Björgun Varðskipið Þór flutti vistir, björgunarsveitarmenn, lækni, áfallateymi og aðra viðbragðsaðila til Flateyrar. Skipið gat ekki lagst að bryggju.
Björgun Varðskipið Þór flutti vistir, björgunarsveitarmenn, lækni, áfallateymi og aðra viðbragðsaðila til Flateyrar. Skipið gat ekki lagst að bryggju. — Ljósmynd/Önundur Pálsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnhildur Þrastardóttir Hjörtur J. Guðmundsson „Auðvitað átti þetta ekki að geta gerst,“ segir Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, um snjóflóð sem féll á einbýlishús á Flateyri á þriðjudagskvöld.

Ragnhildur Þrastardóttir

Hjörtur J. Guðmundsson

„Auðvitað átti þetta ekki að geta gerst,“ segir Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, um snjóflóð sem féll á einbýlishús á Flateyri á þriðjudagskvöld.

Varnargarður hefði átt að verja húsið og íbúa þess fyrir flóðinu en gerði það ekki.

Stúlka á unglingsaldri, sem var í húsinu, grófst undir snjóflóðinu en móðir hennar og tvö systkini komust út. Félagar í björgunarsveitinni Sæbjörg komu fljótt á staðinn.

„Húsið var allt smekkfullt af snjó, upp í loft, inni í herberginu og á ganginum, í forstofunni og inn í stofuna,“ segir Egill Ólafsson, einn björgunarmannanna. „Við komum móðurinni út og byrjuðum svo að moka. Fjórir, fimm náðu að skríða með loftinu. Það voru kannski 50-60 sentímetrar upp í loftið og þeir byrjuðu að moka þar niður. Við hinir fórum fyrir framan og byrjuðum að moka þar inn. Mér hefur held ég aldrei liðið eins vel og þegar ég heyrði stúlkuna gráta,“ segir Egill.

Stúlkan er ekki mikið slösuð. Hún og fjölskylda hennar voru flutt til Ísafjarðar með varðskipinu Þór í gærmorgun og dvöldu á sjúkrahúsinu þar í gær.

Guðmundur fór til Flateyrar í gær með varðskipinu og var ánægður með það hversu margir ákváðu að nýta sér áfallahjálp sem þar var í boði.

„Þegar fólk fær að tala um hlutina og setja tilfinningar sínar í orð þá holar dropinn steininn,“ segir Guðmundur.

„Ég held að það sé alveg óhætt að segja að ástandið á Flateyri sé viðkvæmt,“ bætir hann við.

Snjóflóðin sem féllu á Flateyri voru tvö og var fjöldahjálparstöð opnuð vegna þeirra. Þegar Morgunblaðið fór í prentun hafði enginn ákveðið að dvelja þar yfir nótt en fjöldi fólks sótti þangað sálrænan stuðning.

Auður Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur og félagi í áfallateymi Rauða krossins, segir að flóðið hafi ýft upp gömul sár frá snjóflóðinu sem féll á Flateyri árið 1995. Þá létust 20 manns.

„Mér finnst fólk taka þessu með miklu æðruleysi. Auðvitað hreyfir þetta svolítið við, þetta ýfir upp sár frá 1995 en heilt yfir tekur fólk þessu vel. Það er rosalega mikil samheldni hérna og íbúarnir halda vel utan um hver annan. Maður er ekki að upplifa neina skelfingu heldur meðtekur fólk ástandið og veltir því fyrir sér hvernig það eigi að vinna sig út úr því.“

Annað snjóflóð féll á sama tíma úr Norðureyrarhlíð í Súgandafirði og olli flóðbylgju sem skall á höfninni á Suðureyri. Engan sakaði en bátar losnuðu og sjór flaut um götur.