Sigufjörður Mikil varnarmannvirki hafa risið fyrir ofan Siglufjörð, myndin er frá uppsetningu stoðvirkja í Hafnarfjalli.
Sigufjörður Mikil varnarmannvirki hafa risið fyrir ofan Siglufjörð, myndin er frá uppsetningu stoðvirkja í Hafnarfjalli. — Ljósmyndir/Sigurður Hlöðversson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Alls hefur verið unnið fyrir 21 milljarð króna á núgildandi verðlagi við varnarvirki vegna snjóflóða síðasta aldarfjórðung.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Alls hefur verið unnið fyrir 21 milljarð króna á núgildandi verðlagi við varnarvirki vegna snjóflóða síðasta aldarfjórðung. Áætlað hefur verið að eftir sé að vinna að snjóflóðavörnum í þéttbýli fyrir svipaða upphæð, eða um 21 milljarð, samkvæmt upplýsingum úr umhverfisráðuneytinu.

Samkvæmt svari umhverfisráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins hafa alls verið gerðar varnir eða eignir keyptar upp á 15 þéttbýlisstöðum. Staðirnir eru Ólafsvík, Patreksfjörður, Tálknafjörður, Bíldudalur, Flateyri, Bolungarvík, Hnífsdalur, Ísafjörður, Súðavík. Siglufjörður, Ólafsfjörður, Seyðisfjörður, Neskaupstaður, Eskifjörður og Fáskrúðsfjörður.

Ólokið er gerð varna fyrir íbúðabyggð í þéttbýli á átta stöðum á hættusvæði C, en í þeim flokki er hættan talin mest og á þeim svæðum skal öryggi tryggt með varanlegum varnarvirkjum eða uppkaupum íbúðarhúsnæðis. Þessir staðir eru Patreksfjörður, Tálknafjörður, Bíldudalur, Hnífsdalur, Siglufjörður, Seyðisfjörður, Neskaupstaður og Eskifjörður.

Vinna hófst á síðasta ári við varnir undir Urðarbotni í Neskaupstað og er áætlað að gerð þeirra ljúki 2021. Þá hefst vinna við varnargarða við Urðir, Hóla og Mýrar á Patreksfirði nú í vor og er áætlað að þeirri vinnu ljúki árið 2023. Undirbúningur annarra verkefna er mislangt á veg kominn.

Gjörbreyttu viðhorfi

Í grein eftir Hafstein Pálsson, verkfræðing í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, og Tómas Jóhannesson, sérfræðing á Veðurstofunni, í Morgunblaðinu 1. apríl á síðasta ári, kemur fram að mannskæðustu náttúruhamfarir seinni tíma á Íslandi hafi orðið þegar snjóflóð féllu í Súðavík og á Flateyri 1995 með þeim afleiðingum að 34 létu lífið.

„Þessir atburðir gjörbreyttu viðhorfi landsmanna til öryggis vegna ofanflóðahættu enda ljóst að ekki yrði unað við að slík hætta væri fyrir hendi. Í kjölfarið var því gripið til róttækra aðgerða til að tryggja öryggi íbúa á svæðum þar sem hætta er á ofanflóðum,“ segir í greininni.

Allt regluverk var styrkt og ofanflóðanefnd sett á laggirnar og heyrði hún undir umhverfisráðherra. Þá var ákveðið að ríkissjóður mundi veita sveitarfélögum sem byggju við snjóflóðahættu á íbúðasvæðum fjárhagslegan stuðning til að tryggja öryggi byggðarinnar gagnvart ofanflóðum. Veðurstofu Íslands var falin ábyrgð á gerð hættumats, reglulegu snjóflóðaeftirliti, mati á aðstæðum, rannsóknum og ráðgjöf um ofanflóðavarnir.

Til þess að fjármagna framkvæmdir og önnur verkefni þeim tengd kváðu lögin á um stofnun á nýjum sjóði, Ofanflóðasjóði. Tekjustofn hans var árlegt gjald sem lagt var á allar brunatryggðar fasteignir, en þær námu um 2,5 milljörðum króna árið 2019. Þó takmarkast fjárheimildir sjóðsins við þá upphæð sem ákveðin er árlega í fjárlögum,“ segir í greininni.

Lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum var breytt 2014 og 2017 til þess að heimila notkun á hluta fjármuna Ofanflóðasjóðs til að standa undir gerð hættumats fyrir aðra náttúruvá, þ.e. eldgos, vatnsflóð og sjávarflóð sem Veðurstofa Íslands annast. Lögunum var síðan breytt 2018 og þá var kveðið á um að gjaldið sem áður skyldi renna í Ofanflóðasjóð rynni í ríkissjóð í samræmi við ný lög um opinber fjármál en fjárheimildir sjóðsins eru sem fyrr ákvarðaðar í fjárlögum.

„Fjöldi varnarvirkja hefur þegar sannað gildi sitt en yfir 40 flóð hafa fallið á varnargarða sem reistir hafa verið frá flóðunum á Vestfjörðum árið 1995. Einstök sveitarfélög hefðu ekki haft tök á að fara í þessar framkvæmdir vegna hættu á snjóflóðum og skriðuföllum án stuðnings Ofanflóðasjóðs,“ segir í grein Hafsteins og Tómasar.