[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Álframleiðsla Kína var 10% af heildarframleiðslu á málminum í heiminum árið 2000 en er í dag 56%. Framleiðsluaukningin í landinu svarar til tvöfaldrar ársframleiðslu Íslands á hverju ári.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Álframleiðsla Kína var 10% af heildarframleiðslu á málminum í heiminum árið 2000 en er í dag 56%. Framleiðsluaukningin í landinu svarar til tvöfaldrar ársframleiðslu Íslands á hverju ári. Þetta kom fram í máli Martin Jackson, álsérfræðings hjá breska ráðgjafarfyrirtækinu CRU, á morgunverðarfundi Landsvirkjunar í gær, sem haldinn var undir yfirskriftinni Orkumarkaðir í mótun: Íslensk orka á alþjóðlegum mörkuðum. Erindi Jacksons hét The rise of China and sustainable aluminium: where does Iceland fit in? Eða Uppgangur Kína og sjálfbær álframleiðsla: hvernig passar Ísland inn í myndina?, í lauslegri íslenskri þýðingu.

Mikil áhrif á heiminn

Kínverjar framleiða ál sitt að 87% hluta með jarðefnaeldsneyti, og hefur það því gríðarleg áhrif á samtölur fyrir heiminn allan, þegar skoðað er hlutfall jarðefnaeldsneytis í framleiðslu áls. Með Kína eru nú tveir þriðju hlutar alls áls í heiminum framleiddir með jarðefnaeldsneyti.

Í máli Jacksons kom fram að um 50% af eftirspurn eftir áli í heiminum kæmu frá Kína. Þá sagði hann að álverð í heiminum hefði lækkað til lengri tíma litið, eða á tímabilinu 1990-2018, leiðrétt fyrir verðbólgu. Hann sagði að mikil hækkun hefði orðið á álverði árið 2018, en síðan þá hefði verð lækkað. Þar spilar inn í viðskiptastríð milli Bandaríkjanna og Kína. Mikil samkeppni ríkir á álmarkaði, að hans sögn.

Jackson segir að árið 2019 hafi verið slæmt ár fyrir álframleiðendur, en eftirspurn minnkaði þá um eitt prósent. Er það í fyrsta skipti í áratug sem það gerist. CRU spáir hins vegar 1,7% aukningu eftirspurnar á þessu ári. Meðal þess sem hafa mun áhrif er spá um að bílaiðnaðurinn muni ná sér á strik aftur eftir talsverðan sölusamdrátt í fyrra.

Þá kom fram í máli Jacksons að sjö prósent álvera heimsins hefðu verið rekin með tapi árið 2019, og helmingur þeirra verið í Kína.

„Við búumst við því að árið 2020 verði 8% álvera rekin með tapi.“

Hann segir að Noregur hafi verið samkeppnishæfari en Ísland með sína framleiðslu á síðasta ári, en Norðmenn fullvinna vörur úr áli í meiri mæli en Íslendingar.

Rafbílar auka eftirspurn

Jackson horfði einnig til framtíðar og sagði að rafbílar yrðu 25% af allri bílasölu heimsins fyrir árið 2030. 70% þess fjölda yrðu bílar sem nota eingöngu rafhlöðu. Þetta þýðir aukna eftirspurn eftir áli, því bein tengsl eru á milli drægi bíla og þess að hafa þá létta. Annað sem spilar inn í aukna eftirspurn er að áldósir munu samkvæmt spám ná markaðshlutdeild af plastflöskum, eða 3% á næstu tíu árum. Dósir eru um 10% allrar eftirspurnar eftir áli í dag.
Orka
» Stórnotendur raforku nota 80% allrar raforku á Íslandi, fyrirtæki 15% og heimilin 5%.
» Stórnotandi þarf að nota ígildi 20 þúsund heimila.
» Raforkukostnaður fyrirtækja er tvisvar sinnum meiri en stórnotenda, og kostnaður heimila er 3-4 sinnum hærri en stórnotenda.
» Landsvirkjun á og rekur 18 aflstöðvar.