Farnir heim Niklas Landin og félagar í danska landsliðinu sitja eftir með sárt ennið og verða ekki meðal þeirra tólf liða sem fara í milliriðlana.
Farnir heim Niklas Landin og félagar í danska landsliðinu sitja eftir með sárt ennið og verða ekki meðal þeirra tólf liða sem fara í milliriðlana. — AFP
Þegar Íslendingar höfðu beðið lægri hlut fyrir Ungverjum í Malmö í gær voru örlög Dana ráðin.

Þegar Íslendingar höfðu beðið lægri hlut fyrir Ungverjum í Malmö í gær voru örlög Dana ráðin. Þeir voru þar með úr leik á EM karla í handknattleik áður en leikur þeirra við Rússa hófst og árangur þeirra í keppninni er þar með sá slakasti frá árinu 1998 þegar þeir komust ekki í lokakeppnina sem þá fór fram á Ítalíu.

Danmörk og Ísland hafa bæði verið með á öllum Evrópumótunum frá árinu 2000 og nú gerist það í aðeins annað skipti í ellefu lokamótum að Ísland endar fyrir ofan Danmörku. Áður gerðist það árið 2010, í Austurríki, þegar Ísland fékk bronsverðlaunin en Danir höfnuðu í fimmta sæti.

Sjá mátti vonbrigðasvipinn á leikmönnum Dana þar sem þeir fylgdust með Ungverjum sigla heim sigrinum á Íslandi. Það skilaði sér inn í leikinn gegn Rússum, sem voru yfir í hálfleik, 15:12, í leik sem skipti engu máli. Danir náðu að knýja fram sigur í lokin, 31:28, og náðu því einum sigri. vs@mbl.is