Lilja Sigurðardóttir fæddist á Akureyri 27. apríl 1947. Hún lést 7. janúar 2020.

Lilja var sjöunda í röðinni af níu systkinum. Hún ólst upp á Jökli í Eyjafjarðarsveit. Foreldrar hennar voru Unnur Pálmadóttir, f. 26.8. 1912, d. 19.10. 1975 og Sigurður Sigurðsson bóndi, f. 12.11. 1910, d. 22.4. 1976.

Systkini Lilju í aldursröð: 1) Baldur Ingimar, f. 21. febrúar 1932, d. 9.4. 2019. 2) Jónína, f. 27. febrúar 1934. 3) Sigrún, f. 28. janúar 1936, d. 9. október 2018. 4) Fjóla Kristín, f. 11. ágúst 1939, d. 12. desember 2004. 5) Halla Valgerður, f. 14. október 1944. 6) Pálmi, f. 24. september 1945. 8) Kristinn Gunnar, f. 22. september 1948. 9) Valgeir Guðmundur, f. 25. janúar 1952.

Lilja fluttist til Reykjavíkur í kringum 1965 og starfaði á Hvítabandinu. Lengst af bjó hún í Mosfellsbæ og starfaði meðal annars í Kaupfélaginu og við umönnunarstörf. Einnig tók hún þátt í kvenfélagsstörfum í Mosfellsbæ og söng um tíma með kórnum við Lágafellskirkju.

Stærsti hluti ævi Lilju fór í að ala upp syni sína . Einnig tóku þau Trausti að sér fósturson sem heitir Tómas Pétur Einarsson, hann er nú búsettur í Kanada ásamt konu sinni Corrine Einarsson og börnum.

Barnsfaðir Lilju er Kristján Þorberg Jónsson, f. 29. maí 1948. Barn þeirra er Birgir Ægir, f. 14. febrúar 1968. Maki hans er Hlín Albertsdóttir, f. 27. janúar 1972. Börn þeirra Birgitta Bjarnadóttir, f. 21. maí 1994 og Oddný Lilja, f. 28. janúar 2003.

Maki (óg.) Lilju er Trausti Brekkan Hjaltason, f. 20. september 1947. Börn Lilju og Trausta eru:

1) Hermann Páll, f. 30. júlí 1975. Börn Hermanns eru: a) Karin Eva, f. 25. júlí 1995, b) Stella Líf, f. 5. nóvember 2009, c) Skarphéðinn Freyr, f. 12. september 2012 og d) Sigurdís Freyja, f. 4. febrúar 2015.

2) Sigurður Trausti, f. 14. september 1982. Maki Kolbrún Ýr Einarsdóttir, f. 18. ágúst 1983. Börn þeirra eru: a) Rökkvi Þór Brekkan, f. 4. júlí 2015, d. 24. ágúst 2015 og b) Urður Ýr Brekkan, f. 5. október 2017.

Útförin fer fram frá Lágafellskirkju í dag, 16. janúar 2020, klukkan 13.

Elsku Lilja, tengdamóðir mín, er nú farin frá okkur. Síðustu árin voru erfið Lilju en hún tókst á við erfiðleikana með stolti og skemmtilegri þrjósku eins og henni einni var lagið. Alzheimer er ljótur sjúkdómur sem hefur áhrif á alla fjölskylduna en með samheldni gekk þetta upp. Þakkir fyrir það.

Ég minnist Lilju með hlýju, húmor og þakklæti. Fyrir allt það sem hún var og gerði fyrir mig, Sigga og börnin okkar.

Ég kynntist Lilju í lok sumars 2006, nánar tiltekið á menningarnótt þegar yngsti sonurinn hafði fangað hjartað mitt og boðið mér heim. Ekki fór betur en svo að hann var lyklalaus og skildi mig eftir við útidyrnar á meðan hann hljóp eftir aukalyklunum. Á meðan ég beið þarna í kuldanum um miðja nótt opnaði Lilja dyrnar og spurði hvert erindi mitt væri. Ég sagðist vera í fylgd Sigga svo hún spurði þá hvort ég vildi ekki koma inn og fá kaffi og kleinu. „Nei takk, ég bíð bara eftir honum,“ svaraði ég ósköp skömmustuleg og hélt að hún færi. En nei, hún stóð sem fastast. Þarna stóðum við saman í þögninni, ég eldrauð í framan og það mátti sjá hláturinn glitra í augum Lilju.

Eftir þessi fyrstu kynni varð mér ljóst að þarna var kona með mikinn húmor, síðar kynntist ég því að hún tengdamamma mín var einnig hörkutól og já kannski svolítið þrjósk! Enda eiginleikar sem gott er að hafa þegar maður elur upp strákaher. En jafnframt var hún hjartahlý og skildi flækjustig ástarinnar. Það sýndi sig einna best í litlum atvikum eins og í eitt skiptið sem við keyrðum Sigga upp á flugvöll þar sem hann átti flug til Kaupmannahafnar, en á þeim tima vorum við í fjarsambandi.

Þegar við kvöddum Sigga á flugvellinum sneri Lilja sér að mér, tók lófa minn og fyllti hann af volgum hundraðköllum sem hún hafði geymt í hendi sér alla Reykjanesbrautina. „Taktu þinn tíma vina mín“ sagði hún og blikkaði mig. Hún vissi að ég var ástfangin og átti erfitt með að kveðja strákinn sem ég var svo skotin í.

Elsku Lilja. Ég læt þessi minningabrot duga í bili. Þakka þér fyrir að taka á móti mér í fjölskylduna með hlýju og húmor. Takk fyrir kaffið og kleinurnar.

Horfin ertu héðan vina kæra

hnigin ertu nú í svefninn væra.

Sofðu vært uns sólin fagra skín

á sælulandi gleðin aldrei dvín.

(Lilja Guðmundsdóttir)

Elsku Trausti, Siggi minn, Hemmi, Biggi, Tommi, Hlín, Corrine og börn, hlýjar kveðjur til ykkar.

Þín tengdadóttir,

Kolbrún Ýr.

Einstakur er orð sem notað er þegar lýsa á því sem engu öðru er líkt, faðmlagi eða sólarlagi eða manni sem veitir ástúð með brosi eða vinsemd.

Einstakur lýsir fólki sem stjórnast af rödd síns hjarta og hefur í huga hjörtu

annarra.

Einstakur á við þá sem eru dáðir og dýrmætir og hverra skarð verður aldrei

fyllt.

Einstakur er orð sem best lýsir þér.

(Terri Fernandez)

Í dag kveð ég hana Lilju vinkonu mína með miklum trega og söknuði. Hún kom inn í líf mitt og fjölskyldu minnar fyrir rúmum 20 árum. Hún kom til að hugsa um móður mína þegar hún var orðin öldruð, blind og þurfti umönnun á meðan ég var í vinnu. Lilja mín, þú varst ávallt svo hress og góð við gömlu konuna. Þið urðuð mjög góðar vinkonur og spjölluðuð mikið saman, mun hún nú örugglega taka vel á móti þér.

Síðustu ár hafa verið þér og fjölskyldu þinni erfið, mín kæra vinkona. Það hefur tekið mikið á að horfa á þig smám saman hverfa frá veruleikanum, þú sem alltaf varst svo lifandi í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur. Lilja mín, þú varst svo listhneigð og flink í höndunum, það sýndi sig þegar við fórum saman á málaranámskeið hvað þú varst flink með pensilinn. Þú sást líka alls staðar eitthvað sem hægt var að nota og varst fljót að fylla vasana af steinum, litlum trjágreinum og öðru góssi sem þú notaðir í kort og önnur listaverk. Það sem við áttum góðar stundir saman við þessa iðju. Já mín kæra, nú eru allar þessar góðu stundir okkar orðnar að ljúfri minningu sem ég geymi hjá mér. Mikið þótti mér vænt um hvað þú þekktir mig þegar ég kom til þín fyrir jólin þrátt fyrir að þú værir orðin svo mikið veik.

Elsku Lilja mín, að leiðarlokum þakka ég þér alla þína miklu umhyggju við mig og mína og bið fyrir því að þú fáir góða heimkomu í sumarlandið, mín kæra vinkona. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson)

Elsku Trausti og fjölskylda, þið eigið alla mína samúð og megi góður guð styrkja ykkur í sorginni.

Elín Magnúsdóttir (Ella).