Richard Dawson Woodhead fæddist 6. apríl 1947 í Blackpool á Englandi. Hann lést 27. desember 2019 á gjörgæsludeild Hospiten á Tenerife.

Foreldrar hans voru hjónin Kristín Gestsdóttir, f. 26.10. 1923, frá Siglufirði, og Franks Dawson Woodhead, f. 3.8. 1919 frá Dodworth á Englandi, þau eru bæði látin.

Hálfbræður sammæðra eru: Svavar Óskar Bjarnason, f. 8.2. 1953, d. 3.9. 2019. Hilmar Grétar Bjarnason, f. 5.4. 1959.

Hálfsystur samfeðra eru: Karen Withaker, f. 18.3. 1954, Lynne Cooper, f. 15.1. 1957.

Richard kvæntist árið 1967 Sigríði Bragadóttur, f. 28.10. 1949, þau skildu. Richard og Sigríður eignuðust dótturina Kristínu Richardsdóttur, f. 15.11. 1966, í sambúð með Aðalsteini Jónatanssyni, f. 5.4. 1957.

Börn Kristínar og Einars S. Jónssonar, f. 26.3. 1963: Valgerður Einarsdóttir, f. 18.12. 1984, gift Eysteini Má Guðvarðarsyni, f. 3.12. 1981. Börn þeirra eru Særún Lilja, f. 1.1. 2007, Ísak Logi, f. 14.7. 2008, og Bergrún Elva, f. 1.2. 2016. Jón Bragi Einarsson, f. 1.9. 1988, í sambúð með Maríu Sigurðardóttur, f. 3.6. 1993. Kristín Perla Jónsdóttir, f. 28.9. 2014, móðir Guðný Hermannsdóttir. Drengur Jónsson, f. 21.12. 2019, móðir María Sigurðardóttir.

Íris Einarsdóttir, f. 10.5. 1990, í sambúð með Gísla Frey Ólafssyni, f. 2.10. 1992. Dóttir þeirra er Dagbjört Freyja Gísladóttir, f. 4.9. 2019.

Richard kvæntist 29.12. 1973 Jennýju Kamillu Harðardóttur, f. 15.3. 1953, þau skildu. Börn Richards og Jennýjar eru: Agnes Ásta Woodhead, f. 26.4. 1974, í sambúð með Einari Gunnari Einarssyni, f. 13.2. 1970. Frank Dawson Woodhead, f. 6.10. 1981, í sambúð með Bennie May Wright, f. 24.7. 1975.

Börn Franks: Richard Dawson Woodhead, f. 26.7. 2000, barnsmóðir Ásta Wiencke. Benjamín Ágúst Dawson Franksson, f. 27.3. 2007, barnsmóðir Steinunn Bríet Ágústsdóttir. Adam Ingi Wienkce Aronsson, f. 24.8. 1998, uppeldissonur.

Lára Gestrún Woodhead, f. 18.5. 1988, í sambúð með Ólafi Tryggva Eggertssyni, f. 27.3. 1985. Börn Láru og Ólafs eru: Ástrós Anna Ólafsdóttir, f. 17.7. 2007. Jóhann Már Ólafsson, f. 17.1. 2011. Elínrós Anna Ólafsdóttir, f. 7.3. 2019.

Eftirlifandi sambýliskona Richards er Margrét Pétursdóttir, f. 11.2. 1947.

Richard ólst upp á Siglufirði, í Njarðvík og Vogum, hjá móður sinni og móðurömmu, Láru Larsdóttur Thorsen.

Richard vann við ýmis störf, við síldarvinnslu á Siglufirði, hlaðmaður hjá Loftleiðum, rútubílstjóri hjá Steindóri Sigurðssyni, en hann vann þó lengst af á véladeild hjá Íslenskum aðalverktökum, þar til hann stofnaði Útfararþjónustu Suðurnesja árið 1999. Starfaði hann sem útfararstjóri fram á síðasta dag.

Richard var einn af stofnendum Lionsklúbbsins Garðs og aðalhvatamaður að stofnun fyrsta Leoklúbbs á Íslandi, Leoklúbbsins Sigga. Hann var félagi í Fornbílaklúbbi Íslands og Félagi húsbílaeigenda.

Útför Richards fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 16. janúar 2020, klukkan 13.

Það var alltaf notalegt að setja upp í líkbílinn til Rikka að lokinni útför. Slíkar athafnir geta verið krefjandi en ég þjónaði við Keflavíkurkirkju í hartnær áratug. Rikki hlýddi á minningarorðin, hann þekkti jú flest þau sem þarna fengu með honum hinsta farið í kirkjugarðinn.

Stundum fannst honum presturinn hafa verið of háfleygur. Hann gantaðist með að greinilega væri fátt vænlegra til vinsælda en að geispa golunni. Ég svaraði um hæl á þá leið að ef það kæmi í minn hlut að flytja yfir honum líkræðuna myndi ég hefja hana á orðunum: „Nú hefur þjónustudeild Útfararstofu Suðurnesja tekið til starfa.“ Já, nú væri hann kominn í félagsskap þeirra fjölmörgu sem hann hafði fylgt til hvíldu í helgum reit. Þeir gætu loks haft skoðun á þjónustu hans. Honum fannst þetta ágæt hugmynd og brosti út í annað, með vindilinn í munnvikinu. Nú þjóna ég á öðru landsvæði og vinir Rikka og vandamenn munu njóta þess að hlýða á séra Erlu flytja yfir honum kveðjuorð.

Öllu gamni fylgir þó nokkur alvara. Það var merkilegt að fylgjast með því hversu nátengdur Rikki var þeim sem hann þjónaði. Hann sagði mér frá því að stundum vitjuðu þeir hans í draumi. Hann var næmur og hann var vakinn og sofinn í störfum sínum. Þá var Rikki góður félagi og stuðningur okkur sem unnum með honum að því að undirbúa útför.

Hann var líka alltaf jafn virðulegur í svörtu einkennisklæðunum, eins og enskur aðalsmaður. Mikil blessun hefur það verið fyrir samfélagið suður með sjó að hafa notið þjónustu Rikka á löngu skeiði en með honum kveður einn af þeim einstaklingum sem settu svip sinn á mannlífið. Guð blessi minninguna um Rikka og veri með öllum aðstandendum hans.

Skúli Sigurður Ólafsson.

Mig langar að minnast Rikka með nokkrum orðum. Ég kynntist Rikka útfararstjóra er ég hóf störf í Útskálaprestakalli fyrir rúmum 10 árum. Við fyrstu kynni minnti hann mig á persónu úr kvikmynd, skarpur svipur, yfirvaraskeggið, þykka hárið, erlent nafn. Það var einhver dulúð yfir þessum manni. Viðræðugóður frá fyrsta degi, húmoristi fram í fingurgóma, fagmaður á sínu sviði. Það var einhver glæsileiki yfir þjónustu hans. Hann var fágaður og tignarlegur en jafnframt hógvær og nærgætinn. Aldrei heyrði ég nokkurn mann hallmæla þjónustu hans. Mín upplifun var sú að hann mætti öllum af sömu virðingu og kærleika í sinni þjónustu. Oft var haft orð á því hversu fagurlega hann gekk frá hinum látnu í kisturnar. Þjónustulundin rík dag sem nótt. Hann lét formlega af störfum fyrir nokkru er dóttir hans tók við rekstri útfararstofunnar en ætíð var hann tilbúinn að létta undir þegar álag var mikið og eins að standa við eldri „pantanir“ sem hann hafði lofað. Það er missir að Rikka. Sterkur persónuleiki sem skilur eftir sig margar minningar. Við prestarnir njótum þeirra forréttinda að vera með fólki jafnt í gleði sem sorg en útfararstjórar eru einkum með fólki á erfiðustu stundunum í lífi þess. Þar stóð Rikki sína vakt með sóma. Byrjaði sem áhugamaður með Lionsklúbbnum sínum en gerði útfararþjónustuna síðan að sínu aðalstarfi í mörg ár eftir því sem umsvifin jukust. Guði séu þakkir fyrir þjónustu hans. Ég hef því miður ekki tök á að vera viðstaddur útförina en votta aðstandendum öllum samúð og bið Guð að hugga og styrkja á komandi tíma.

Genginn er Rikki á frelsarans fund,

fágaður ætíð með þjónustulund.

Herramaður, hógvær að sjá,

hneigir sig núna Guði hjá.

Sigurður Grétar Sigurðsson.

Nú í lok nýliðins árs, þegar okkur barst sú frétt að Rikki frændi væri farinn í lokaferðina sína, þá tók það okkur nokkra stund að átta okkur á því að þetta er veruleiki sem ekkert fær breytt.

Elsku Rikki frændi, eins og þú varst alltaf nefndur innan Hlíðarvegs-fjölskyldunnar. Þú varst staddur á Tenerife þegar kallið kom og við trúum því að þeir sem á undan eru gengnir úr fjölskyldunni okkar hafi tekið vel á móti þér og leitt þig inn í sumarlandið, inn í land ljóssins.

Við móðurbróður-fjölskylda þín frá Hlíðarvegi 11 Siglufirði, þökkum þér alla samfylgd og samveruna liðin ár.

Við eigum margar góðar minningar um þig sem munu fylgja okkur og lifa áfram. Við minnumst þín og þökkum allar góðu og skemmtilegu stundirnar sem við áttum saman hér fyrir norðan og eins þegar við komum suður til ykkar. Þú varst ætíð hrókur alls fagnaðar með glens og grín og það var alltaf líf og fjör í kringum þig.

Seinna fækkaði ferðunum á milli eins og gengur, en alltaf þegar komið var saman var eins og við hefðum hist í gær og ekki var vík milli vina

Við minnumst líka stunda þar sem sorgin kom við sögu þegar kærir ástvinir voru kallaðir í Sumarlandið, þangað sem leið okkar allra liggur svo að lokum. Á þeim stundum er það samvera og hlýlegheit fjölskyldu og vina sem er okkur öllum svo mikilvæg. Við sem ekki komumst í útförina sendum okkar hlýjustu hugsanir og kveðjur suður yfir heiðar til fjölskyldunnar.

Þó allir hljóti að fara þessa ferð

að finna andans björtu heimakynni,

þá streymir um hugann minninganna

mergð

er mætur vinur hverfur hinsta sinni.

(Vilhjálmur S.V. Sigurjónsson)

Far þú í friði, elsku Rikki frændi.

Við vottum ykkur öllum dýpstu samúð okkar, þeim Margréti Pétursd., sambýliskonu Richards, og fjölskyldu, börnum Richards og fjölskyldum þeirra, börnum Svavars og fjölskyldum þeirra. Hilmari bróður Richards og fjölskyldu hans sem og allri fjölskyldu og vinum hans Richards.

Með innilegum samúðarkveðjum.

Líney Bogadóttir, börn og fjölskyldur frá Hlíðarvegi 11, Siglufirði.

Kveðja frá Félagi íslenskra útfararstjóra

Við félagsmenn í FÍÚ kveðjum góðan félaga og vin, Richard D. Woodhead, sem fallinn er nú frá og þökkum við honum allar góðar stundir og gott samstarf.

Við sem eldri erum í félaginu höfum þekkt Rikka allt frá því að hann fór að starfa við útfarir með félögum sínum í Lions í Garði og svo eftir að hann stofnaði Útfararþjónustu Suðurnesja og tók yfir alla starfsemi þeirra þar. Samstarf og samvinna félagsmanna FÍÚ við Rikka hefur ávallt verið með ágætum í gegnum árin og eftir að Kristín Richardsdóttir og sambýlismaður hennar Aðalsteinn Hákon Jónatansson tóku við rekstrinum af honum hefur það góða samstarf haldið áfram.

Við útfararstjórar í Félagi íslenskra útfararstjóra vottum Kristínu og Aðalsteini og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð.

F.h. félagsins,

Rúnar Geirmundsson, formaður.