Listir Borgarleikhúsið við Listabraut fær nýjan leikhússtjóra 2021.
Listir Borgarleikhúsið við Listabraut fær nýjan leikhússtjóra 2021. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Stjórn Leikfélags Reykjavíkur (LR) hefur ákveðið að auglýsa eftir umsóknum um stöðu leikhússtjóra Borgarleikhússins.

Stjórn Leikfélags Reykjavíkur (LR) hefur ákveðið að auglýsa eftir umsóknum um stöðu leikhússtjóra Borgarleikhússins. Stefnt er að því að viðkomandi hefji störf við undirbúning leikársins 2021-2022 í ársbyrjun 2021 en taki svo formlega við stjórn leikhússins í júlí 2021. Kristín Eysteinsdóttur, leikhússtjóri Borgarleikhússins, telur það mikið heillaskref að staðan sé auglýst með svona góðum fyrirvara. Segir hún það bera vott um faglega nálgun stjórnar enda séu sambærilegar stöður erlendis auglýstar að minnsta kosti ári áður en nýr leikhússtjóri tekur við. „Með þessu móti getur nýr leikhússtjóri frá fyrsta degi sett skýran svip á starfsemi leikhússins,“ segir Kristín, en seinna ráðningartímabil hennar rennur út í júlí 2021.

Eggert Benedikt Guðmundsson, formaður stjórnar LR, bendir á að aukinn fyrirvari á ráðningu leikhússtjóra auðveldi umsækjendum sem þegar eru í verkefnum heima eða erlendis að skipuleggja framtíð sína. „Borgarleikhúsið er þekkt fyrir að vera framsækið leikhús og hefur gengið afar vel undanfarin ár undir forystu Kristínar. Stjórnin telur mikilvægt að laða að hæfileikaríkt sviðslistafólk og fara ótroðnar slóðir við ráðningu stjórnenda, ekki síst í ljósi þess hve starfsumhverfi þeirra hefur breyst að undanförnu með fjölgun tækifæra á alþjóðavettvangi. Þannig telur stjórnin að breytt tilhögun við ráðningu leikhússtjóra auki líkurnar á áhugaverðum umsóknum og tryggi að listrænn metnaður verði héðan í frá sem hingað til í algjöru fyrirrúmi.“ Starf leikhússtjóra Borgarleikhússins verður auglýst til umsóknar í dag, 16. janúar, og er umsóknarfrestur til 30. janúar 2020.