Svíi Ljubomir Vranjes stýrir Slóvenum og er mótherji á morgun.
Svíi Ljubomir Vranjes stýrir Slóvenum og er mótherji á morgun. — AFP
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Keppni í milliriðli Íslands hefst í Malmö á morgun en hinn riðillinn fer af stað í Vínarborg í dag.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Keppni í milliriðli Íslands hefst í Malmö á morgun en hinn riðillinn fer af stað í Vínarborg í dag. Nú eru í húfi tvö sæti í undanúrslitum fyrir tvö efstu liðin úr hvorum riðli, auk þess sem mörg liðanna eru í baráttu um að komast í undankeppni Ólympíuleikanna.

Íslenska liðið mætir Slóvenum, undir stjórn hins sænska Ljubomirs Vranjes, í fyrsta leik sínum á morgun. Slóvenar hafa unnið alla þrjá leiki sína á EM; þeir lögðu Svía, Svisslendinga og Pólverja að velli í F-riðlinum í Gautaborg og taka með sér tvö stig eftir frækinn sigur á Svíum, 21:19.

Á sunnudaginn leikur Ísland síðan við lið Portúgals, sem kom gríðarlega á óvart með því að sigra Frakkland, 28:25, í fyrstu umferð D-riðilsins í Þrándheimi og það varð til þess að Frakkar þurftu að halda heimleiðis eftir riðlakeppnina. Portúgal vann líka Bosníu en tapaði fyrir Norðmönnum í Þrándheimi, 28:34, og er því án stiga í byrjun.

Norðmenn eru hins vegar með þau tvö stig með sér úr Portúgalsleiknum og þeir eru næstsíðustu mótherjar Íslendinga á þriðjudaginn. Norðmenn sigruðu auk þess bæði Frakka og Bosníumenn og eru af mörgum taldir sigurstranglegir í þessum milliriðli.

Í lokaumferðinni á miðvikudaginn leikur íslenska liðið síðan við heimamenn, Svía, og endar því á tveimur Norðurlandaþjóðum. Þetta verður í fyrsta sinn sem Ísland mætir þremur af grannþjóðum sínum á stórmóti karla í handbolta.