Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason
Eftir Óla Björn Kárason: "Ríkisstjórnin hefur tækifæri til að taka höndum saman við einkaaðila um fjármögnun innviða. Það væri pólitískur afleikur að nýta ekki það tækifæri."

„Það er ótrúlegt að okkur skuli ekki hafa tekist að nýta betur fordæmið við gerð Hvalfjarðarganga til uppbyggingar samgöngumannvirkja víða um land. Þar verða talsmenn einkaframtaksins að axla ábyrgð. Við eigum að þora að tala fyrir því að einkaframtakið komi að uppbyggingu af þessum toga á næstu árum. Við þurfum að tala um einkaframkvæmdir og einkarekstur af sannfæringu og af sjálfstrausti. Lausnin er ekki fólgin í því að ríkið sé alltumlykjandi á öllum sviðum mannlegs lífs. Þarna hefur því miður orðið afturför frá því á árunum fyrir hrun og nauðsynlegt að sækja fram.“

Þannig kemst Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, að orði í áhugaverðu viðtali við tímaritið Þjóðmál, sem kom út fyrir nokkrum dögum. Hann bendir á að þrátt fyrir að staða þjóðarbúsins sé almennt góð hafi fjárfestingar verið undir langtímameðaltali, sem leiði til innviðaskuldar. Þess vegna sé nauðsynlegt að fara í öfluga uppbyggingu innviða á næstu árum. Í huga Halldórs Benjamíns er það óviðunandi að dreifikerfi rafmagns sé vanmáttugt til að tryggja landsmönnum „þau grunngæði sem aðgangur að rafmagni er og fyrirtækin lendi í framleiðslustoppi vegna of hægfara uppbyggingar dreifikerfisins undanfarin ár“. Sama eigi við um vegina, sem séu jafnt grunnur að öflugri ferðaþjónustu og forsenda góðrar og lífvænlegrar byggðar um land allt.

Forsenda lífskjara

Ádrepa Halldórs Benjamíns er réttmæt. Fjárfesting í innviðum er forsenda þess að hægt sé að standa undir kröfum um góð lífsskilyrði hér á landi – lífskjör sem standast samanburð við það besta sem þekkist í heiminum. Í einfaldleika sínum má halda því fram að tími fyrir arðbæra innviðafjárfestingu sé alltaf réttur en þegar slaki myndast í efnahagslífinu er mikilvægara en ella að bretta upp ermar.

Fjárfesting í innviðum samfélagsins, jafnt hagrænum sem félagslegum, er sameiginlegt verkefni okkar allra. Þessa vegna eru rök til þess að hið opinbera taki höndum saman við einkaaðila um fjármögnun innviða, ekki síst hagrænna innviða, og þar geta lífeyrissjóðirnir leikið lykil hlutverk.

Hagrænir innviðir eru m.a. samgöngumannvirki, orkuvinnsla og -dreifing og fjarskipti. Dæmi um félagslega innviði eru skólar, sjúkrahús, hjúkrunarheimili, fangelsi, menningar- og íþróttahús.

Í grein sem Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, skrifar í Þjóðmál kemur fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf hins opinbera hafi verið metin 382 milljarðar króna í skýrslu samtakanna og Félags ráðgjafarverkfræðinga árið 2017. Sigurður segir einnig:

„Enginn þáttur innviða var talinn geta fullkomlega sinnt sínu hlutverki og heilt yfir var ástandseinkunn innviða landsins 3 af 5, sem þýðir að staða innviðanna er að meðaltali viðunandi en ekki góð. Einkunnin gefur til kynna að búast megi við umtalsverðu viðhaldi til þess að halda uppi starfsemi þessara þátta innviða og að nauðsynlegt sé að fjárfesta í þeim svo þeir geti almennilega sinnt hlutverki sínu.“

Pólitísku rökin augljós

Ég hygg að fáir efist um að skynsamleg uppbygging innviða hafi jákvæð efnahagsleg áhrif. Hún styrkir samkeppnisstöðu landsins, treystir búsetu um allt land og eykur sameiginleg lífsgæði landsmanna. Hagrænu rökin eru sem sagt fyrir hendi. Pólitísku rökin eru einnig augljós, ekki síst fyrir ríkisstjórnarflokkanna.

Engin ríkisstjórn tapar á því að leiða umfangsmikla fjárfestingu í innviðum – jafnt hagrænum sem félagslegum. Ríkisstjórnin hefur tækifæri til að taka höndum saman við einkaaðila – ekki síst lífeyrissjóði sem þurfa á fjárfestingartækifærum að halda – við verkefnatengda fjármögnun hagrænna og félagslegra innviða. Slík samvinna er allra hagur og það væri pólitískur afleikur að nýta ekki tækifærin sem nú gefast.

Heildstæð umgjörð um samstarf ríkisins og einkaaðila í uppbyggingu innviða er hins vegar ekki til. Umgjörðina þarf að móta og sníða, en um leið þarf að vinna ítarlega fjárfestingaráætlun til næstu fimm, tíu og fimmtán ára. Áætlunin á ekki aðeins að innihalda fjárfestingar ríkissjóðs heldur ekki einnig allra ríkisfyrirtækja – ekki síst orkufyrirtækja og Isavia.

Samstarf einkaaðila og hins opinbera í uppbyggingu innviða er ekki eina verkefnið sem stjórnvöld og þingmenn þurfa að sinna. Helsta hagsmunamál almennings er ekki aðeins að ráðstöfun opinbers fjár sé skilvirk heldur ekki síður að nýting eigna ríkisins sé arðbær og að þær nýtist við að sinna grunnskyldum hins opinbera – heilbrigðisþjónustu, almannatryggingum, samgöngum, menntakerfi og löggæslu og almannaöryggi.

Ríkið hefur bundið hundruð milljarða í ýmsum eignum, ekki síst í fjármálakerfinu, sem hafa ekkert með þessar grunnskyldur að gera. Sú fjárbinding er ekki án fórnarkostnaðar og þann kostnað þarf almenningur að greiða beint eða óbeint.

Það er sérkennilegt (svo ekki sé tekið sterkar til orða) að leggjast gegn því að umbreyta fé sem er fast í bönkum, flugstöð, fjölda fasteigna, ríkisfyrirtækjum í samkeppnisrekstri og jörðum yfir í eignir sem við teljum mikilvægari fyrir samfélagið.

Samhliða því að tryggja samstarf hins opinbera og einkaaðila við fjármögnun og uppbyggingu innviða er nauðsynlegt að leysa úr fjötrum fjármuni sem eru bundnir í öðru en samfélagslegum innviðum sem eru mikilvægir til að tryggja góð lífskjör um allt land. Þannig getum við sameiginlega lyft grettistaki og sótt fram.

Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Óla Björn Kárason