Líkt og bent hefur verið á í fréttum er atburðarásin í máli áströlsku hjónanna sláandi lík því máli sem nú hefur komið upp...

Sagt var frá afdrifaríkri vélsleðaferð við rætur Langjökuls á vegum íslensks ferðaþjónustufyrirtækis í síðustu viku. Alls urðu 39 ferðamenn og fjórir leiðsögumenn strandaglópar við rætur jökulsins og þurfti hópurinn að grafa sig í fönn og bíða í langan tíma eftir aðstoð björgunarsveita vegna óveðurs á svæðinu. Breskt par sem var í hópnum hefur krafist rúmlega milljónar króna í miskabætur hvort auk þess sem fjórir ferðamenn til viðbótar hyggjast krefjast bóta. Samskonar atvik átti sér stað á Langjökli fyrir um þremur árum og kom þar sama ferðaþjónustufyrirtæki við sögu. Í því máli kröfðust áströlsk hjón miskabóta vegna hrakfaranna og fengu hvort um sig 300 þúsund krónur. Farið var fram á hærri bætur í því máli. Lögmaður fólksins sem nú hyggst krefjast bóta hefur lýst því yfir að bæturnar í máli áströlsku hjónanna hafi verið of lágar. Hér er átt við miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Til þess að til greiðslu bóta komi þarf tjón í skilningi skaðabótaréttar að hafa átt sér stað. Hugtakið „tjón“ skiptist annars vegar í fjárhagslegt tjón og hins vegar ófjárhagslegt tjón. Jafnan hafa þessi hugtök verið kennd við fjártjón og miska. Miski er þá annað tjón en hið fjárhagslega tjón og dregur hugtakið „miskabætur“ nafn sitt af þessari aðgreiningu. Vegna þessa eðlismunar á milli fjárhagslegs og ófjárhagslegs tjóns getur verið mismunandi fyrir tjónþola hvort tjón hans teljist til fjártjóns eða miska þar sem ófjárhagslegt tjón er ekki eins sýnilegt og fjártjón er yfirleitt. Af þeirri ástæðu geta aðrar sönnunarreglur átt við um fjártjón en miska.

Í áðurnefndu ákvæði 26. gr. skaðabótalaga má finna þríþættar reglur um miskabætur og skipta fyrstu tvær þeirra máli í þessari umfjöllun. Í fyrsta lagi mæla þær fyrir um að heimilt sé að láta þann, sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni, greiða miskabætur til þess, sem misgert var við. Með líkamstjóni er ekki einungis átt við meiðsl eða líkamsspjöll heldur einnig annað heilsutjón, þar með talið geðrænt tjón. Í öðru lagi er heimilt að láta þann, sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns, greiða miskabætur til þess, er misgert var við. Til þess að um ólögmæta meingerð sé að ræða þarf saknæma hegðun til. Auk þess að til að tjónsatvik verði talið ólögmæt meingerð þarf gáleysi að vera verulegt. Með öðrum orðum má segja að lægsta stig gáleysis fullnægi ekki kröfum ákvæðisins.

Áströlsku hjónin byggðu málatilbúnað sinn á framangreindum tveimur reglum 26. gr. skaðabótalaga enda tölu þau ljóst að þau hefðu verið í lífshætti þar sem þau voru týnd á jökli í vonskuveðri í um átta klukkustundir. Þau töldu ferðaþjónustufyrirtækið hafa valdið þeim líkamstjóni þar sem þau hefðu átt við andlega erfiðleika að etja frá þessum atburði. Þá fannst þeim einnig vanræksla starfsmanna ferðaþjónustufyrirtækisins hafa falið í sér meingerð gegn friði og persónu sinni. Í málinu lá fyrir að hjónin höfðu bæði sótt sálfræðimeðferð eftir atvikið. Fóru þau fram á miskabætur að fjárhæð 2.000.000 krónur fyrir hvort um sig.

Héraðsdómur í málinu taldi gáleysi starfsmanna ferðaþjónustufyrirtækisins þennan dag hafi verið verulegt og að þeir hefðu komið fram við áströlsku hjónin með þeim hætti að það teldist ólögmæt meingerð. Þegar dómurinn tók afstöðu til kröfu hjónanna vegna miska var horft til þess að í dómaframkvæmd hefðu ekki verið gerðar eins ríkar kröfur til þess að stefnendur færðu sönnur fyrir miska sínum vegna ólögmætrar meingerðar og vegna líkamstjóns, þar sem kröfur um sönnun eru ríkari. Í því ljósi taldi dómurinn hjónin hafa sýnt fram á að sú lífsreynsla sem þau urðu fyrir hinn 5. janúar 2017 hefði haft víðtæk og íþyngjandi áhrif á þau, en í framburði þeirra fyrir dómi sem og gögnum málsins kom fram að þau hefðu glímt við ýmis andleg vandamál eftir atburðinn. Taldi dómurinn hæfilegt að dæma þeim hvoru fyrir sig 300.000 krónur í miskabætur.

Líkt og bent hefur verið á í fréttum er atburðarásin í máli áströlsku hjónanna sláandi lík því máli sem nú hefur komið upp og því verður forvitnilegt að fylgjast með framvindu málsins. Í öllu falli er ljóst að málið hefur vakið umræðu um ferðaþjónustuna en ekki síst um fjárhæðir miskabóta.