[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óskar Sesar Reykdalsson er fæddur 15. janúar 1960 í heimahúsi á Lyngheiði 8 á Selfossi. Það var æskuheimili hans og bjó hann þar hjá foreldrum sínum til 16 ára aldurs en þá flutti hann til Reykjavíkur í nám.

Óskar Sesar Reykdalsson er fæddur 15. janúar 1960 í heimahúsi á Lyngheiði 8 á Selfossi. Það var æskuheimili hans og bjó hann þar hjá foreldrum sínum til 16 ára aldurs en þá flutti hann til Reykjavíkur í nám.

Óskar gekk í grunnskólann á Selfossi, varð stúdent 1980 frá Menntaskólanum við Sund, lauk prófi í læknisfræði frá HÍ 1986, fór þá til Svíþjóðar og lærði heimilislækningar og tók þar sérfræðipróf árið 1993 og fór í framhaldsmenntun í stoðkerfisfræðum 1995. „Ég hef verið með slík námskeið í gegnum árin fyrir ýmsa hópa. Ég kenndi líka í HÍ samskiptafræði í stoðkerfishlutanum innan læknadeildar. Ég tók svo meistarapróf frá Bifröst 2011 í stjórnun heilbrigðisþjónustu og fékk þá viðurkenningu sem sérfræðingur í þeim málum. Ég er þá með tvær sérgreinar.“

Óskar vann ýmis störf sem unglingur á sumrin áður en hann fór alfarið í heilbrigðisgeirann, m.a. í fiski, hjá Vegagerðinni og síðan nokkur sumur sem lögregluþjónn á Akureyri og í Kópavogi. Eftir læknanámið fór hann á Fáskrúðsfjörð og var þar í eitt og hálft ár áður en hann tók kandídatstímabilið. Eftir að hann varð sérfræðilæknir vann hann í Falun í Svíþjóð, en þar var hann við nám. Hann vann síðan í sjö ár í Högbo Bruk, en þar er sérhæfð verkjameðferð stunduð.

Hann kom svo heim aftur og flutti á Selfoss árið 1996 og byrjaði sem læknir á heilsugæslunni en síðan sem yfirlæknir og framkvæmdastjóri lækninga á Heilbrigðisstofnun Suðurlands við sameininguna 2004. Árið 2011 flutti Óskar til Reykjavíkur og vann að hluta til sem sérfræðingur í Velferðarráðuneytinu og að hluta á HSU. Árin 2014-2016 var hann framkvæmdastjóri Rannsóknarsviðs Landspítalans og síðan framkvæmdastjóri lækninga við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins árið 2016 eftir stutt stopp sem forstöðumaður Heilsugæslunnar í Árbæ. Samhliða því starfi var Óskar heimilislæknir í hlutastarfi.

„Þessum stjórnunarstörfum hefur svo fylgt að vera umdæmislæknir sóttvarna og hefur virkilega reynt á þar, t.d. í heimsfaraldri inflúensu, jarðskjálftum, eldgosum og núna síðast mislingafaraldrinum.“ Óskar var síðan skipaður forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins frá áramótum 2019, en Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er með nærri 700 starfsmenn í vinnu og er með rekstrareiningar á um 20 stöðum á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta hefur verið mjög gefandi ár og það eru jákvæðir straumar í heilsugæslunni. Við höfum tekið að okkur viðbótarverkefni með meiri geðheilbrigðisþjónustu, meira samstarfi við Landspítalann í bráðaþjónustu og erum einnig farin að sjá um heilbrigðisþjónustu í fangelsum svo eitthvað sé nefnt. Það er því mikil uppbygging í gangi og stjórnunarstörf eru alltaf skemmtileg á uppbyggingartíma.“

Fyrir ári var Óskar einnig skipaður varaformaður ráðgjafarnefndar Landspítalans. „Það gefur möguleika að koma að stjórnun bæði Landspítalans og Heilsugæslunnar og sjá möguleikana á auknu samstarfi okkur öllum til góðs. Sjúklingurinn er alltaf í öndvegi og mikilvægt er að hafa slíkt að leiðarljósi.“

Áhugamál Óskars eru mörg. „Ég hef gaman af því að ferðast og nýt þess mest að vera innan um fjölskylduna, með börnunum mínum og barnabörnunum. Ég hef mjög gaman af því að vinna í garðinum, hann er stór og skemmtilegur og þar er ég alltaf eitthvað að smíða og vinna. Ég hef afskaplega gaman af að vera úti í náttúrunni að ganga, skoða og njóta. Ég fer í ræktina og svo er notalegt að lesa góðar bækur, leysa sudoku, spjalla við vini og kunningja og fara í bíó.“

Fjölskylda

Eiginkona Óskars er Bryndís Guðjónsdóttir, f. 12.10. 1959, framhaldsskólakennari. Foreldrar hennar eru hjónin Guðjón Kristinn Pálsson, f. 3.10. 1924, rafvirkjameistari, búsettur í Hveragerði, og Sigríður Bjarnadóttir, f. 13.6. 1929, d. 6.4. 2002. Þau ráku saman Rafmagnsverkstæði Guðjóns Pálssonar í Hveragerði.

Börn Óskars og Bryndísar eru 1) Margrét Dís Óskarsdóttir, f. 10.4. 1981, sérfræðingur í barnalækningum, með sérgrein í taugalækningum og stjórnun og starfar við Landspítalann. Eiginmaður er Jón Örn Friðriksson, doktor og sérfræðingur í þvagfæraskurðlækningum á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þau eiga þrjú börn; 2) Sigríður Erla Óskarsdóttir, f. 28.9. 1983, sérfræðingur í augnlækningum, er í doktorsnámi í glákusjúkdómum og er yfirlæknir á Háskólasjúkrahúsinu í Malmö/Lundi í Svíþjóð. Eiginmaður er Jakob Olson, kokkur á veitingastað sem þau eiga og heitir Slaktaren i Lomma. Þau eiga tvo syni; 3) Guðrún Nína Óskarsdóttir, f. 27.10. 1987, doktor í brjóstholsskurðlækningum og er í sérfræðinganámi í lungnalækningum. Eiginmaður er Árni Sæmundsson, sérfræðingur í þvagfæraskurðlækningum. Þau vinna bæði á Háskólasjúkrahúsinu í Malmö/Lundi. Þau eiga tvo syni; 4) Guðjón Reykdal Óskarsson, f. 1.5. 1991, lyfjafræðingur, er í doktorsnámi í líf- og læknavísindum við HÍ og vinnur hjá Íslenskri erfðagreiningu. Hann er í sambúð með Priyönku Thapa, lyfjafræðingi hjá Lyfjum og heilsu.

Bróðir Óskars er Magnús Ninni Reykdalsson, f. 18.5. 1970, sölumaður hjá Íslenska gámafélaginu. Hann er búsettur á Selfossi.

Foreldrar Óskars eru hjónin Margrét Ólafía Óskarsdóttir, f. 27.11. 1938, fyrrverandi stuðningsfulltrúi, og Guðni Reykdal Magnússon, f. 28.3. 1935, fyrrverandi mjólkurbílstjóri. Þau eru búsett á Selfossi.