Flateyri Ólafstún er efst í þorpinu. Húsið við götuna sem flóðið lenti á er fullt af snjó og stóðu gluggar opnir í gær.
Flateyri Ólafstún er efst í þorpinu. Húsið við götuna sem flóðið lenti á er fullt af snjó og stóðu gluggar opnir í gær. — Ljósmynd/Önundur Hafsteinn Pálsson
Ragnhildur Þrastardóttir Hjörtur J. Guðmundsson Sumir þeirra björgunarsveitarmanna sem björguðu unglingsstúlku sem hafði grafist undir snjóflóði á Flateyri á þriðjudagskvöld höfðu einnig orðið vitni að snjóflóðinu sem þar féll árið 1995.

Ragnhildur Þrastardóttir

Hjörtur J. Guðmundsson

Sumir þeirra björgunarsveitarmanna sem björguðu unglingsstúlku sem hafði grafist undir snjóflóði á Flateyri á þriðjudagskvöld höfðu einnig orðið vitni að snjóflóðinu sem þar féll árið 1995. Þá létust tuttugu manns.

„Þetta rifjar upp erfiðar minningar fyrir sumum. Einn af þeim sem komu hingað með varðskipinu í nótt sagði við mig að hann tryði ekki að hann væri kominn aftur í þessar kringumstæður,“ segir Magnús Einar Magnússon, formaður björgunarsveitarinnar Sæbjargar á Flateyri.

Hann var einn af þeim sem komu að því að bjarga stúlkunni. Snjóflóðið féll á heimili hennar en móðir stúlkunnar og tvö yngri börn komust út úr húsinu af sjálfsdáðum. Stúlkan er ekki alvarlega slösuð.

Vöknuðu við drunurnar

„Þetta leit ekki vel út við fyrstu sýn en sem betur fer fór þetta mjög vel,“ segir Magnús.

Snjóflóðin sem féllu á Flateyri á þriðjudagskvöld voru tvö og bæði gífurlega stór. Það þurfti varla að kalla björgunarsveitarmenn út því þeir vöknuðu flestir við drunurnar sem fylgdu fyrra snjóflóðinu. „Einn hérna í björgunarsveitinni býr við aðalgötuna og sendi okkur myndir af hafnarstæðinu, sem var náttúrulega alveg í rúst. Fyrstu viðbrögð okkar voru að mæta niður eftir og hafa samband við lögregluna upp á rýmingu og annað slíkt,“ segir Magnús. Skömmu síðar féll seinna flóðið. „Þá lögðum við alla áherslu á að bregðast við þar,“ segir Magnús.

Tíu björgunarsveitarmenn fóru inn í húsið og tveir stóðu fyrir utan og stjórnuðu aðgerðum og var Magnús annar þeirra. Egill Ólafsson, einn björgunarmanna, sagði við mbl.is, að

húsið hafi verið fullt af snjó. „Fjórir, fimm náðu að skríða með loftinu. Það voru kannski 50-60 sentímetrar upp í loftið og þeir byrjuðu að moka þar niður. Við hinir fórum fyrir framan og byrjuðum að moka þar inn. Mér hefur held ég aldrei liðið eins vel og þegar ég heyrði stúlkuna gráta,“ sagði Egill.

Stúlkan var á tæplega tveggja metra dýpi í 40 mínútur. Félagi Egils, sem var einn þeirra sem tróð sér inn með loftinu, lýsti því fyrir honum að hann hefði notað snjóflóðastangir og þegar hann hafi fundið fyrir einhverju mjúku hefði allt verið sett á fulla ferð.

Auk björgunarsveitarmanna buðu margir bæjarbúar fram aðstoð sína. „Allir voru til í að hjálpa,“ segir Magnús.

Stúlkan var flutt til Ísafjarðar með varðskipinu Þór og dvaldi á sjúkrahúsinu þar í gær ásamt móður sinni og systkinum.

Enn mikil hætta

Enn er mikil hætta á snjóflóðum á norðanverðum Vestfjörðum, samkvæmt spám Veðurstofu Íslands, og verður sú hætta áfram til staðar, að minnsta kosti í dag.

Magnús segir að björgunarsveitarmenn séu tilbúnir að koma til aðstoðar ef eitthvað meira gerist. Hann segir einnig að Flateyringum þyki vont að varnargarður hafi brugðist enda hafi íbúar treyst á þá lengi vel. Útlit er fyrir betra veður á svæðinu í dag og næstu daga. Veðrið hefur verið slæmt undanfarið og farið var að bera á vöruskorti í verslunum enda bárust aðföng ekki vestur vegna ófærðar.