Í Egyptalandi Sverrir Friðþjófsson og Sverrir Þór skoða píramída.
Í Egyptalandi Sverrir Friðþjófsson og Sverrir Þór skoða píramída. — Ljósmyndir/Kristófer Dignus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Feðgarnir Sverrir Friðþjófsson, sem kallaður var Sveddi í skóla, og Sverrir Þór Sverrisson, sem gjarnan er nefndur Sveppi, fóru með kvikmyndagerðarmönnum í heimsreisu í fyrra, ferðalagið var tekið upp og verður sýnt í sex þáttum í Sjónvarpi Símans. Þáttaröðin heitir „Pabbi skoðar heiminn“ og verður fyrsti þátturinn sýndur 4. febrúar.

Þetta er frumraun föðurins á hvíta tjaldinu en sonurinn hefur verið þar iðinn við kolann frá aldamótum. „Sverrir Þór sagði að ég héngi bara heima, nennti ekki að hreyfa mig, færi aldrei út og kominn væri tími til þess að dusta rykið af skónum, fara aftur með honum á Rolling Stones-hljómleika, sjá Tottenham spila eða gera eitthvað,“ segir Sverrir um aðdraganda þáttanna. Hann segir að þessar tillögur hafi engu breytt í nokkur ár. „Þá varpaði Sverrir Þór fram þeirri hugmynd að ég gerði óskalista, skrifaði niður hvert ég vildi fara, hvað ég vildi gera, en ekkert varð úr því. Loks snerist umræðan um að heimsækja nokkrar borgir, fara út fyrir Evrópu og Bandaríkin, sem ég hafði aldrei gert, og við ákváðum að fara í heimsreisu á fjórum vikum.“

Gubbupest og kvíði

Fimm manna teymi undir stjórn Kristófers Dignus, leikstjóra og handritshöfundar, ásamt feðgunum og Huga Halldórssyni og Birni Ófeigssyni, fór í ferðina í lok janúar í fyrra. Flogið var til Parísar og síðan í austurátt. Stoppað í um þrjá daga á hverjum stað, í Egyptalandi, Dubai, Indlandi, Taílandi, Japan, Hawaii, Los Angeles og Las Vegas. „Þetta var skrýtið,“ segir Sverrir. „Við vorum alltaf með hljóðnema á okkur og spjölluðum um lífið og tilveruna, allt var tekið upp sem við sögðum og gerðum, þannig að í þáttunum kemur fram sitt lítið af hverju fyrir utan upplifunina á hverjum stað.“

Upplifunin var „stórkostlega skemmtileg“, eins og Sverrir orðar það. „Ekki er sérstaklega gaman á flugvöllum og að fara tíu sinnum upp í flugvél á mánuði er frekar lýjandi,“ segir hann. Leggur samt áherslu á að félagsskapurinn hafi verið góður og strákarnir léttir og skemmtilegir. „Við reyndum að passa okkur á að fara ekki út í vitleysu eins og ameríska drauminn, ég var dreginn af báti og hékk í fallhlíf sem var tengd við hann með um 300 metra löngu reipi, fór á kaf í sjóinn, upp í hæsta rússíbana í heimi og ég veit ekki hvað. Ég er mjög lofthræddur og stundum var ég með gubbupest og kvíða fyrir því sem fram undan var en allt gekk vel. Ég man samt ekkert eftir rússíbanaferðinni í Tókýó niður braut sem er hærri en Hallgrímskirkjuturn.“

Frumraunin fyrir framan kvikmyndatökuvélina var auðveldari en Sverrir átti von á. „Ég lét hafa mig út í allt og treysti í blindni á Sverri Þór, elti bara og vissi oft ekki fyrr en ég var kominn út í tóma vitleysu. Hlutverkin hafa því snúist við, því þegar hann var gutti hljóp hann alltaf á eftir mér.“

Sverrir segir að nafnið á þáttaröðinni sé þannig til komið að þegar barnabörnin hafi verið í heimsókn hafi hann gjarnan lesið bókina Helgi skoðar heiminn eftir Njörð P. Njarðvík fyrir þau. „Þetta var vinnuheiti til að byrja með en það festist við.“