Mark Guðjón Valur Sigurðsson skorar eitt fjögurra marka sinna gegn Ungverjum í gær. Þessi markahæsti landsliðsmaður handboltasögunnar hefur þá gert 1.865 mörk í 360 landsleikjum fyrir Íslands hönd.
Mark Guðjón Valur Sigurðsson skorar eitt fjögurra marka sinna gegn Ungverjum í gær. Þessi markahæsti landsliðsmaður handboltasögunnar hefur þá gert 1.865 mörk í 360 landsleikjum fyrir Íslands hönd. — Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2020 Kristján Jónsson kris@mbl.is Eftir góða sigra í fyrstu tveimur leikjunum á Evrópumótinu í handknattleik kom bakslag gegn Ungverjum í síðasta leiknum í riðlakeppninni í gær.

EM 2020

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Eftir góða sigra í fyrstu tveimur leikjunum á Evrópumótinu í handknattleik kom bakslag gegn Ungverjum í síðasta leiknum í riðlakeppninni í gær. Ungverjaland hafði betur 24:18 þótt staðan hafi verið jöfn 17:17 þegar þrettán mínútur voru eftir af leiknum. Eftir ágætan fyrri hálfleik skoraði Ísland aðeins sex mörk í síðari hálfleik, sem er allt of lítið til að vinna leik gegn góðum andstæðingi á stórmóti. Fyrir vikið fer Ísland án stiga í milliriðil.

Að loknum fyrri hálfleik var Ísland yfir 12:9 og virtust Íslendingar vera með ágæt tök á leiknum. Ekki hafði allt gengið upp í sókninni en ekkert virtist benda til þess að liðið myndi fá skell eins og raunin varð. Ísland skoraði sex mörk í röð eftir að Ungverjar skoruðu þrjú fyrstu mörk leiksins. Ísland var yfir 12:7 en Ungverjar skoruðu síðustu tvö mörk fyrri hálfleiks og löguðu stöðuna. Þessar tölur sýna hversu öflug vörn íslenska liðsins var í fyrri hálfleik og markvarslan var um 40%.

Sóknarleikur liðsins í síðari hálfleik er áhyggjuefni. Hann var að mínu mati virkilega góður í nánast 60 mínútur gegn bæði Dönum og Rússum. Ungverjar eru mjög sterkir í vörninni eins og sást gegn Dönum og Roland Mikler er snjall markvörður. Hann varði alls 16 skot og þar af þrjú vítaköst. Það skipti engu máli hvað þeir hétu sem reyndu sig gegn honum í síðari hálfleik. Hann varði megnið af því hvort sem það var Aron, Alexander, Guðjón Valur eða aðrir en Guðmundur prófaði mjög marga leikmenn í sókninni í síðari hálfleik í þeirri von að liðinu tækist að stöðva blæðinguna.

Eitt skot varið í síðari hálfleik

Þótt Ungverjaland spili góða vörn og Mikler sé í háum gæðaflokki skýrir það ekki eitt og sér að Ísland skori aðeins sex mörk í síðari hálfleik og tölurnar í síðari hluta leiksins séu 6:15. Á lokakafla leiksins gátu íslensku leikmennirnir varla komið boltanum í netið. Þeir skoruðu eitt mark á síðustu sextán mínútunum. Er það skelfileg staðreynd og fyrir vikið unnu Ungverjar sex marka sigur þegar upp var staðið.

Fleiri slæmar tölur má sjá í leiknum, en Ísland var aðeins með eitt skot varið í síðari hálfleik. Alls vörðu íslensku markverðirnir tíu skot en níu þeirra komu sem sagt í fyrri hálfleik. Eins og áður segir benti fátt til þess að leikur Íslands gæti hrunið algerlega í síðari hálfleik en sú varð engu að síður raunin enda hefur fyrirsjáanleiki sjaldan fylgt íslenska landsliðinu.

Vörnin var virkilega góð í fyrri hálfleik. Þá heppnaðist oft að ganga út á móti hávöxnum og sterkum leikmönnum Ungverja og drepa sóknarlotur þeirra í fæðingu. Fyrir vikið náðu Ungverjar litlu flæði í sóknirnar hjá sér í fyrri hálfleik.

Þeir nýttu sér til hins ítrasta veikleika íslensku varnarinnar í síðari hálfleik. Með framliggjandi vörn skapast svæði fyrir línumanninn Bence Bánhidi. Þegar hann náði að taka sér stöðu gat nánast enginn í íslenska hópnum haldið honum. Svo má velta því fyrir sér hvort hægt hefði verið að koma í veg fyrir allar línusendingarnar sem hann fékk, en Bánhidi skoraði 8 af 24 mörkum.

Liðið virðist brothætt

Eins og ítrekað hefur verið minnst á er íslenska liðið í uppbyggingarferli sem staðið hefur yfir í nokkur ár. Guðmundur landsliðsþjálfari sagði oft í aðdraganda mótsins að við værum ekki eitt af bestu liðum heims eins og sakir stæðu. Enda er ekki nema eitt ár síðan Ísland tapaði fyrir Brasilíu á HM.

Eftir frammistöðuna gegn Dönum og Rússum kom frammistaðan í síðari hálfleik í gær eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Hún bendir sterklega til þess að íslenska liðið sé enn brothætt. Sagan kennir okkur hins vegar að Ísland hefur oft rifið sig upp eftir tapleiki. Aldrei hefur það farið í gegnum stórmót án bakslags. Verðlaunaliðið í Peking 2008 tapaði t.d. fyrir S-Kóreu og verðlaunaliðið á EM 2010 gerði jafntefli gegn Serbíu og Austurríki.

ÍSLAND – UNGVERJALAND 18:24

Malmö Arena, EM karla, E-riðill, miðvikudag 15. janúar 2020.

Gangur leiksins : 0:3, 6:3, 8:5, 11:6, 12:7, 12:9 , 14:11, 15:14, 17:16, 17:21, 18:21, 18:24 .

Mörk Íslands : Aron Pálmarsson 4, Guðjón Valur Sigurðsson 4, Alexander Petersson 3, Kári Kristján Kristjánsson 2, Ólafur Guðmundsson 1, Arnór Þór Gunnarsson 1, Haukur Þrastarson 1, Janus Daði Smárason 1, Ýmir Örn Gíslason 1.

Varin skot : Björgvin Páll Gústavsson 6, Viktor Gísli Hallgrímsson 2/1.

Utan vallar : 8 mínútur.

Mörk Ungverjalands : Bence Bánhidi 8, Zoltán Szita 5, Bendegúz Bóka 4, Mátyás Györi 3, Zsolt Balogh 2/1, Péter Hornyák 1, Patrik Ligetvári 1.

Varin skot : Roland Mikler 16/3, Márton Székely 1/1.

Utan vallar : 8 mínútur.

Dómarar : Andreu Marín og Ignacio García, Spáni.

Áhorfendur : 7.587.

Mjög vont að tapa þessum leik með sex mörkum

EM 2020

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

„Menn eru svekktir. Það var mikið í húfi og við ætluðum okkur sigur í leiknum,“ sagði svekktur Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta, í samtali við Morgunblaðið eftir vont 18:24-tap fyrir Ungverjum í lokaleik Íslands í E-riðli á EM karla í Malmö í gær.

„Við spiluðum mjög vel í fyrri hálfleik, fyrir utan að við vorum ekki nægilega fljótir í gang. Við unnum okkur mjög vel inn í leikinn og hefðum átt að vera fimm mörkum yfir í hálfleik. Forystan var hins vegar bara þrjú mörk.

Þetta byrjaði svo ágætlega í síðari hálfleik en við fórum að klúðra færum og gerðum þeim auðveldara fyrir. Við fórum svo að gefa eftir í vörninni og línumaðurinn þeirra fékk allt í einu úr of miklu að spila. Þeir voru eingöngu búnir að skora sjö mörk á fyrstu 29 mínútum leiksins. Þeir skoruðu svo tvö síðustu mörkin í fyrri hálfleiknum og það var mjög slæmt,“ sagði Guðmundur, sem er skiljanlega ósáttur við seinni hálfleikinn.

Margir þættir fóru úrskeiðis

„Það voru margir þættir í þessu. Markvarslan var engin í síðari hálfleik, vörnin gaf eftir og við gerðum okkur seka um að slæman sóknarleik. Markvörðurinn hjá þeim var með tíu bolta varða í seinni hálfleik og heilt yfir var þetta ekki gott. Það var mjög vont að tapa þessum leik með sex mörkum. Ég hefði viljað laga það, þar sem markatalan skiptir máli. Við tökum markatöluna með okkur í milliriðil.“

Frábærir tvo og hálfan leik

Þrátt fyrir tapið hafa fimm af sex hálfleikum verið vel spilaðir af hálfu íslenska liðsins á mótinu til þessa. Guðmundur er ánægður með að vera á leiðinni í milliriðla úr erfiðum riðli.

„Við verðum líka að líta á þetta mót í heild sinni. Ef Danir hefði unnið Ungverja værum við úti og ekki á leið í milliriðil, þrátt fyrir að við höfum unnið tvo fyrstu leikina. Fram til þessa höfum við spilað tvo og hálfan leik frábærlega, við áttum bara slakar 30 mínútur í seinni hálfleik í dag.“

Tökum einn leik í einu

Ísland mætir Slóveníu, Portúgal, Noregi og Svíþjóð í milliriðlinum frá föstudegi til miðvikudags.

„Þetta eru allt góð lið í dag. Slóvenar eru með frábært lið og unnu Svía á sínum heimavelli. Portúgal er búið að vera spútnikliðið og í stöðugri framför. Mér líst vel á þennan riðil samt sem áður. Við tökum einn leik í einu og næst er það Slóvenía. Við förum að safna liði núna og gera okkur klára fyrir föstudaginn,“ sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson, en fyrsti leikurinn, við Slóveníu, er í Malmö á morgun.