[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Fallið höfðu 68 snjóflóð síðustu tíu daga, samkvæmt snjóflóðatilkynningum sem Veðurstofu Íslands höfðu borist í gær. Langflest flóðanna höfðu fallið á Vestfjörðum.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Fallið höfðu 68 snjóflóð síðustu tíu daga, samkvæmt snjóflóðatilkynningum sem Veðurstofu Íslands höfðu borist í gær. Langflest flóðanna höfðu fallið á Vestfjörðum. Þeirra á meðal voru flóðin stóru á Flateyri og í Súgandafirði í fyrrakvöld. Þau þrjú voru af stærð 4, sem er það mesta, samkvæmt töflunni.

Við Flateyri í Önundarfirði féll annað snjóflóðið úr Innra-Bæjargili og hitt úr Skollahvilft. Flóðið úr Innra-Bæjargili fór yfir varnargarð að hluta og á húsið að Ólafstúni 14. Unglingsstúlka grófst í flóðinu en henni var bjargað og var hún ekki talin alvarlega slösuð. Snjóflóðið úr Skollahvilft féll meðfram varnargarði og út í smábátahöfnina. Það olli miklu eignatjóni á bátum og hafnarmannvirkjum en ekki á fólki. Snjóflóðið við Norðureyri í Súgandafirði gekk einnig fram í sjó. Það olli flóðbylgju og urðu skemmdir við ströndina innan og utan við Suðureyrarhöfn. Enginn slasaðist.

Fram kom í tilkynningu Veðurstofunnar í gær að enn væri talin hætta á að stór flekahlaup gætu fallið í Önundarfirði og Súgandafirði. Búist var við því að veður gengi niður í gær og að það drægi úr snjóflóðahættu síðdegis í gær eða í gærkvöld. Óvissustig vegna snjóflóðahættu var enn í gildi á norðanverðum Vestfjörðum í gær. Það var sett á þann 12. janúar. Spáð var norðaustan hríð þar til í dag.

Á Ísafirði var lýst yfir hættustigi vegna snjóflóða og var í gær ákveðið að rýma fjögur hús í Seljalandshverfi. Húsin sem um ræðir eru undir varnargarði á Seljalandsmúla og standa næst garðinum. Hættumat gerir ráð fyrir því að ef mjög stórt snjóflóð falli á garðinn geti gefið yfir hann og það valdið tjóni. Fólk var einnig beðið um að yfirgefa nokkur hús í dreifbýli á norðanverðum Vestfjörðum.

Appelsínugul viðvörun gilti á Vestfjörðum síðdegis í gær til kl. 19.00. Þá tók við gul viðvörun til kl. 2.00 í nótt sem leið.