Billie Eilish
Billie Eilish
Bandaríska tónlistarkonan Billie Eilish semur og flytur titillag næstu kvikmyndar um njósnarann James Bond, No Time to Die . Eilish er yngst þeirra tónlistarmanna sem samið hafa lag fyrir Bond-mynd, aðeins 18 ára.

Bandaríska tónlistarkonan Billie Eilish semur og flytur titillag næstu kvikmyndar um njósnarann James Bond, No Time to Die . Eilish er yngst þeirra tónlistarmanna sem samið hafa lag fyrir Bond-mynd, aðeins 18 ára. Dagblaðið Guardian vísar í yfirlýsingu frá Eilish, sem segir geggjað að fá slíkt verkefni. „Að fá að semja titillag kvikmyndar sem er hluti af svo goðsagnakenndri syrpu er gríðarlegur heiður,“ skrifar Eilish. Kvikmyndasyrpan sé sú svalasta í sögunni og hún í geðshræringu yfir heiðrinum.

Eilish skaust upp á stjörnuhimin tónlistarinnar með fyrstu breiðskífu sinni When We All Fall Asleep, Where Do We Go? sem kom út í fyrra. Lögin á henni samdi hún með eldri bróður sínum, Finneas O'Connell. Systkinin semja Bond-lagið í sameiningu og er haft eftir bróðurnum að það hafi lengi verið draumur þeirra að semja titillag Bond-myndar. Framleiðendur myndarinnar, Michael G. Wilson og Barbara Broccoli, segja lag Eilish og bróður hennar óaðfinnanlegt og passa fullkomlega við þær tilfinningar sem finna megi í sögu Bond að þessu sinni. Leikstjóri myndarinnar, Cary Joji Fukunaga, hefur lýst yfir aðdáun sinni á Eilish og bróður hennar og segir þau ákaflega hæfileikarík.

Í öðrum Bond-fréttum er það helst að Phoebe Waller-Bridge var ráðin til að hressa upp á handritið, eins og það er orðað í frétt Guardian en hún er höfundur og aðalleikkona verðlaunaþáttanna Fleabag . No Time To Die verður frumsýnd 8. apríl.