Annasamt Snjómokstursmaður á Siglufirði brosti framan í heiminn þrátt fyrir allt þegar ljósmyndari Morgunblaðsins kom auga á hann við vinnu í gær.
Annasamt Snjómokstursmaður á Siglufirði brosti framan í heiminn þrátt fyrir allt þegar ljósmyndari Morgunblaðsins kom auga á hann við vinnu í gær. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Ragnhildur Þrastardóttir Sigurður Bogi Sævarsson Mikil snjóflóðahætta er á norðanverðum Vestfjörðum og utanverðum Tröllaskaga. Þá er töluverð hætta á snjóflóðum á suðvesturhorninu sem og á Austfjörðum.

Ragnhildur Þrastardóttir

Sigurður Bogi Sævarsson

Mikil snjóflóðahætta er á norðanverðum Vestfjörðum og utanverðum Tröllaskaga. Þá er töluverð hætta á snjóflóðum á suðvesturhorninu sem og á Austfjörðum.

Á norðanverðum Vestfjörðum er farið að bera á vöruskorti vegna ófærðar og óveðurs síðustu daga.

„Ástandið er ferlegt og langt síðan við höfum lent í svona ófærð marga daga í röð,“ segir Hafþór Halldórsson, svæðisstjóri Eimskips á Ísafirði.

Sjávarafurðir eru farnar að safnast upp í fiskvinnslustöðvum á svæðinu og er nú orðið aðkallandi að koma þeim í flutning.

Útlit er fyrir að veður verði betra í dag og fram á sunnudag, að sögn Eiríks Arnar Jóhannessonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Aðspurður segir hann því ekki útlit fyrir að fleiri viðvaranir vegna veðurs verði gefnar út á næstu dögum, en gular og appelsínugular viðvaranir hafa gilt á flestum stöðum landsins síðustu daga.

Víða hefur verið mjög hvasst en hvassasta hviðan í undangengnu óveðri mældist á Sandfelli í Öræfum í gærmorgun, 57,9 m/s.

Veður verður rólegt fram á sunnudag, stöku él en hægur vindur og úrkoma takmörkuð. Aðspurður segir Eiríkur að þessa daga verði því ágætis ferðaveður.

Önnur lægð á sunnudag
» Á sunnudag fer aftur að draga til tíðinda.
» Þá er von á lægð með hvassri sunnan- og suðvestanátt og hlýindum.
» Henni mun fylgja rigning en engin snjókoma nema til fjalla, að sögn veðurfræðings.