Töfrabrögð Una Björg Magnúsdóttir við uppsetningu sýningarinnar.
Töfrabrögð Una Björg Magnúsdóttir við uppsetningu sýningarinnar. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund er heiti innsetningarinnar á sýningu Unu Bjargar Magnúsdóttur myndlistarkonu sem verður opnuð í D-sal Listasafns Reykjavíkur – Hafnarhúss klukkan 20 í kvöld.
Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund er heiti innsetningarinnar á sýningu Unu Bjargar Magnúsdóttur myndlistarkonu sem verður opnuð í D-sal Listasafns Reykjavíkur – Hafnarhúss klukkan 20 í kvöld.

Heiti sýningarinnar er dregið af einu þekktasta töfrabragði stjörnutöframannsins David Copperfield, „Vanishing Crowd“. Þar lætur hann hóp áhorfenda hverfa fyrir augum annarra áhorfenda og birtast á ný á öðrum stað. Í tilkynningu segir að þótt Una Björg, sem lauk meistaranámi í myndlist í Sviss árið 2018, geri ekki tilraun til að láta áhorfendur hverfa í innsetningu sinni varpi hún fram hugmyndum um skynvillu og blekkingar. Verkið sé aðlaðandi en fráhrindandi á sama tíma. Listamaðurinn líkir eftir raunveruleikanum með augljósu gervi og leitast við að rjúfa samfellda upplifun sýningargesta með því að setja fram kunnuglega hluti sem passa þó ekki við reynsluheim okkar.

Þegar Una Björg er spurð að því hvort þetta sé galdrasýning eða myndlistarverk hlær hún en útskýrir að henni þyki töfrabrögð aðlaðandi. „En það getur verið sorglegt að komast að því hver galdurinn er,“ segir hún. „Þótt við vitum hvernig eitthvað svona virkar langar okkur samt alltaf til að trúa. Einfalt töfrabragð eins og að taka af sér þumalinn er alltaf fallegt og okkur finnst puttinn hverfa, þótt við vitum betur,“ segir hún. „Maður er til í að taka þátt í blekkingunni – þetta er eins og trúin á jólasveininn.“

Þegar Una Björg er spurð að því hvað hún geri í D-sal safnsins segir hún vera kominn þar stóran skúlptúr, eins konar skenk sem sé klæddur viði, sem er í raun bara prentuð filma sem vísar í formica-klæðningu, sem er orðin meira aðlaðandi en raunverulegur viður. „Í skenknum er sjónvarp sem lyftist upp, á skjánum er gervireykur og eftir nokkrar mínútur kemur hendi á skjáinn og smellir fingrum – og sjónvarpið sígur niður. Þetta eru einfaldar vísanir í töfrabrögð,“ segir Una Björg – en vitaskuld þarf fólk að mæta til að upplifa galdurinn.

Á sama tíma verður opnuð í A-sal Hafnarhússins sýningin Röð og regla: Skissa að íslenskri samtímalistasögu [IV] . Sýningin er fjórða „skissan“ sem byggist á verkum úr safneigninni sem sett eru í þematískt samhengi í tilraun til að endurspegla listasögu samtímans.

efi@mbl.is