Sveiflur „Breyskleiki persónanna og samspil við aðstæður fá áhorfendur auðveldlega til að sveiflast milli samúðar og hláturs,“ segir í rýni um Vanja frænda.
Sveiflur „Breyskleiki persónanna og samspil við aðstæður fá áhorfendur auðveldlega til að sveiflast milli samúðar og hláturs,“ segir í rýni um Vanja frænda. — Ljósmynd/Grímur Bjarnason og Bjarni Grímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Anton Tsjekhov. Íslensk þýðing: Gunnar Þorri Pétursson. Leikstjórn: Brynhildur Guðjónsdóttir. Leikmynd: Börkur Jónsson. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Bjarni Frímann Bjarnason.

Eftir Anton Tsjekhov. Íslensk þýðing: Gunnar Þorri Pétursson. Leikstjórn: Brynhildur Guðjónsdóttir. Leikmynd: Börkur Jónsson. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Bjarni Frímann Bjarnason. Leikgervi: Elín Sigríður Gísladóttir. Hljóð: Þórður Gunnar Þorvaldsson. Leikarar: Arnar Dan Kristjánsson, Halldór Gylfason, Hilmir Snær Guðnason, Jóhann Sigurðarson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir og Valur Freyr Einarsson. Frumsýning á Stóra sviði Borgarleikhússins 11. janúar 2020.

Brynhildur Guðjónsdóttir vakti verðskuldaða athygli sem leikstjóri þegar hún sviðsetti magnaða uppfærslu á Ríkharði þriðja eftir William Shakespeare fyrir sléttu ári. Stuttu eftir frumsýningu var tilkynnt að hún myndi næst leikstýra öðru stórvirki leikbókmenntanna, Vanja frænda eftir Anton Tsjekhov, í janúar 2020. Uppfærslurnar eiga það sameiginlegt að Brynhildi tekst með úthugsaðri túlkun og sviðsetningu að draga fram hversu sorglega brýn verkin tvö eru og í sterku samtali við nútímann. Meðan Ríkharður kallaðist í valdabrölti sínu á við ráðamenn samtímans speglar heimur Vanja þau brýnu málefni sem snúa annars vegar að umhverfissjónarmiðum, þar sem við erum sífellt minnt á að athafnir okkar og athafnaleysi skilar komandi kynslóðum jörðinni í verra ásigkomulagi en við tókum við henni, og hins vegar misskiptingu auðs þar sem fjöldinn stritar myrkranna á milli en býr engu að síður við fátækt meðan aðrir vita ekki aura sinna tal en dettur þó ekki í hug að leggja nema smáræði af mörkum.

Vanja frændi Borgarleikhússins gerist í rússneskri sveit í kringum aldamótin 1900. Gunnar Þorri Pétursson hefur unnið nýja og einstaklega þjála þýðingu á leikritinu sem færir tungutak persóna nær nútímaáhorfendum. Eins og Gunnar Þorri bendir á í grein sinni í leikskrá var Tsjekhov snemma gagnrýndur fyrir skort á eiginlegri atburðarás í verkinu sem fjalli aðeins um persónur sem séu fastar í óþægilegum aðstæðum. Þessa gagnrýni má hæglega heimfæra á fleiri leikrit Tsjekhovs og séu áhorfendur að leita að framvindudrifnu plotti er hætt við því að þeir verði fyrir vonbrigðum. Aðal Tsjekhovs sem leikskálds felst ekki í fléttunni heldur í margbrotnum og spennandi persónum sem eru oft alls ekki samkvæmar sjálfum sér þegar kemur að leit þeirra að tilgangi lífsins, þrá eftir breytingum og hamingju, von um ást, ótta við þverrandi ungdómsþrek og eftirsjá eftir glötuðum tækifærum. Breyskleiki persónanna og samspil við aðstæður fá áhorfendur auðveldlega til að sveiflast milli samúðar og hláturs. Persónur Tsjekhovs segja iðulega eitt og gera síðan annað, sem býr til spennandi dýnamík í heimi verksins og heldur áhorfendum sífellt á tánum. Óhætt er að segja að tónninn sé sleginn snemma í uppfærslunni þegar Marína fóstra býður Astrov lækni að þiggja te sem læknirinn afþakkar ákveðið um leið og hann tekur sér tebolla og drekkur af ákefð. Skýr lestur Brynhildar á verkinu, frábær leikaravinna, sú ákvörðun að láta persónur iðulega ávarpa áhorfendur beint, hárnákvæm tempóskipti og nærvera þögulla persóna í helstu lykilsenum magnar lífið í þessu góða leikriti og skapar sterka og heildstæða leikhúsupplifun sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Í Vanja frænda hittum við fyrir Vanja (Valur Freyr Einarsson) og Sonju (Katrín Halldóra Sigurðardóttir), systurdóttur hans, sem búa og vinna á sveitaóðali fjölskyldunnar. Árum saman hafa þau unnið hörðum höndum til þess að geta séð fyrir prófessornum Aleksandr (Jóhann Sigurðarson) meðan hann bjó og starfaði í borginni, en hann var kvæntur móður Sonju þar til hún lést. Þegar verkið hefst er Aleksandr, sem kominn er á eftirlaun, búinn að dvelja um nokkra hríð á sveitaóðalinu ásamt Jelenu (Unnur Ösp Stefánsdóttir), ungri og fallegri eiginkonu sinni, sem heillar jafnt Vanja og Astrov lækni (Hilmir Snær Guðnason). Á meðan Astrov gengur með grasið í skónum á eftir Jelenu er hann blindur á ást Sonju á honum. Á óðalinu dveljast einnig María (Sigrún Edda Björnsdóttir), móðir Vanja og fyrri eiginkonu prófessorsins, sem sér ekki sólina fyrir fyrrverandi tengdasyni sínum, hinn ólánsami Ílja öðru nafni Vaffla (Halldór Gylfason) en fjölskylda hans átti áður óðalið, gamla fóstran Marína (Margrét Helga Jóhannsdóttir) og vinnumaðurinn Jefím (Arnar Dan Kristjánsson). Jóhann Sigurðarson smellpassar í hlutverk hins aldraða og síkvartandi prófessors sem finnst hann fastur í útlegð í sveitinni og saknar lífsins, fjörsins og framans í borginni. Halldór Gylfason er dásamlegur í hlutverki Ílja sem fór á mis við hamingjuna en hélt að eigin sögn samt stoltinu. Hann er spaugilega skilningssljór og blindur á aðstæður, meðal annars í samtali Jelenu og Astrovs þar sem hann sýnir henni kortin sín.

Í gervi sínu sem Astrov minnir Hilmir Snær Guðnason skemmtilega á Tsjekhov, en leikskáldið starfaði sem kunnugt er sjálfur sem læknir. Hann er eini hugsjónamaður verksins og hæglega hægt að dást að því hversu umhugað honum er um hamingju mannkynsins. Hann er engu að síður þjakaður af samviskubiti yfir að ná ekki að áorka nógu miklu þegar kemur að náttúruvernd og vel meðvitaður um að framtíðarkynslóðir muni ekki hugsa hlýlega til fyrri kynslóða. Það þjónar uppfærslunni vel og eykur dýnamíkina í samspili persóna að mála Astrov ekki upp sem glæsilegan elskhuga, heldur leggja fremur áherslu á brestina og mennskuna. Í meðförum Hilmis Snæs verður Astrov ekki aðeins skarpsýni hugsjónamaðurinn heldur einnig glámskyggni ruddinn sem er svo upptekinn af sjálfum sér að hann sér ekkert í kringum sig – allra síst konurnar tvær sem dragast að honum.

Katrín Halldóra Sigurðardóttir er frábær í hlutverki Sonju og miðlar vel vinnusemi persónunnar en jafnframt viðkvæmni þegar hún gerir sér ljóst að það er betra að lifa í óvissu, því þá er að minnsta kosti hægt að lifa í voninni. Sterk sviðsnærvera hennar og stöðug virk hlustun skilaði sér með áhrifaríkum hætti í öllum samleik. Unnur Ösp Stefánsdóttir fer afar vel með hlutverk hinnar óhamingjusömu Jelenu. Niðurbæld þrá hennar eftir lífinu birtist skýrt í því að hún getur ekki spilað nema hljóðlaust út í loftið. Snjallt er hjá Bjarna Frímanni Bjarnasyni, sem annast tónlist uppfærslunnar, að taka útgangspunkt í píanótónlistinni sem Jelena fær ekki að skapa. Kómískar tímasetningar Unnar Aspar nutu sín til hins ýtrasta í kortasenunni með Astrov þar sem hún gat ekki leynt því hversu áhugalaus hún var um skógræktina. Reiðilestur hennar snemma verks yfir skeytingarleysi manna gagnvart náttúrunni var glæddur gulri lýsingu úr smiðju Björns Bergsteins Guðmundssonar ljósameistara svo minnti á gróðureldana ógurlegu sem nú brenna hinum megin á hnettinum.

Valur Freyr Einarsson fer með titilhlutverk sýningarinnar og tekst af mikilli innlifun að miðla sársauka, reiði og vonbrigðum manns sem áttar sig á því að hann er aðeins aukapersóna í eigin lífi. Um árabil hefur hann stritað í þágu tálvonar, en sér nú fram á að fá aldrei að njóta ávaxta erfiðis síns. Frammistaða Vals Freys í þessu mjög svo krefjandi hlutverki var hreint út sagt mögnuð.

Hljóðmynd Þórðar Gunnars Þorvaldssonar og leikgervi Elínar Sigríðar Gísladóttur eru til fyrirmyndar. Leikmynd Barkar Jónssonar birtir okkur veröld þar sem búið er að beisla náttúruna í þágu mannsins. Hornin í ljósakrónunni miklu minna okkur á útdauð dýr héraðsins og búið er að smíða veggi úr trjánum sem áður prýddu landareignina. Litir eru dempaðir í glæsilegum búningum Filippíu I. Elísdóttur og í samspili við gráa viðarveggina fæst skýr tilfinning fyrir forgengileika persóna. Þau birtast okkur eins og fólk á svart/hvítum ljósmyndum fyrri tíma, þrátt fyrir að þau gætu verið persónur og leikendur dagsins í dag. Því miðað við umfjöllunarefni leikritsins gæti það hafa verið skrifað í gær.

Hvort sem litið er til Tsjekhovs, Shakespeares eða grísku harmleikjanna minna leikbókmenntirnar okkur á að mannlegt eðli hefur lítið sem ekkert breyst á þeim tíma sem manneskjan hefur byggt jörðina. Þrátt fyrir ótrúlegar tækniframfarir á umliðnum áratugum og öldum hefur okkur sem manneskjum ekki tekist að beisla breyskleika okkar. Skortur á samkennd með öðrum, græðgi og þröngsýni leiðir fólk ítrekað í ógöngur – oft með skelfilegum afleiðingum fyrir fjöldann.

Silja Björk Huldudóttir