Seljalandsfoss Mikil umferð ferðamanna er við fossinn árið um kring.
Seljalandsfoss Mikil umferð ferðamanna er við fossinn árið um kring. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Við fögnum þessum framkvæmdum enda auka þær til muna öryggi á gatnamótunum þar sem mörg slys hafa orðið,“ segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við fögnum þessum framkvæmdum enda auka þær til muna öryggi á gatnamótunum þar sem mörg slys hafa orðið,“ segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra.

Vegagerðin hefur óskað eftir tilboðum í gerð nýs vegar frá þjóðvegi 1 að Gljúfurá. Mikil umferð ferðamanna er alla daga ársins að Seljalandsfossi og Gljúfrabúa og mun nýr vegur bæta aðgengi að svæðinu. Byggja á átta metra breiðan veg nokkru vestar en núverandi vegur er. Skal verkinu ljúka 1. júlí í sumar. Opið er fyrir tilboð í verkið hjá Vegagerðinni til 28. janúar.

„Þessi nýi vegur gefur fossunum og svæðinu þar í kring meira vægi. Núverandi vegur verður að einhverju leyti nýttur til göngustíga,“ segir Anton Kári.

Hann segir að 900 þúsund gestir hafi heimsótt Seljalandsfoss árið 2018 og kveðst ekki búast við því að fækkun hafi orðið í fyrra, þó að ferðamönnum á landinu öllu hafi fækkað. „Það er smekkfullt þarna alla daga ársins. Þessi vetrarferðamennska hefur aukist ofboðslega undanfarin ár,“ segir sveitarstjórinn.