Guðmundur Franklín Jónsson
Guðmundur Franklín Jónsson
Eftir Guðmund Franklín Jónsson: "Þetta er sú kynslóð sem barðist fyrir frelsi, öryggi og sjálfstæði lands síns."

Frá því að ég man eftir mér var mér kennt að bera virðingu fyrir öllu fólki. Þar gilti einu hvort um ræddi unga eða aldna, ríka eða fátæka, öskukalla eða embættismenn, heilsuhrausta eða fólk með heilsubrest. Bera skyldi virðingu fyrir öllu fólki hvaðan sem það kom og sýna því virðingu. Eftir því sem ég eldist þykir mér þessi virðing, sem þótti svo sjálfsögð í þá daga, vera á undanhaldi. Það er þungbært að fylgjast með þessari þróun því hún er ekki bara illskiljanleg heldur hreint og beint óskiljanleg.

Breytt gildi

Mér þótti gott að búa í samfélagi þar sem reynt var að hlúa að þeim sem minna mega sín og rétta hlut þeirra. Ég sá fyrir mér að þegar ég eltist myndi ég eiga áhyggjulaust ævikvöld í kerfi sem héldi þokkalega utan um mig en ég hef þurft að horfast í augu við að sú sé ekki raunin lengur. Öll þessi gömlu og góðu gildi virðast hafa breyst og finnst mér ég sjá það einna skýrast í því hvernig ráðamenn koma fram við eldri borgara og öryrkja.

Kynslóðin mikla

Það er eins og það hafi gleymst að það fólk sem er fullorðið í dag er fólkið sem lagði grunninn að samfélaginu okkar, kynslóðin mikla eins og hún er kölluð í Ameríku. Þetta er sú kynslóð sem barðist fyrir frelsi, öryggi og sjálfstæði lands síns. Þetta eru þeir einstaklingar sem unnu baki brotnu svo við gætum lifað eins þægilegu lífi og kostur er á. Þetta er sá hópur sem á mestar þakkir skildar en ráðamenn virðast vilja ýta þeim til hliðar, jaðarsetja þau og hætta að bera virðingu fyrir verkum þeirra.

Sálarlaus geymslupláss

Ég get ekki orða bundist lengur. Móðir mín verður 91 árs á þessu ári, ef guð lofar, og þótt hún sé ein af þeim heppnu sem geta búið heima með stuðningi frá fjölskyldunni eru svo margir aðrir sem búa ekki við slík forréttindi. Ég vil að komið sé fram við þennan hóp eins og mamma kom fram við okkur systkinin; af alúð, virðingu og skilningi. Þau eiga ekkert minna skilið eftir alla sína vinnu í okkar þágu og í þágu samfélagsins. Það á enginn, nokkurn tímann, að finna fyrir því að sér hafi verið komið fyrir einhvers staðar, í eitthvert geymslupláss, þar sem beðið er eftir að viðkomandi renni út. Slík tilvera er ekki boðleg og hvað þá fólkinu sem við eigum allt okkar að þakka.

Verum þakklát

Það er löngu kominn tími til að áherslum sé snúið við á Alþingi. Í stað þess að fjárfesta ógrynni af peningum í grænum gæluverkefnum og sjóðum sem virðast hafa þann eina tilgang að moka undir vildarvini ráðherra á frekar að fjárfesta í fólkinu sem ruddi brautina. Það á að sjá til þess að þau hafi það sem best og sýna þeim verðskuldaða virðingu með þakklæti og reisn. Að þau fái það sem þau þurfa og umfram allt á að sýna þeim að þau skipta okkur máli því þau gera það.

Tengjum saman

Takist okkur það er hálfur björninn unninn því ég verð nefnilega ekki ánægður fyrr en við finnum leið til að brúa bilið milla þeirra yngri og þeirra eldri. Ég var nefnilega svo heppinn að amma og afi bjuggu í sama húsi og við fjölskyldan og því þekki ég og skil þau forréttindi að geta leitað til þeirra sem eldri eru. Gamla fólkið býr yfir hafsjó af fróðleik, reynslu og þolinmæði til að kenna börnunum okkar. Það er hreint með ólíkindum að ekki skuli hafa verið gerðar fleiri tilraunir með að tengja þessa tvo hópa og leyfa þeim að læra hvor af öðrum. Nú vinna flestallir foreldrar meira og minna úti og börnin eru oftar en ekki ein heima, hvers vegna er ekki boðið upp á að þau fari í heimsóknir á elliheimili og kynnist lífinu í raun og sögu? Hver er tilgangurinn með því að aðskilja alla hópa í stað þess að tengja þá og stefna að samheldnara samfélagi?

Rétta forgangsröðun, takk

Þeir heppnu sem fengu að alast upp með ömmu sinni og afa búa að því alla tíð. Þau kenndu okkur betri íslensku. Þau kenndu okkur að lesa. Þau kenndu okkur jafnvel að prjóna, smíða, hnýta flugur eða tefla skák. Það er svo undursamlegt að hafa aðgang að þessari kynslóð sem ruddi brautina fyrir okkur unga fólkið. Þetta er það sem er tekið frá börnunum okkar því ráðamönnum dettur ekki í hug að tengja þessa hópa saman. Þessu þurfum við að breyta í sameiningu. Við þurfum að finna leiðir til að gera samfélagið samheldnara og auka virðinguna fyrir öllum sem tilheyra því. Við þurfum að bæta hag eldri borgara og öryrkja og sjá til þess að þau búi við mannsæmandi aðstæður og hafi mannsæmandi tekjur. Ef þú spyrð mig, þá er og verður þetta langtum mikilvægara en öll þau gæluverkefni sem ríkisstjórninni gæti dottið í hug.

Höfundur er viðskipta- og hagfræðingur. gundi.jonsson@gmail.com