Utanríkisráðuneytið gagnrýnir harðlega frumvarp átta þingmanna Vinstri grænna um breytingar á varnarmálalögunum í nýrri umsögn og segir þær gerbreyta forræði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á sviði öryggis- og varnarmála auk þess sem ákvarðanir um...

Utanríkisráðuneytið gagnrýnir harðlega frumvarp átta þingmanna Vinstri grænna um breytingar á varnarmálalögunum í nýrri umsögn og segir þær gerbreyta forræði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á sviði öryggis- og varnarmála auk þess sem ákvarðanir um varnarframkvæmdir yrðu settar í uppnám ef þær væru samþykktar.

Þingmennirnir leggja til þær breytingar á varnarmálalögunum að annars vegar verði allar bókanir og viðbætur við varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna bornar undir Alþingi til samþykktar og hins vegar skuli bera alla uppbyggingu og framkvæmdir umfram eðlilegt viðhald á öryggissvæðum, varnarsvæðum og mannvirkjum NATO undir Alþingi til samþykktar.

Í umsögn utanríkisráðuneytisins segir m.a. um þessar tillögur að breytingarnar miði að því að skerða forræði utanríkisráðherra á framkvæmd öryggis- og varnarmála á Íslandi með því að taka úr höndum hans ábyrgð og umsjón með samningagerð við erlend ríki, hermálayfirvöld og alþjóðastofnanir og vegna framkvæmda á öryggissvæðum.

„Með þessu væri Alþingi að færa til sín framkvæmdavald sem gengur gegn þrískiptingu ríkisvaldsins og grundvallarreglum stjórnarskrár um aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Með slíkri breytingu væru ákvarðanir um byggingu íbúðar- og athafnahúsnæðis á Keflavíkurflugvelli, háðar sérstakri heimild löggjafans,“ segir í umsögninni.

Veikir samningsstöðu Íslands

Minnt er á að ríkt og reglulegt samráð eigi sér stað við Alþingi um öll meiriháttar utanríkismál og Alþingi sé upplýst reglulega um öryggis- og varnarmál. Síðan segir í umsögn utanríkisráðuneytisins:

„Yrði frumvarp þetta samþykkt myndi það hafa í för með sér gerbreytingu á forræði utanríkis og þróunarsamvinnuráðherra á sviði öryggis- og varnarmála, sem væri í algeru ósamræmi við samningsforræði og samráð sem fer fram um aðra málaflokka sem undir utanríkisráðuneyti heyra. Eðli verkefnanna, málaflokksins og þörf á trúnaði við samningsgerð, umfjöllun og fyrirsvar í málaflokknum kallar á ríkan trúnað í samráði og samskiptum við Alþingi á meðan á samningsgerð stendur. Gjörbreytt framkvæmd sem þessi breytingatillaga gerir ráð fyrir, myndi setja ákvarðanir um tilteknar varnarframkvæmdir í uppnám, veikja samningsstöðu Íslands í samskiptum við önnur ríki á þessu sviði og getur valdið því að ógerlegt verði að standa við varnarskuldbindingar okkar gagnvart Bandaríkjunum og innan Atlantshafsbandalagsins.“ omfr@mbl.is