Bjarney Guðrún Ólafsdóttir fæddist 17. desember 1928 í Stóra-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd. Hún lést 3. janúar 2020 á Hrafnistu Reykjavík.

Hún var dóttir hjónanna Ólafs Péturssonar, útvegsbónda í Stóra-Knarrarnesi, f. 28. júní 1884, d. 11. október 1964, og Þuríðar Guðmundsdóttur, húsfreyju í Stóra-Knarrarnesi, f. 17. apríl 1891, d. 25. febrúar 1974. Þuríður og Ólafur eignuðust 14 börn. Guðmundur, f. 1914, d. 2001, Guðrún Ingibjörg, f. 1916, d. 1995, Ellert, f. 1917, d. 1984, Guðfinna Sigrún, f. 1918, d. 2009, Guðmundur Viggó, f. 1920, d. 2002, Pétur, f. 1922, d. 1998, Hrefna f. 1923, d. 2019, Margrét, f. 1924, d. 2012, Ólafur, f. 1926, d. 1940, Guðbergur, f. 1927, Áslaug Hulda, f. 1930, Eyjólfur, f. 1932, d. 2013, Hulda Klara, f. 1933, d. 1994.

Bjarney giftist Guðmundi M. Jasonarsyni rafverktaka 19. nóvember 1949, f. 10. október 1925, d. 21. desember 2015. Foreldrar hans voru Jason Steinþórsson, bóndi í Vorsabæ, f. 1872, d. 1952, og Kristín Helgadóttir frá Súluholti, f. 1884, d. 1977.

Börn Guðmundar og Bjarneyjar eru: 1) Margrét Elín kennari, f. 1949. Maki Guðmundur Sophusson lögfræðingur. Börn þeirra eru: Áslaug Auður, Kristín Hrönn og Páll Arnar. 2) Kristín viðskiptafræðingur, f. 1953. Maki Ólafur Jónsson, fv. innkaupastjóri Reykjavíkurborgar. Börn þeirra eru: Jason Kristinn og Bjarney Sonja. 3) Bjarni MBA, f. 1958. Maki María G. Sigurðardóttir viðskiptafræðingur. Börn þeirra eru: Edda Björg og Aron Björn. 4) Þuríður fjölmiðlafræðingur, f. 1964. Maki Jonathan Wiedemann framkvæmdastjóri. Börn þeirra eru: Lúkas Þór, Freyja Mist, Leif Erik og Týr Viggó. 5) Rós viðskiptafræðingur, f. 1966. Sambýlismaður Þorvaldur Ingimundarson markaðsfræðingur. Börn hennar eru: Ásgeir Daði, Elísabet Sara og Arnar Logi. 6) Jason lögfræðingur, f. 1970. Maki Tinna Sigurðardóttir flugfreyja. Börn þeirra eru: Atli, Petra og Nanna. Alls eru barnabarnabörnin 14.

Bjarney og systkini hennar ólust upp hjá foreldrum sínum í Stóra-Knarrarnesi. Hún gekk í barnaskólann í sveitinni, Brunnastaðaskóla. Bjarney fluttist til Reykjavíkur fyrir tvítugt og vann við ýmis almenn störf um tíma. Þá hóf hún nám í hárgreiðslu við Iðnskólann og lauk þaðan prófum. Síðar öðlaðist hún réttindi sem meistari í greininni. Í fyrstu starfaði hún á hágreiðslustofunni Eden í Pósthússtræti en var síðan með eigin rekstur heima.

Bjarney og Guðmundur kynntust er þau voru við nám og störf í Reykjavík. Guðmundur lauk prófum í rafvirkjun og stofnaði eigin raftækjavinnustofu sem hann rak í áratugi. Árið 1961 fluttu þau hjón í nýtt hús í Safamýri 47 sem þau byggðu saman með fjölskyldu Helga bróður Guðmundar. Þar bjuggu þau í rúma hálfa öld eða þar til hún fluttist á Hrafnistu í Reykjavík.

Útför Bjarneyjar fer fram í Háteigskirkju í dag, 15. janúar 2020, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku mamma, þrátt fyrir að vita að það kæmi að þessari stundu er áfallið mikið. Það er allt eitthvað svo tómlegt og hljótt núna án þín. Það er líklega rétt sem margir segja, að ekkert verði eins þegar mamma er farin. Söknuðurinn er meiri en orð fá lýst, það er þó huggun að vita að þú ert farin til pabba. Þú talaðir mikið um hann undir það síðasta og skynjuðum við það sem svo að hann væri að undirbúa endurfundi ykkar.

Elsku mamma, kletturinn í lífinu, þú vildir allt fyrir okkur og börnin okkar gera og þannig varstu við alla í kringum þig. Þér var svo margt til lista lagt: hárgreiðsla, saumaskapur, málaralist, prjónaskapur, keramikgerð og erum við systur þakklátar fyrir að eiga gullfalleg verk eftir þig. Þú varst ótrúlega orkumikil, fórst síðust að sofa, fyrst á fætur og þá oft búin að sauma föt á okkur, þrífa stofugluggana og taka einn hring á gönguskíðum í Bláfjöllum, svo eitthvað sé nefnt. Þú lagðir mikla áherslu á að við systkinin menntuðum okkur og studdir okkur ætíð í námi. Ófáar minningar eigum við um það þegar þú keyrðir okkur systur í menntaskólann til að við yrðum ekki of seinar í tíma. Alltaf boðin og búin að hjálpa til, þannig varst þú.

Elsku mamma, við erum endalaust þakklátar fyrir allar góðu minningarnar sem þú hefur gefið okkur. Þú að flauta lagið „Litla flugan“, með rúllur í hárinu, með konur heima í hárgreiðslu, að baka marengstertu, passa barnabörnin, elda lambalæri, þrífa og mála íbúðina, og svona gætum við haldið lengi áfram. Börnin okkar eiga einnig margar góðar minningar um þig og tala þau oft lambalæri á sunnudögum í Safamýrinni og góðu marengsterturnar hennar ömmu. Þau tala um hve gott var að koma í Safamýrina því þar gátu þau fengið að vera í friði að leika sér.

Við erum sérstaklega þakklátar fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum með þér á Hrafnistu síðustu ár og viljum við þakka starfsfólki þar fyrir umönnun þína.

Elsku mamma, takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur. Góðar minningar um þig munu ylja okkur um ókomin ár.

Þurý og Rós.

Hjartagæska, hjálpsemi og dugnaður er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég minnist elskulegrar tengdamóður minnar Bjarneyjar eða Baddýjar eins og hún var ávallt kölluð. Ég hitti Baddý fyrst þegar ég 10 ára gömul, hringdi bjöllunni í Safamýri 47 til að spyrja hvort ég mætti passa Rós dóttur hennar. Það var auðsótt mál. Á móti mér tók brosmild og glæsileg kona klædd vinnusloppi en Baddý var hárgreiðslumeistari og rak vinsæla hárgreiðslustofu í Safamýri. Mér er minnisstætt hvað það var mikið líf og fjör í Safamýri, fimm systkini á þessum tíma, hárgreiðslustofa og mikill gestagangur en Baddý sá ég aldrei nema brosandi enda leið henni best þegar hún hafði nóg fyrir stafni.

Á jóladag tuttugu árum seinna kom ég í heimsókn en þá til tilvonandi tengdamóður sem alla tíð hefur reynst mér vel. Mér var tekið með kostum og kynjum og frá þeim degi hefur vinátta okkar alla tíð byggst á trausti og virðingu sem aldrei skyggði á.

Það er margt sem ber að þakka fyrir að leiðarlokum. Baddý var einstaklega hjálpsöm og dugleg. Það sýndi sig vel þegar við stóðum fyrir miklum breytingum á Grundarlandinu með tvö lítil börn. Baddý kom þá til okkar á hverjum degi og af fágætri hjálpsemi og handlagni leysti hún hvert verkefnið af fætur öðru, saumaði gardínur og málaði en henni þótti skemmtilegast að vera með pensilinn á lofti og ef einhver var að mála í fjölskyldunni var Baddý mætt.

Baddý var mjög handlagin, það bókstaflega lék allt í höndunum á henni. Hún var flink saumakona og setningin „hún amma Baddý getur örugglega lagað þetta“ heyrðist ósjaldan þegar einhver hafði slysast til að skemma fötin sín.

Það var alltaf mikið líf í kringum Baddý, hún var sérlega gestrisin og skemmtileg heim að sækja. Það var því oft gestkvæmt hjá Baddý og Guðmundi, enda fjöldi vina og ættir beggja fjölmennar sem þau lögðu mikla rækt við. Baddý var mjög stolt af æskustöðvum sínum í Knarranesi og lögðu þau hjónin fram mikla vinnu í og sýndu metnað þegar húsið í Knarranesi var endurgert. Baddý var mikill listamaður, lærði að mála myndir sem nú prýða veggi hjá börnum og barnabörnum. Baddý var ávallt ung í anda og lifði lífinu lifandi alla tíð. Þegar hún hætti að starfa sem hárgreiðslukona í Múlalundi vegna aldurs fann hún sér sjálf ný verkefni. Hún keyrði austur að Sólheimum til að klippa og greiða heimafólkinu þar, fór í sund á hverjum degi og sótti gjarnan vinkonur sínar og að sjálfsögðu var hún alltaf boðin og búin að aðstoða börn og barnabörn. Hjálpsemi hennar og örlæti átti sér engin takmörk. Baddý var kona framkvæmdanna og það var ekkert sem stoppaði hana ef verk þurfti að vinna. Mér er minnisstætt þegar ég kom til hennar rétt fyrir jól þegar hún var rúmlega áttræð. Hún var þá búin að taka niður gardínur og þvo, skrúfa niður ljósakrónur, mála íbúðina og hengja allt upp aftur ein og óstudd. Það hvarflaði ekki að henni að biðja um hjálp, það var ekki hennar stíll.

Við fjölskyldan kveðjum hana með söknuði, en umfram allt með þakklæti, ljós hennar og hlýja mun lifa með okkur.

María Guðrún.

Tengdamóðir mín, Bjarney Guðrún Ólafsdóttir, er látin á 92. aldursári. Baddý, eins og hún var jafnan kölluð, var yndisleg manneskja og fyrirmynd í hvívetna. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að verða samferða henni í tæplega 50 ár. Hún reyndist mér eins og móðir, ljúf og bóngóð og einstakur vinur minn og barnanna okkar. Þessi góða og einlæga vinátta hélst fram á síðasta dag.

Baddý studdi okkur Kristínu einstaklega vel á fyrstu árum sambúðar okkar og hugsaði um Jason Kristin sem sinn eigin son. Fyrir það verð ég henni ævinlega þakklátur.

Baddý hafði til að bera mikla mannkosti. Hún hafði járnvilja og það hreyfði hana enginn ef það var henni ekki að skapi. Hún hafði líka þá eiginleika að segja aldrei nei við sína vini og nánustu ef beðið var um hjálp eða aðstoð. Áhugasöm um börn og barnabörn allt fram til síðustu stundar.

Baddý var einstaklega ættrækin. Hún vann að endurbótum og uppbyggingu á ættaróðalinu á Stóra-Knarrarnesi með systkinum og frændfólki af Suðurnesjum.

Baddý starfaði lengst af sem hárgreiðslumeistari. Hún var líka mikil hannyrðakona og vandaði allt sitt. Henni tókst á sinn hlýja og þægilega hátt að gera mig að aðdáanda lopapeysunnar sem hún prjónaði á mig.

Síðustu fimm árin í lífi elskulegrar tengdamóður minnar voru henni erfið. Eftir að hafa fengið heilablóðfall og misst færni til að hreyfa sig sjálf tókst hún á við tilveruna af einstöku æðruleysi, kvartaði aldrei, sama hvaða veikindi og hremmingar hún þurfti að yfirstíga.

Baddý var sterk kona, vel gerð og ótrúlega falleg. Hún og Guðmundur tengdapabbi voru einstaklega myndarleg og vel gerð hjón sem gott var að heimsækja á fallega heimilið þeirra í Safamýrinni.

Baddýjar er sárt saknað sem móður, tengdamóður, ömmu og langömmu. Blessuð sé minning hennar.

Ólafur Jónsson.

Í dag fer fram útför tengdamóður minnar Bjarneyjar Ólafsdóttur. Með þakklæti kveð ég hana eftir langa samferð og fyrir það lán að hafa verið einn af hennar fjölskyldu. Liðin eru tæp fimmtíu og fimm ár frá því að ég hitti fyrst mína verðandi tengdaforeldra, Bjarneyju og Guðmund, á heimili þeirra í Safamýrinni. Fáum árum seinna stofnuðum við Ella elsta dóttirin heimili í lítilli íbúð í húsi þeirra hjóna og bjuggum þar okkar fyrstu hjúskaparár.

Þegar ég minnist Baddýjar nú koma strax í hugann orðin kraftur og eljusemi. Hún var lærð hárgreiðslukona og meistari, vann í fyrstu á hárgreiðslustofum en hóf síðar rekstur eigin stofu heima. Hárgreiðslunni sinnti hún lengi, var vinsæl og átti tryggan hóp viðskiptavina. Heimilið var mannmargt. Hún ól upp sex börn og var óþreytandi að leiðbeina og gæta barnabarnanna. Heimilið minnti oft á lítið félagsheimili. Baddý átti 13 systkini og var samband þeirra mjög náið. Mörg þeirra bjuggu á Suðurnesjunum. Leið varla sú vika að ekki kæmi eitthvert systkinanna og fjölskyldur þeirra í heimsókn í Safamýrina og var þá gjarnan tekið í spil. Guðmundur sem fæddist í Vorsabæ í Flóa átti einnig stóran systkinahóp sem var duglegur að sækja þau heim. Baddý var glaðlynd og opin og naut þess að hafa fólk í kringum sig og því leið vel í hennar návist.

Þótt vinnudagurinn væri oft langur vann Baddý að ýmsum hugðarefnum sínum. Hún nam um tíma málaralist og málaði fallegar myndir sem hún færði börnum og barnabörnum að gjöf og prýða nú heimili þeirra. Prjónarnir voru alltaf innan seilingar og stórfjölskyldan klæddist stolt fínu lopapeysunum hennar. Og úr eldhúsinu heyrðist iðulega hið taktfasta hljóð saumavélarinnar þegar húsmóðirin var að sauma og hanna nýjar flíkur. Síðustu árin lagði hún leið sína að Sólheimum í Grímsnesi til að klippa og greiða í sjálfboðavinnu. Það veitti henni mikla ánægju. Lengi var hún fastagestur í sundlauginni í Laugardal og komin á níræðisaldur munaði hana ekki um að sækja og taka vini sína með í bílinn. Sundið og félagsskapurinn í pottinum var ómissandi.

Baddý og systkini hennar ólust upp í Stóra-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd. Jörðin er enn í eigu ættarinnar en enginn hefur þó búið þar í allmörg ár. Íbúðarhúsið er í ágætu standi og þar hafa mörg ættarmótin verið haldin. Knarrarnes var alla tíð sem annað heimili Baddýjar því þangað fór hún stundum daglega til að hitta ættingja sína og vini og í leiðinni að dytta að ýmsu á jörðinni. Hún var ættrækin og undi sér vel á æskuslóðunum.

Þegar einhver í fjölskyldunni stóð í byggingarframkvæmdum eða viðhaldi var Baddý sú fyrsta sem mætti á staðinn til að bjóða aðstoð og þá gjarnan með pensil og rúllu. Alltaf tilbúin að leggja sitt af mörkum. Dugnaður hennar smitaði frá sér og þannig miðaði framkvæmdum vel.

Fyrir fáeinum árum lamaðist Baddý. Lífsgæðum og heilsu hrakaði hratt. Það var erfitt en hún kvartaði ekki. Hún skilaði af sér drjúgu dagsverki og stórum hópi afkomenda sem hún fylgdist svo náið með og studdi.

Kærar þakkir fyrir samfylgdina.

Guðmundur Sophusson.