Einleikarar Gunnar Kristinn Óskarsson trompetleikari, Kristín Ýr Jónsdóttir þverflautuleikari, Flemming Viðar Valmundsson harmóníkuleikari og Sólveig Vaka Eyþórsdóttir fiðluleikari koma fram með Sinfóníuhljómsveitinni.
Einleikarar Gunnar Kristinn Óskarsson trompetleikari, Kristín Ýr Jónsdóttir þverflautuleikari, Flemming Viðar Valmundsson harmóníkuleikari og Sólveig Vaka Eyþórsdóttir fiðluleikari koma fram með Sinfóníuhljómsveitinni. — Ljósmynd/Hari
Fjórir sigurvegarar úr keppninni Ungir einleikarar, samstarfsverkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Listaháskólans sem fram fór í Kaldalóni í Hörpu í október síðastliðnum, koma fram í einleiksverkum með hljómsveitinni í Eldborgarsalnum í kvöld.

Fjórir sigurvegarar úr keppninni Ungir einleikarar, samstarfsverkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Listaháskólans sem fram fór í Kaldalóni í Hörpu í október síðastliðnum, koma fram í einleiksverkum með hljómsveitinni í Eldborgarsalnum í kvöld. Sólveig Vaka Eyþórsdóttir flytur fiðlukonsert nr. 1 eftir Max Bruch, Kristín Ýr Jónsdóttir flytur flautukonsert Jacques Ibert, Flemming Viðar Valmundsson spilar harmóníkukonsertinn Spur eftir Arne Nordheim og að lokum leikur Gunnar Kristinn Óskarsson trompetkonsert í As-dúr eftir Alexander Arutiunian.

Stjórnandi tónleikanna er hin finnska Anna-Maria Helsing, sem hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands margsinnis áður við góðar undirtektir. Hún var aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Oulu árin 2010-13 og varð þar með fyrsta konan til að gegna slíku starfi í Finnlandi.

Þegar rætt er við Sólveigu Vöku sem fulltrúa einleikaranna ungu segir hún það hafa verið góða tilfinningu að æfa með Sinfóníuhljómsveitinni síðustu daga fyrir tónleikana. „Tilfinningin hefur í raun verið betri en ég hafði þorað að vona. Ímyndunaraflið getur aukið stressið og fært manni neikvæðar hugsanir en þegar kom að því að byrja að æfa með hljómsveitinni var upplifunin mjög góð og þetta hefur verið mjög ánægjulegt,“ segir hún og bætir við að það hafi verið gaman að vera allt í einu komin á svið með þessari fjölmennu hljómsveit og byrja að spila. „Það hefur bara rúllað áfram!“

Sólveig Vaka hefur æft konsert Bruch síðasta árið en æfði hann reyndar fyrst upp fyrr í námi sínu. „Þetta er oft fyrsti stóri rómantíski konsertinn sem fiðlunemendur læra, mörgum finnst þeir oft hafa heyrt hann í nemendabúningi en ég hef lengi elskað stykkið. Svo heyrði ég konsertinn með Gewandhaus-hljómsveitinni í flutningi Nikolaj Znaider og áttaði mig þá vel á því hvað þetta væri geggjað stykki – þá ákvað ég að læra hann aftur.“

Þegar spurt er hvort konsertinn sé nú kominn alveg inn í merg segist Sólveig vona að svo sé. „Líkaminn tekur að vissu leyti yfir þegar ég spila hann núna svo ég held að hann sé kominn djúpt inn í mig. Sé orðinn hluti af erfðaefninu.“ efi@mbl.is