Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Íslandsbanki hf. hefur óskað eftir samstarfi við Reykjavíkurborg um deiliskipulagsbreytingu á lóðinni Kirkjusandur 2. Á lóðinni stendur bygging sem áður hýsti aðalstöðvar bankans. Byggingin er talin ónothæf vegna rakaskemmda og verður rifin. Bankinn flutti starfsemi sína úr húsinu 2017. Með niðurrifi hússins verður til verðmætt byggingarland við sundin blá.
Fram kemur í umsókninni að Íslandsbanki vill að skoðað verði að kaupa hugmyndir af nokkrum arkitektastofum um hönnun lóðarinnar og tengsl hennar við nærliggjandi umhverfi og atvinnusögu svæðisins.
Málinu var vísað til meðferðar hjá verkefnisstjóra skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar.
Húsinu ekki viðbjargandi
Fram kemur í erindi Íslandsbanka, undirrituðu af Jónasi Þór Jónassyni hjá Íslandssjóðum, að bankinn hafi látið framkvæma þrjár umfangsmiklar rannsóknir á ástandi fasteignarinnar Kirkjusandur 2. Niðurstöður þeirra allra séu á þann veg að byggingunni sé ekki viðbjargandi og hún sé beinlínis hættuleg heilsu manna. Fasteignin standi tóm, hún sé ónothæf og þarfnist niðurrifs. „Eignatjón er því orðið verulegt fyrir eiganda og hleypur á milljörðum króna,“ segir í erindi Jónasar til skipulagsfulltrúa. Ljóst sé að núverandi deiliskipulag fyrir lóðina, þar sem gert er ráð fyrir bankabyggingunni á miðri lóð, samrýmist hvorki markmiðum eiganda fasteignarinnar né Reykjavíkurborgar um borgarskipulag.
Sem fyrr segir óskar bankinn eftir samstarfi við Reykjavíkurborg um nýtt deiliskipulag. Vísað er til tengslalóðarinnar við nærliggjandi umhverfi og atvinnusögu svæðisins.
Er væntanlega verið að vísa til þess að á Kirkjusandi var um áraraðir rekin útgerð og fiskvinnsla. Ýmsar byggingar og mannvirki risu í kringum fiskvinnsluna á svæðinu, þar á meðal þurrkhús, geymsluhús, vélaskúrar, þvottahús og verbúðir. Þessar byggingar hafa allar verið rifnar. Auk þess settu víðáttumikil stakkstæði svip á svæðið, þar sem saltfiskur var þurrkaður.
Íslandsbankabyggingin var upphaflega frystihús, sem reist var á árunum 1955-1962 af hlutafélögunum Júpíter og Mars. Byggingin á Kirkjusandi er 7.719 fermetrar að stærð.
Á aðliggjandi lóð á Kirkjusandi, sem jafnan hefur verið kennd við Strætó, hefur staðið yfir mikil uppbygging á undanförnum árum. Að þeirri uppbyggingu hafa staðið Reykjavíkurborg og Íslandssjóðir, en þeir eru í eigu Íslandsbanka. Þarna er að rísa íbúðarbyggð auk atvinnuhúsnæðis. Deiliskipulag gerir ráð fyrir 300 íbúðum og skrifstofubyggingum. Síðar er stefnt að því að hótel verði byggt á lóðinni.