pláss fyrir rúmlega 200 hýsingarskápa, sem hægt er að stækka upp í allt að átta þúsund fermetra. Gagnaverið hefur verið samstarfsverkefni Opinna kerfa, Vodafone, Korputorgs og Reiknistofu bankanna, sem jafnframt er kjölfestukúnni að sögn Gísla Vals.

Hann segir um það bil helming skápanna þegar hafa verið seldan. „Þetta hefur verið áhugaverð vegferð og núna er allt að koma saman og allt á fullu svo við getum náð þessu markmiði um að opna í mars. Þá erum við komin í rekstur með þjónustubygginguna og fyrsta salinn af átta. Gagnaverið verður fyrsta gagnaverið á Íslandi sem hefur verið byggt sérstaklega og er rekið samkvæmt svokölluðum TIER3-staðli,“ segir Gísli Valur og útskýrir að farið verði eftir ströngum kröfum er varða öryggi og gæði.

Svæði til stækkunar

Erfitt er að segja til um nákvæmlega hver orkuþörfin verður þar sem það veltur á virkni viðskiptavina, en fyrsti salur gagnaversins gæti verið að nota allt að 1,5 megavött. Þá liggja fyrir áætlanir um alls átta sali í gagnaverinu og vilyrði fyrir 12 megavöttum.

„Við erum jákvæðir á gagnaversiðnaðinn á Íslands, sérstaklega ef gagnatengingar landsins eflast,“ segir Gísli Valur og bætir við að „svæðið við Korputorg gefur möguleika til frekari uppbyggingar, en við erum ekki með það á teikniborðinu eins og sakir standa“. gso@mbl.is