Bjarney Guðrún Ólafsdóttir fæddist 17. desember 1928. Hún lést 3. janúar 2020.

Útför Bjarneyjar fór fram 15. janúar 2020.

Amma Baddý var afar glæsileg kona, ávallt vel til höfð og með hárið nýtúberað og blásið. Hún var félagslynd og naut sín best meðal fólks og því var ávallt líf og fjör í Safamýrinni. Það var fastur liður hjá okkur að kíkja til ömmu eftir píanó- og íþróttaæfingar og hún tók ætíð vel á móti lúnum íþróttagörpum sem yfirgáfu heimilið aldrei svangir. Amma kunni svo sannarlega að laga dýrindis heimilismat, sem hún galdraði fram án nokkurs fyrirvara, og þá gilti einu hve margir mættu, boðnir sem ekki. Það sem sló þó öllu við var karamellumarengstertan, sem kláraðist undantekningalaust – þrátt fyrir að aldrei hafi verið bakaðar færri en tvær. Hún hafði unun af því að gefa okkur sætindi og geymdi jafnan heimabökuðu jólasmákökurnar í neðsta skápnum í eldhúsinu, þar sem auðvelt var fyrir okkur barnabörnin að laumast í þær, án þess að nokkur sæi til, og því ómögulegt fyrir foreldra okkar að áfellast ömmu. Hún dekraði við okkur og horfði yfirleitt í hina áttina þegar við gerðum eitthvað af okkur, hvort sem við vorum að snúa hvort öðru í rauðbrúna leðurstólnum eða að spila fótbolta tímunum saman inni á gangi. Raunar var hún líklegri til að slást með í leikinn en að segja okkur að hætta. Amma var ætíð í góðu skapi og við gleymum aldrei kvöldinu þegar við frændurnir, Ásgeir, Atli og Aron, vorum í heimsókn hjá henni annan í jólum fyrir fáeinum árum. Amma var þá komin á níræðisaldur en lét það ekki stoppa sig heldur spilaði með okkur langt fram eftir kvöldi, sagði skemmtilegar sögur af foreldrum okkar og drakk með okkur jólaöl. Það var ekki að sjá að á milli okkar væri tveggja kynslóða bil.

Amma Baddý var sannkölluð fyrirmynd. Við kveðjum hana með söknuði en minnumst hennar jafnframt fyrir hlýju, dugnað, orku og gleðina sem fylgdi henni ávallt.

Atli, Aron Björn, Ásgeir Daði, Edda Björg og

Petra.

Elsku amma Baddý hefur kvatt okkur. Söknuðurinn er mikill en eftir sitja ótal góðar minningar um einn þann mesta dugnaðarfork sem við höfum kynnst. Þegar stundirnar með ömmu eru rifjaðar upp þá eiga þær það allar sameiginlegt að hún var alltaf að gera eitthvað og græja. Minningarnar um ömmu og afa úr Safamýrinni eru sterkar. Þar var yfirleitt fullt hús af fólki og mikið líf og fjör. Amma, sem var hárgreiðslumeistari, sá um að klippa, blása og greiða fjölskyldu og vinum, lita augabrúnir og það oft á meðan Hrefna systir hennar snyrti fætur sömu aðila. Þá var setið í eldhúsinu og heimsmálin rædd. Amma hafði skoðanir á flestu og það alveg þar til hún kvaddi. Amma var höfðingi heim að sækja og margar eigum við minningarnar um lambalæri, loftkökur, ananasfrómas og fleira. Hún borðaði samt ekki mikið sjálf, passaði upp á að allir fengju nægju sína en svo kláraði hún afgangana svo það færi nú ekkert til spillis. Svo hagsýn var hún. Hún gat líka gert allt sjálf, hún m.a. saumaði, prjónaði, þreif bílana og minnisstætt er þegar hún tók sig til og málaði alla íbúðina komin yfir áttrætt og með lungnabólgu. Amma var mikill málari og mörg falleg málverk eru til eftir hana. Amma var létt á fæti og líkamlega sterk. Hún fór í sund á hverjum morgni og sótti vinkonur sínar og tók þær með sér í sundlaugina, allt þar til hún veiktist 86 ára gömul. Amma fór í armbeygjukeppni við okkur 79 ára gömul og gaf ekkert eftir. Amma var alltaf tilbúin til þess að aðstoða með allt, hvort sem það var að passa barnabörnin, gera við fötin okkar eða skutla út á Keflavíkurflugvöll og nýtti hún þá tímann til að heimsækja systkini sín eða koma við á æskuheimili sínu á Stóra-Knarrarnesi, Vatnsleysuströnd.

Það var ekki fyrr en hún veiktist árið 2015 og var komin á Hrafnistu að hún sat róleg yfir kaffibollanum en var ekki á þönum fram og til baka að sækja fleiri smákökur eða áfyllingu á kaffibollann. Amma var húmoristi og alveg undir það síðasta mátti sjá glottið í augunum þegar henni fannst eitthvað fyndið.

Amma var frábær fyrirmynd, gat allt, kvartaði aldrei, alltaf boðin og búin að hjálpa öðrum. Góðar minningar um ömmu ylja okkur. Það er því með þakklæti, ást, væntumþykju og söknuði sem við kveðjum elsku ömmu Baddý okkar.

Áslaug Auður, Kristín Hrönn og Páll Arnar.

Ég man fyrst eftir henni Baddý, sem var konan hans Mumma föðurbróður, þegar þau hjónin úr Reykjavík komu í heimsóknir til okkar í sveitina að Vorsabæjarhóli. Baddý var glæsileg kona, ljóshærð, lagleg, hress í bragði og röskleg í tali og hreyfingum. Engin lognmolla þar. Seinna kom maður stundum í Safamýrina þar sem Baddý og Mummi bjuggu í fallega húsinu sínu og alltaf var manni jafn vel tekið. Baddý var ræðin og við hana var hægt að tala um flest milli himins og jarðar.

Svo liðu árin, stundum hitti maður Baddý í Laugardalslauginni en þangað fór hún helst á hverjum morgni. Og hún var svo hjálpsöm við aðra, lengi tók hún með sér vinkonu sína, fullorðna konu sem var farin að daprast sjón, en Baddý taldi ekki eftir sér að aðstoða hana við að komast í sund. Baddý náði háum aldri en fyrir nokkrum árum varð hún fyrir áfalli og var lengi rúmliggjandi. Eftir það steig hún ekki heilum fæti á jörð en var komin í hjólastól.

Hún komst til nokkurrar heilsu og ég heimsótti Baddý stundum þegar hún var komin á Hrafnistu. Með tímanum varð það fastur liður hjá mér á sunnudögum að líta inn hjá Baddý og rabba smávegis. Það þótti henni vænt um og þakkaði mér alltaf vel fyrir komuna. Alltaf dáðist ég að því hvað hún fylgdist vel með sínu fólki og var stálminnug. Hún vissi alltaf hver átti afmæli og hver var á ferðalagi hvar en þetta var nú ekki lítill hópur allt hennar fólk. Svo komu börnin hennar í heimsóknir með börnin sín og þetta voru stundum hálfgerð ættarmót kaffitímarnir á sunnudögum. Þá var Baddý glöð þótt hún segði ekki margt, það sá maður á brosinu í augum hennar.

Baddý var hárgreiðslumeistari og fær á sínu sviði en hefði gjarnan viljað menntast meira hefði það verið í boði á sínum tíma. Hún sparaði heldur ekki að hvetja börn sín til að ganga menntaveginn sem þau gerðu öll með glæsibrag. Henni leiddist nú ekki að tala um börnin sín og sagði þá margt skemmtilegt. Núna rétt fyrir jólin tilkynnti hún mér eftirfarandi: „Hann Jason, hann getur gert hvað sem er.“ Ég mátti til að gera athugasemd og spurði: „Nú, en ekki Bjarni?“ Þá kom svarið: „Hann Bjarni er svo vandvirkur,“ og þá var ég mát. Og hún tók heilshugar undir þegar ég benti henni á að dæturnar væru nú líkar henni í dugnaðinum enda var hún mjög stolt af börnunum sínum, sannkölluð ættmóðir.

Mest dáðist ég að Baddý fyrir það að aldrei mælti hún æðruorð yfir hlutskipti sínu að vera bundin hjólastól, þessi drífandi kona sem alltaf var að koma hlutunum í verk. Hún bar sig alltaf vel en með þverrandi líkamskröftum var séð að hverju dró og hún kvaddi okkur hægt og hljótt núna rétt eftir áramótin. Ég votta öllum í hinni stóru fjölskyldu Baddýjar samúð mína, blessuð sé hennar minning.

Jón M. Ívarsson.

Elsku amma Baddý, við eigum margar skemmtilegar minningar úr Safamýrinni. Fyrst koma upp í hugann þær fjölmörgu heimsóknir eftir handboltaæfingar hjá Fram og allar stundirnar þegar við vorum í pössun hjá ömmu og afa.

Amma var hágreiðslumeistari og oftast var eldhúsið fullt af vinkonum sem annaðhvort voru með einhverjar skrítnar rúllur í hárinu eða kolsvört augu. Hún amma litaði nefnilega á þeim augnhárin og verður að viðurkennast að við vorum stundum smeyk við þessar konur sem sátu í eldhúsinu, með hárþurrku yfir höfðinu og svarta bómull á augunum.

Amma var líklega duglegasta kona í heimi. Hún var alltaf að mála myndir, uppi í stiga að mála veggina heima hjá sér eða prjóna peysur á fjölskyldumeðlimi og vini þeirra. Þegar við vorum lítil sá hún um að þrífa bankaútibú á Háaleitisbraut og við fengum stundum að koma með og hjálpa henni. Hápunkturinn var að tæma ruslaföturnar og fá svo kex á kaffistofunni í laun. Svo má ekki gleyma að minnast á sunnudagsmatinn hjá ömmu í Safamýrinni. Hún amma eldaði alltaf dýrindis læri með brúnuðum kartöflum og svo fengum við oft heimalagaðan ís í eftirrétt eða karamellu marengstertuna hennar. Síðustu ár dvaldi amma á Hrafnistu og laumaði því nú reglulega að okkur að hún væri á leiðinni heim til sín keyrandi bráðlega. Það vantaði ekki viljann hjá henni ömmu. Krakkarnir okkar komu reglulega í heimsókn til ömmu og alltaf brosti hún til þeirra og spurði spurninga um dagleg líf þeirra. Við munum sakna hennar ömmu Baddý en vitum að hún er núna komin í faðm afa. Elsku amma Baddý, Guð blessi þig og varðveiti þig.

Þín barnabörn,

Bjarney Sonja, Jason

Kristinn og fjölskyldur.

Það var skömmu fyrir jólin 1991 að ég hitti Baddý í fyrsta sinn. Hún kom sem gestur á heimili okkar í tilefni stúdentsútskriftar Tinnu. Ég dáðist þarna að þessari hugrökku konu, sem þekkti mjög fáa aðra en Tinnu og Jason, en kom brosandi með fallegan rósavönd og ljómaði sjálf, falleg eins og rósirnar sem hún færði okkur. Það sem ég fann strax og ég heilsaði þessari lágvöxnu, grönnu og fallegu konu var hlýja og góð nærvera.

Árin liðu og við hittumst oft í skírnum, fermingum og afmælum hjá barnabörnunum okkar og þar komu þessir eiginleikar hennar alltaf fram, tilbúin að hjálpa, sama hvað beðið var um.

Hún ku hafa gert besta hrísgrjónagraut sem fannst á byggðu bóli, því héldu ömmustrákarnir mínir óhikað fram og mættu öðru hvoru til ömmur Baddýjar í hádeginu og nutu velgerða hennar og gæsku.

Baddý var mjög handlagin, og fljótvirk, saumaskapur lék í höndunum á henni og naut ég sjálf góðs af lagni hennar, bæði sagði hún mér til, og tók fyrir mig föt og minnkaði og breytti og svei mér þá ef hún var ekki fljótari en saumavélin.

Hún var hamhleypa til verka, einhvertíma kom ég til hennar seinnipart dags og fann málningarlykt, og fór að spyrja hverju sætti þá var svarið: „Já, ég málaði stigahúsið í morgun.“ Svona var Baddý í hnotskurn, lét hlutina ekki þvælast fyrir sér.

Þegar kom að því að í Múlabæ, dagdvöl fyrir aldraða vantaði hárgreiðslumeistara, var heppnin með okkur, þar sem ég þekkti Baddý og verkin hennar og samviskusemina. Hún var mjög bóngóð manneskja, og var alltaf sjálfsagt að taka að sér hvaða verk sem hún var beðin um. Ég tel mér vera óhætt, fyrir hönd þeirra sem nutu hennar þjónustu að færa einlægar þakkir. Einnig var samvinna hennar við starfsfólk Múlabæjar mjög góð og fyrir það ber einnig þakka.

Árið 2014 féll Guðmundur, eiginmaður Baddýjar frá, en eins og það var henni sárt tók hún því af sama æðruleysi og öðrum erfiðleikum sem yfir hana gengu.

Árið 2015 fékk Baddý heilablæðingu og náði hún sér aldrei til fulls. En með góðri aðstoð gat hún notið sl. aðfangadagskvölds ásamt tveim barna sinna og þeirra fjölskyldna á heimili annars þeirra. Þær endurminningar eru þeim öllum ómetanlegar.

Með þessum orðum kveð ég yndislega konu sem stráði gleði og hlýju kringum sig og til annarra. Ástvinum votta ég samúð mína.

Hallbera Friðriksdóttir.