Anne Hjá henni er engri neikvæðni fyrir að fara.
Anne Hjá henni er engri neikvæðni fyrir að fara.
Ég lá marflöt í pest í tvo daga í vikunni og tók þá til við að hámhorfa (horfa á marga þætti í beit) á þáttaröð á streymisveitunni Netflix sem heitir Anne with an „E“, eða Anna í Grænuhlíð, en þættir þessi byggjast á samnefndum bókum.

Ég lá marflöt í pest í tvo daga í vikunni og tók þá til við að hámhorfa (horfa á marga þætti í beit) á þáttaröð á streymisveitunni Netflix sem heitir Anne with an „E“, eða Anna í Grænuhlíð, en þættir þessi byggjast á samnefndum bókum. Þetta eru kanadískir þættir sem full ástæða er til að mæla með, til alls er vandað og leikurinn einstakur. Þar segir af munaðarleysingjanum Önnu, 13 ára stúlku um aldamótin 1900. Hún er hvatvís, málglöð, skapstór, skapandi, jákvæð og með gríðarlega vel virkt ímyndunarafl. Fyrir utan að vera bráðskemmtilegir þættir sem eru mikið augnayndi vegna kvikmyndatöku og alls umhverfis vekja þeir líka til umhugsunar um stöðu lítilmagnans í mannlegu samfélagi, hvernig ævinlega einhverjir eru tilbúnir að níðast á þeim, af því að það er hægt og af því að þeir geta ekki varið sig. Í senum þar sem Anna rifjar upp slæmar minningar frá munaðarleysingjaheimilinu varð mér hugsað til allra munaðarleysingja jarðarinnar, þá sem nú, allra varnarlausu barnanna og grimmdar mannskepnunnar gagnvart þeim. Mér varð líka hugsað til allra ADHD-krakka, sem sífellt er verið að reyna að troða í box sem þau passa ekki í. Anna er líka góð áminning um að þrautseigja og jákvæðni getur fleytt fólki langt. Aldrei gefast upp!

Kristín Heiða Kristinsdóttir