Sigurgeir Örn Sigurgeirsson fæddist 21. júlí 1992. Hann lést 29. desember 2019.

Útför Sigurgeirs Arnar fór fram 15. janúar 2020.

Það er eitthvað svo óraunverulegt að vera að hittast félagarnir og skrifa minningarorð um þig núna, Sigurgeir, þetta er svo allt of snemmt og svo allt of erfitt. Það að þurfa að horfast í augu við þá staðreynd að þú sért farinn frá okkur og komir ekki aftur er eitthvað sem enginn okkar vill trúa. Í raun finnst okkur enn þá eins og við getum tekið upp símann, slegið á þráðinn til þín og hlustað á Hotel California óma í eyrunum á okkur þangað til þú svarar.

Hópurinn okkar tók á sig endanlega mynd á lokaárum okkar í Árbæjarskóla og höfum við staðið þétt saman síðan, enda finnst okkur hópurinn okkar frábær og er vinátta á borð við þá sem við eigum allir saman ómetanleg. Stundirnar sem við eigum saman úr Hraunbænum á heimili Sigurgeirs, sem var eiginleg félagsmiðstöð okkar á mótunarárunum, eru í dag frábærar minningar um einfaldari tíma. Mikið fótboltaáhorf, skyndibitaát og tölvuleikjaspil eru meðal þeirra hluta sem einkenndu þessa tíma (og svo undrumst við það að enginn okkar varð atvinnumaður í fótbolta). En þetta eru bara nokkrar af þeim fjölmörgu góðu minningum sem við eigum um stundir okkar með Sigurgeiri enda væru þær efni í góða bók frekar en stutta grein.

En það sem einkenndi hann Sigurgeir var hans mikla stolt, ákveðni og sterka réttlætiskennd. Einnig þurfti hann alltaf að hafa rétt fyrir sér enda þótti okkur hann búa yfir öllum nauðsynlegum kostum til að verða frábær stjórnmálamaður. Hann var eld klár og mikill keppnismaður sem lagði það á sig að læra allar spurningar í spurningaspilum utan að og skora svo aðra á hólm. Sigurgeir var gömul sál og mikill áhugamaður um tónlist. Þó var hann einn tveggja meðlima hópsins sem aldrei áttu að fá að stjórna tónlistinni í partíum eða bílferðum enda er smekkur manna misjafn.

Það er ekki hægt að rita minningarorð um hann Sigurgeir án þess að koma inn á þá staðreynd að hann var mikill Manchester United-maður sem studdi lið sitt alla tíð af heilum hug, alveg frá barnsaldri. Það heyrði til undantekninga ef hann missti úr leik og var hann eins og alfræðiorðabók um sitt ástkæra félag.

Þrátt fyrir að leiðir okkar allra hafi oft á tíðum vísað í mismunandi áttir og jafnvel ólíkra landa, og töluverður tími hafi liðið á milli þess að við hittumst, þá hefur vináttan alltaf haldist jafn sterk. Við vitum því að þó svo að þú sért nú farinn á feðra þinna fund þá verður þú alltaf einn af okkur og þegar við hittumst næst verður það eins og við höfum talast síðast við í gær.

Hinsta kveðja frá Rauðu rósinni.

Arnar, Ásgeir, Davíð,

Elías, Friðrik, Jóhann,

Lárus og Ómar.

Það er þungbært að skrifa ótímabæra hinstu kveðju til vinar míns, Sigurgeirs. Ég hef ekki tölu á öllum þeim stundum sem við eyddum saman við hina ýmsu iðju sem telst hversdagsleg eins og að þrífa bílana okkar eða að grilla á sólríkum sumarkvöldum. Þegar ég upplifði þessar stundir með Sigurgeiri gerði ég mér enga grein fyrir því að þær yrðu nú svo dýrmætar minningar um einstaklega traustan og góðan vin.

Við kynntumst 13 ára gamlir í Árbæjarskóla og varð okkur strax vel til vina. Við tókum saman þátt í spurningakeppni grunnskólanna og þegar í framhaldsskóla var komið keppti Sigurgeir í Gettu betur fyrir hönd Fjölbrautaskólans í Breiðholti með góðum árangri. Það var hægt að treysta á Sigurgeir þegar íþróttaspurningar bar á góma en hann var líka öflugur í stjórnmálaspurningunum.

Við Sigurgeir deildum ekki stjórnmálaskoðunum en engu að síður var gefandi að ræða stjórnmálin við hann því hann hafði einstakt lag á að draga fram áhugaverð sjónarmið sem vert var að hlusta á. Ávallt einkenndust umræður okkar um pólitík og önnur þjóðfélagsmál af yfirvegun, léttleika og virðingu fyrir skoðunum hvor annars.

Hversdagsleikinn verður ekki samur eftir fráfall Sigurgeirs. Það verður erfitt að geta ekki slegið á þráðinn til að spjalla um daginn og veginn eða skipuleggja næsta bílaþvott. Um miðjan desember fórum við Sigurgeir í leikhús, það var gleðistund, mikið hlegið og við nutum stundarinnar. Það er erfitt að horfast í augu við þá staðreynd að þetta var í síðasta skiptið sem við Álfrún nutum einstakrar nærveru Sigurgeirs.

Mikill er missir fjölskyldunnar og okkar sem þekktum Sigurgeir, í hans stað mun enginn koma. Ég votta Örnu og Jóhönnu innilega samúð mína.

Takk fyrir samfylgdina Sigurgeir minn, skilaðu kveðju til pabba þíns.

Árni Freyr Magnússon.

Kær vinur er fallinn frá. Við sem eftir sitjum reynum að rifja upp og greina staðreyndirnar til þess að fá skýringu á því sem gerst hefur en alltaf rennur skýring úr greipum okkar. Hægt og rólega byrja svo fallegar minningar um þennan yndislega dreng að seytla inn og finnst okkur við hæfi að hefja nýjan áratug á því að festa hér á blað þá mynd sem birtist okkur af Sigurgeiri þegar leiðir okkar lágu saman sem börn og unglingar á fyrsta áratug þessarar aldar.

Við fylgdum Sigurgeiri í Árbæjarskóla þar sem hann var nemandi alla sína grunnskólagöngu. Sum okkar undirritaðra voru með honum í bekk öll þau ár, og jafnvel í leikskóla líka, á meðan aðrir voru í skólanum skemur. Merkilegt nokk höfum við öll keimlíkar sögur að segja af honum Sigurgeiri.

Æskuheimili hans var í Hraunbæ, hinum megin götunnar við Árbæjarskóla. Þangað var krakkaskarinn alltaf velkominn. Hlýlegt heimilið endurspeglaði þá gömlu sál sem Sigurgeir hafði svo augljóslega að geyma. Á hans heimavelli fékk hann að ráða tónlistinni og spilaði þá helst lög sem samin voru löngu fyrir okkar daga.

Ekki var það þó svo að Sigurgeir lifði í einhverjum fortíðarheimi, heldur þvert á móti. Frá unga aldri var hann virkur áhugamaður um þjóðfélagsmál sem hann nálgaðist iðulega frá sínu sérstaka sjónarhorni sem aldrei mátti vera fyrirsjáanlegt. Ef eitthvað einkenndi skoðanir hans strax á þessum grunnskólaárum var það réttsýni og samúð með þeim sem eiga undir högg að sækja.

Fróðleiksfýsi var Sigurgeiri í blóði borin. Fyrir daga Wikipediu fletti hann í gegnum alfræðiorðabækur og sögubækur og byggði þannig upp þekkingu sem kom honum vel í skóla og ekki síður spurningakeppnum sem hann tók þátt í fyrir hönd síns skóla, jafnt á grunnskólastigi sem og í framhaldsskóla. Án hans hefðum við í Árbæjarskóla aldrei komist í úrslit Nema hvað? spurningakeppni grunnskólanna þar sem þekking hans á sögu og íþróttum kom sterk inn. Við hefðum ekki heldur staðið okkur nærri eins vel í Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanna en þar fór Sigurgeir á kostum.

Sameiginlegar minningar frá þessum sæluárum grunnskólans mótuðu okkur öll, og hefðu þær verið allt öðruvísi ef ekki hefði verið fyrir Sigurgeir. Fremstur í flokki, oftar en ekki klæddur í bláan íþróttagalla, stimplaði hann sig inn sem ómissandi hluta af heildinni.

Á síðari árum tók að lengjast tíminn milli þess að við vorum öll í sambandi en Sigurgeir var þannig gerður að maður lagði lykkju á leið sína til að spjalla við hann ef maður átti til dæmis erindi í IKEA. Hann hafði þetta mikla aðdráttarafl sem við erum sammála um að hafi stafað af innri hlýju, víðsýni og umburðarlyndi gagnvart öðru fólki og ekki síður því hversu sannur og góður vinur vina sinna hann var.

Óbærilegt er að hugsa til þess að líf hans hafi verið rofið svo snemma en við huggum okkur við að nú fái Sigurgeir yngri að ræða öll heimsins mál við föður sinn og nafna. Við vottum Örnu, Jóhönnu og fjölskyldu og öðrum aðstandendum Sigurgeirs okkar innilegustu samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum.

Tryggvi Rúnar,

Halldóra Fanney,

Sóley og Elín Ástrós.