Náttúruöflin gerðu óþyrmilega vart við sig þegar snjóflóð féllu á Flateyri og í Súgandafirði í fyrrakvöld. Til allrar hamingju urðu ekki slys á fólki að þessu sinni. Snjóflóðin minntu á hamfarirnar fyrir 25 árum þegar 34 menn létu lífið.

Náttúruöflin gerðu óþyrmilega vart við sig þegar snjóflóð féllu á Flateyri og í Súgandafirði í fyrrakvöld. Til allrar hamingju urðu ekki slys á fólki að þessu sinni. Snjóflóðin minntu á hamfarirnar fyrir 25 árum þegar 34 menn létu lífið.

Tvö flóð féllu á Flateyri, úr Skollahvilft og Innra-Bæjargili, og stöðvuðu varnargarðarnir sem reistir voru eftir flóðin 1995 þau að mestu. Þessi flóð voru mjög mikil. Flóðið úr Skollahvilft sást á ratsjá Veðurstofunnar og mældist á 150 til 200 km hraða á klukkustund.

Flóðið úr Innra-Bæjargili fór að hluta yfir varnargarðinn og hafnaði á húsi. Þar var 14 ára unglingsstúlka hætt komin. Hún lá föst undir snjófarginu í 40 mínútur. Björgunarmenn sýndu þar mikið snarræði og tókst að ná henni á undraskömmum tíma.

Ívar Kristjánsson björgunarsveitarmaður, sem tók þátt í að bjarga stúlkunni, sagði í viðtali við mbl.is að aðstæður hefðu verið hræðilegar og mikill léttir þegar náðist að bjarga henni. Sem betur fer hlaut hún ekki mikla áverka.

Snjóflóðið úr Skollahvilft beindist í höfnina á Flateyri og eyðilögðust sex bátar af sjö sem þar voru.

Engin slys urðu á fólki á Suðureyri við Súgandafjörð en nokkurt tjón varð í flóðbylgju sem myndaðist þegar snjóflóðið féll í sjóinn gegnt bænum.

Óblítt veður undanfarið og mikill snjóþungi hefur haft sitt að segja víða um land. Á Vestfjörðum hafa samgöngur verið mjög þungar og erfitt með aðföng. Sigla þurfti til Flateyrar eftir snjóflóðin í fyrrakvöld vegna þess að ekki var hægt að komast þangað akandi.

Vitað var að hætta væri á snjóflóðum. Sú hætta er ekki liðin hjá og mun ekki gera það á næstunni ef lítil eða engin breyting verður á veðri. Snjóflóðahættan er heldur ekki eingöngu bundin við Vestfirðina.

Viðbrögð vegna flóðanna voru snör og ákveðin. Lýst var yfir neyðarstigi almannavarna vegna þeirra. Það var lán að varðskipið Þór var statt á Ísafirði og gat komið björgunarsveitarmönnum til Flateyrar í skyndi.

Einnig er til fyrirmyndar að áhersla er lögð á að veita áfallahjálp vegna flóðanna. Álagið er ekki lítið þegar hamfarir ríða yfir, ekki síst fyrir þá sem urðu vitni að og áttu um sárt að binda eftir snjóflóðin 1995.

Ráðist var í róttækar aðgerðir fyrir 25 árum til þess að verja byggðir sem gætu verið í hættu vegna snjóflóða. Eins og fram kemur í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag hefur til þessa verið gripið til aðgerða á 15 þéttbýlisstöðum og hefur 21 milljarði króna verið varið í varnarvirki vegna snjóflóða. Hafa ýmist verið reistar varnir eða eignir keyptar upp. Ólokið er gerð varna fyrir íbúðarbyggð á átta stöðum og er gert ráð fyrir að þær muni kosta annað eins. Ýmist hefur verið ráðist í að reisa þær eða það verður gert á næstu misserum og árum.

Gerbreyting varð í þessum málum eftir snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri 1995. Í fréttaskýringunni um snjóflóðavarnirnar er vitnað í grein Hafsteins Pálssonar, verkfræðings í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, og Tómasar Jóhannessonar, sérfræðings á Veðurstofunni, sem birtist í Morgunblaðinu í apríl í fyrra. „Þessir atburðir gjörbreyttu viðhorfi landsmanna til öryggis vegna ofanflóðahættu enda ljóst að ekki yrði unað við að slík hætta væri fyrir hendi,“ skrifuðu þeir. „Í kjölfarið var því gripið til róttækra aðgerða til að tryggja öryggi íbúa á svæðum þar sem hætta er á ofanflóðum.“

Meðal þessara aðgerða var að stofna Ofanflóðasjóð, sem gegnt hefur mikilvægu hlutverki í að efla varnirnar.

Þessum markvissu aðgerðum má þakka að ekki fór verr. Hugur landsmanna er nú hjá Vestfirðingum. Enn er ekki víst hvað tjónið vegna snjóflóðanna er mikið en eins og einn viðmælandi mbl.is sagði í gær má alltaf bæta báta og dauða hluti. Fyrir öllu er að enginn fórst.