Morðvopn Hnífur fannst falinn undir mottu í bíl hins grunaða.
Morðvopn Hnífur fannst falinn undir mottu í bíl hins grunaða. — Ljósmynd/Lögreglan í Alicante
Blóðugur hnífur og föt eru meðal sönnunargagna spænsku lögreglunnar í máli íslenska karlmannsins sem grunaður er um að hafa banað sambýlismanni móður sinnar á Torrevieja á Spáni aðfaranótt sunnudags, sem og um morðtilraun og hótanir gagnvart móður...

Blóðugur hnífur og föt eru meðal sönnunargagna spænsku lögreglunnar í máli íslenska karlmannsins sem grunaður er um að hafa banað sambýlismanni móður sinnar á Torrevieja á Spáni aðfaranótt sunnudags, sem og um morðtilraun og hótanir gagnvart móður sinni. Árásarmaðurinn var flúinn af vettvangi þegar lögregla kom á staðinn, en hann fannst fljótlega í nágrenninu, útataður blóði.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá lögreglunni í Alicante í gær vegna málsins. Þar segir að nágranni hafi hringt á lögreglu vegna hugsanlegs innbrots þar sem hann hafði séð mann klifra yfir vegg við heimili í Los Balcones-hverfinu í Torrevieja. Þegar lögregla mætti á staðinn tók þar á móti þeim íslensk kona, en þar var einnig alvarlega slasaður maður með fjölda stungusára, meðal annars á baki. Hann lést á vettvangi þrátt fyrir að lögregla hefði gert sitt besta til að stöðva blæðingu á meðan beðið var eftir sjúkrabíl. Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar var í fyrstu talið, aðallega vegna tungumálaörðugleika, að um manndráp af gáleysi hefði verið að ræða þar sem sonur konunnar hefði hrint manninum á glugga með þeim afleiðingum að hann brotnaði.