Jón Valur Jensson fæddist 31. ágúst 1949 í Reykjavík. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 5. janúar 2020.

Foreldrar hans voru Jens Hinriksson, vélstj. hjá Tryggva Ófeigssyni og síðan lengst sem vaktstjóri í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi, f. 21. október 1922, d. 2. ágúst 2004, og Kristín Jóna Jónsdóttir, húsfr. og verslunarkona í Reykjavík, f. 30. september 1924, d. 12. ágúst 2010.

Systur Jóns: 1) Karitas Jensdóttir bókasafnsfræðingur, f. 27. apríl 1952, d. 16. september 2019. Synir hennar eru Axel Viðar og Pétur Már Egilssynir. 2) Kolbrún Jensdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 27. apríl 1952.

Jón varð stúdent frá MR 1971, stundaði nám í sagnfræði, latínu og grísku við HÍ og lauk kandídatsprófi í guðfræði frá HÍ 1979. Hann stundaði svo framhaldsnám í kristinni siðfræði, trúarheimspeki og fræðum Tómasar frá Aquino við St. John's College, University of Cambridge í Englandi á árunum 1979-1983.

Jón var forstöðumaður Kvöldskólans á Ísafirði 1983-1984. Árið 1986 stofnaði hann Ættfræðiþjónustuna og sinnti fjölbreyttum verkefnum tengdum ættfræði, s.s. rannsóknum og kennslu. Þá starfaði hann í nokkur ár við prófarkalestur á Morgunblaðinu og fyrir fleiri útgáfur. Jón gaf út nokkrar ljóðabækur og birti kveðskap í ýmsum blöðum og tímaritum. Hann skrifaði líka greinar um trúarleg efni sem birtust í dagblöðum og víðar. Jón var frumkvöðull að stofnun Lífsvonar, samtaka til verndar ófæddum börnum, árið 1985 og sinnti þar stjórnarstörfum og ritstjórn. Einnig var hann í stjórn Ættfræðifélagsins og formaður þar um tíma. Jón lét til sín taka í þjóðfélagsumræðunni og var mikilvirkur bloggari og greinahöfundur auk þess sem hann var fastagestur í símatímum útvarpsstöðva. Þráðurinn í málflutningi hans var gjarnan kristin gildi og þjóðhyggja, s.s. andstaða gegn fóstureyðingum, Evrópusambandinu og Icesave meðan baráttan þar stóð sem hæst.

Fyrri kona Jóns var Elínborg Lárusdóttir, blindra- og félagsráðgjafi, f. 19. mars 1942. Foreldrar hennar: Lárus Ingimarsson, f. 28. júlí 1919, d. 22. september 1985, og Ásdís V. Kristjánsdóttir, f. 3. desember 1918, d. 28. ágúst 1992. Börn Jóns og Elínborgar: 1) Katrín María Elínborgardóttir, nemi og kennari, f. 12. október 1976. Börn Katrínar eru Chinyere Elínborg Uzo, nemi, f. 2. september 2001, og Elsa María Bachadóttir, f. 3. maí 2017. 2) Þorlákur Jónsson, sjóntækjafræðingur, f. 11. maí 1978, kvæntur Lam Huyen. Sonur Elínborgar og stjúpsonur Jóns: Andri Krishna Menonsson, tannlæknir í Noregi, f. 23. maí 1969, í sambúð með Ritu Jørgensen. Sambýliskona Jóns frá 1996-2010 (giftust 2004) var Ólöf Þorvarðsdóttir fiðluleikari, f. 9. maí 1964. Foreldrar hennar: Þorvarður R. Jónsson, f. 12. júlí 1915, d. 18. janúar 1996, og Inga S. Ingólfsdóttir, f. 24. október 1925, d. 15. ágúst 2005. Börn Jóns og Ólafar: 1) Sólveig Jónsdóttir, f. 20. janúar 1998, d. 21. janúar 1998. 2) Ísak Jónsson tónlistarmaður, f. 15. september 1999. 3) Sóley Kristín Jónsdóttir, nemi, f. 30. júní 2001.

Útför Jóns fer fram frá Dómkirkju Krists konungs í Landakoti í dag, 16. janúar 2020, klukkan 15.

„Sjáið, þarna er tröll.“ Pabbi átti það til að segja eitthvað á þessa leið þegar ég var krakki og við fjölskyldan vorum á hringferð um Ísland. Við stoppuðum á góðum stað, fengum okkur nesti og ímynduðum okkur að hraun og klettar væru tröll og furðuverur og sáum meira að segja myndir í skýjunum. Pabbi hafði ríkt ímyndunarafl sem hann nýtti til að yrkja og búa til leiki fyrir börn. Hann kenndi mér að yrkja. Þegar ég var átta ára ortum við saman gamanvísur og hlógum að þeim. Pabbi kenndi mér líka margar aðferðir í ljóðagerð og gaf mér viturlegar ábendingar um mín eigin ljóð. Þegar við vorum krakkar fór hann stundum með okkur Þorlák á skíði í Bláfjöllum og mér fannst styrkur að honum.

Pabbi var sú manngerð sem vandaði sig við það sem hann fékkst við. Hann bauð okkur börnunum og barnabörnunum reglulega í mat og eldaði góðan mat og ævinlega var góður eftirréttur og gotterí. Þá var rætt um ýmis málefni og um fjölskylduna. Allir hjálpuðust að við eldamennsku og fleira. Hann var mjög stoltur af öllum niðjum sínum (börnum og barnabörnum), eins og hann orðaði það sjálfur. Hann var mikill afi í sér og ljómaði með barnabörnin í kringum sig. Jón afi las gjarnan fyrir Elsu litlu og hún var uppnumin af lestri hans. Sagan lifnaði við í flutningi hans. Hann keypti bækur fyrir hana og valdi alveg rosalega vel allar gjafir handa okkur öllum. Við hittumst öll fyrir jól til að hafa litlu jól heima hjá honum, því við fjölskyldan vorum í Noregi um jólin. Mikið er ég þakklát fyrir þessi litlu jól. Hann hélt lengi á Elsu Maríu og gaf henni að drekka og borða af einstakri natni og hún undi sér vel. Þetta voru síðustu jólin okkar öll saman og ég mun aldrei gleyma þeim. Við Ísak, Sóley, Elínborg, Þorlákur, Lam, ég og Elsa vorum öll þarna og eiga Þorlákur og pabbi þakkir skilið fyrir að skipuleggja gott kvöld.

Pabbi var gæddur afburðagáfum og hæfileikum í ritstörfum. Hann lagði líka stund á þau á hverjum einasta degi, enda var hann góður penni. Hann skrifaði um ýmis málefni á einstaklega fallegu og vönduðu máli, færði alltaf rök fyrir máli sínu og vísaði í heimildir. Það var alltaf hægt að læra af honum um samfélagið og ýmis heilræði. Hann hafði að auki einstaka hæfileika í að tileinka sér ný tungumál. Til vitnis um það eru ljóð hans á ensku og frönsku og ljóðaþýðingar hans. Takk fyrir allt, pabbi minn, að ala mig upp og vera mér góður. Það er stórt gat í lífi og hjarta okkar stelpnanna, mínu, Elínborgar og Elsu.

Sólveig systir mín fær nú að hafa þig hjá sér og þú ert með foreldrum þínum og systur, Karitas. Mikið hljóta skýin að vera falleg þarna uppi á himnum þar sem þú ert. Ég er viss um að núna ert þú að sýna Sólveigu ýmsar myndir í þeim.

Pabbi, þú hélst alltaf fast í trúna og lagðir traust þitt á Guð og Jesú. Ég kveð þig með orðum úr Biblíunni því að Biblían var þinn skjöldur og Guð var þinn ráðgjafi.

Jesús sagði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið, enginn kemst til föðurins nema fyrir mig.“

Þín elskandi dóttir og barnabörn,

Katrín, Elínborg og Elsa.

Pabbi var alltaf mikil barnagæla, ég man eftir hvað hann var duglegur að segja okkur sögur fyrir svefninn. Hann var mikið fyrir að segja sögur um mýs, og var það orðinn vani hjá okkur að hlusta á hann segja nýja músasögu á hverju kvöldi. Músasögurnar hans voru alltaf jafn fallegar og skemmtilegar. Þetta er minning sem ég mun aldrei gleyma. Við fjölskyldan komum með hugmynd að hann myndi gefa út barnabók með fullt af litlum skemmtilegum músasögum þar sem hann var mikið í því að skrifa, en því miður varð ekkert úr því.

Þegar ég var lítil vafði mamma handklæði utan um mig eftir sturtu og bjó til einskonar pakka. Hún hélt á mér til pabba og kallaði „það er pakki til þín!“. Pabbi opnaði pakkann með miklum spenningi. Þetta fannst okkur mjög skemmtilegt og gaman að eiga svona minningar.

Pabbi var alltaf til staðar fyrir mig. Hann aðstoðaði mig við margt í skólanum og kenndi mér að ég get allt ef ég trúi á sjálfa mig.

Pabbi var mjög stoltur af fjölskyldunni sinni og sýndi hvað hann var hreykinn af börnum sínum og barnabörnunum tveimur. Hann hikaði ekki við að hrósa mér þegar honum fannst ég hafa afrekað eitthvað. Hann var mjög hreykinn af mér þegar ég spilaði á saxófón, þegar ég hætti að æfa talaði hann oft um það að ég ætti að byrja að æfa aftur vegna þess að hann trúði því að ég myndi geta orðið mjög góður saxófónleikari. Hann mætti á alla tónleika sem ég spilaði á og var alltaf jafn stoltur og sýndi það.

Hann sýndi litlum börnum mikla ást og lifnaði við þegar hann var nálægt þeim. Yngsta barnabarn hans, Elsa María, var í miklu uppáhaldi hjá honum. Hann var svo stoltur af litlu stelpunni sinni.

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á bakstri og eldamennsku. Þegar ég var yngri fór ég með smakk af bakkelsi til pabba í hvert skipti sem ég bakaði og sendi honum myndir af þeim. Hann var svo þakklátur fyrir allt bakkelsið sem hann fékk og var mjög hreykinn af mér.

Pabbi átti fjögur börn, tvö barnabörn og einn stjúpson. Hann var mikið að rugla nöfnum okkar saman, hann t.d. kallaði mig oft þremur nöfnum áður en hann náði því rétta, við hlógum að þessu og hann gerði einnig grín að sjálfum sér.

Pabbi var mjög trúaður maður og var fastagestur í kaþólsku kirkjunni. Hann var með Guð í hjarta sínu hvert sem hann fór. Trúin kom mikið fram í viðhorfum hans til lífsins og hann tjáði sjálfan sig í gegnum trúna. Þegar ég hugsa um pabba finn ég fyrir miklu þakklæti og ást, en það var ekki allt fullkomið þar sem hann var einum of einbeittur „að berjast fyrir land sitt“ (eins og hann sagði) á blogginu sínu á seinni árum. Hann hafði minni tíma fyrir fjölskylduna en reyndi sitt besta til að vera í góðu sambandi og sýna umhyggju.

Elsku pabbi minn lést allt of ungur, en það er mér mikil huggun að hann hafi farið á friðsælan hátt. Ég vona að honum líði vel hjá Guði. Ég er viss um að Jens afi, amma Stína, Karítas frænka og Sólveig systir mín taki öll vel á móti honum. Í dag fylgjum við pabba til grafar og kveðjum í hinsta sinn. Ég kveð þig með söknuði.

Hvíl í friði, elsku pabbi, þín dóttir

Sóley.

Jón frændi, þú fórst frá okkur allt of fljótt en ég veit að þú ert nú hjá Guði á himnum og með okkur í anda.

Þakka þér fyrir að hafa tekið mér opnum örmum þegar ég kom inn í fjölskylduna. Þú varst svo gáfaður og góður maður. Ég ber virðingu fyrir siðferðiskennd þinni og lífsreglum. Þú varst dáður af mörgum og þeir sem þekktu þig persónulega vissu að þú værir góður maður sem meinti vel þótt ekki væru allir alltaf sammála þér. Þú varst aðgerðasinni af Guðs náð og þar komust fáir með tærnar þar sem þú hafðir hælana. Ég dáðist að því og það veitir mér innblástur.

Guð blessi þig. Með kærleikskveðju,

Katherine Anne Brenner.

Einungis þremur og hálfum mánuði eftir að móðir mín kvaddi þetta líf hefur Guð kallað bróður hennar, Jón Val, skyndilega aftur til sín. Það er skammt stórra högga á milli.

Við Jón Valur urðum ekki sérlega nánir fyrr en ég flutti heim úr námi rétt fyrir þrítugt. Síðan þá hefur verið töluverður samgangur á milli okkar og gott hefur verið að leita til hans. Frændi var þekktur út á við fyrir umdeildar skoðanir sínar, sem stuðuðu margan manninn, en hann, eins og allt fólk, var að sjálfsögðu margbrotinn og minnist ég hans sem hlýs og góðhjartaðs manns, sem þótti afar vænt um fjölskyldu sína og vini.

Jón Valur lét til sín taka í þjóðmálaumræðunni og náði málflutningur hans eyrum margra en þó sérstaklega eftir að alnetið kom til sögunnar. Lét hann þá gamminn geisa á hinum fjölmörgu bloggsíðum sínum, hver með sitt þema, og á samfélagsmiðlum. Jón Valur var einn gáfaðasti, víðlesnasti og rökfastasti maður sem ég hef kynnst. Hann hafði þar að auki gríðarlega sterkt vald á tungumálinu og fáir stóðust honum snúning á ritvellinum. Hann naut virðingar margra fyrir mikið hugrekki til að tjá skoðanir sínar, og þær varði hann af rökfestu, en galt stundum fyrir með skítkasti og jafnvel málshöfðun.

Jón Valur, eða Valur eins og hans nánustu kölluðu hann, snerist til kaþólskrar trúar þegar hann var við doktorsnám í guðfræði við Cambridge-háskóla í Englandi fyrir fjórum áratugum. Innan fjölskyldunnar þótti sú ákvörðun sérkennileg en hann taldi hana vera rétt skref því að í hans huga voru kennisetningar kaþólskunnar nær hinum guðlega sannleika en lúterskunnar. Þegar Jóhannes Páll páfi II. kom í opinbera heimsókn til Íslands árið 1989 varð Jón þess heiðurs aðnjótandi að vera skipaður siðameistari. Nú um jólin spurði ég hann einmitt út í þetta hlutverk og tjáði hann mér með stolti að áður en páfi kom hefði hann ritað honum á latínu og spurt hvort hann væri tilbúinn að lesa smákafla á íslensku við messuna miklu sem haldin yrði á Landakotstúni. Páfi varð við bóninni.

Það kann að koma mörgum á óvart að fáir Íslendingar áttu jafnfjölmenningarlega fjölskyldu og Jón Valur. Stjúpsonur hans er hálfindverskur, afastelpurnar hans eru hálfnígerískar og hálfeþíópískar og tengdadóttir hans er frá Víetnam. Hann tikkaði reyndar alveg óvart í mörg box pólitískra andstæðinga sinna en hann fór allra sinna ferða á hjóli eða í strætó, bjó í Vesturbænum eins og hver önnur lattélepjandi miðbæjarrotta og þar sem hann hafði ekki farið til útlanda í 12 ár þjáðist hann ekki af flugviskubiti og kolefnisfótspor hans var agnarsmátt.

Það er hryggilegt að Jón Valur skuli hafa horfið af sjónarsviðinu á meðan hann var enn í fullu andlegu fjöri. Ég hafði hlakkað til áframhaldandi samvista við hann en við Kathy erum þakklát fyrir minnisstæðar samverustundir með honum um jólin og stuðning hans í veikindum móður minnar og við fráfall hennar á nýliðnu ári. Megi góður Guð blessa Jón frænda og taka vel á móti honum í Sumarlandinu.

Axel Viðar Egilsson.

Mig langar að minnast vinar míns Jóns Vals Jenssonar sem lést 5. janúar á 71. aldursári.

Leiðir okkar lágu saman fyrir rúmum 30 árum í starfi kirkjunnar, við páfakomuna og í ritnefnd kirkjublaðsins. Við héldum vinskap okkar áfram á blogginu á kirkju.net og blog.is og síðar í málefnastarfi Kristilegra stjórnmálasamtaka sem hann stofnaði.

Jón var léttur í lund, það var stutt í brosið og spaugið. Hann var vel lesinn, fróður og hafði gott minni og frásagnargáfu. Það var því tilhlökkunarefni að hitta hann. Hann var fljótur að koma auga á röksemdir og sjónarhorn og hafði afar gott vald á rituðu máli. Textarýni hans var einstök.

Jón hafði mikinn áhuga á málefnum samfélags og kirkju. Hann var lífsverndarsinni og starfaði ötullega að þeim málum. Í þjóðfélagsumræðu liðinna ára sem einkenndist af örri þróun, var gjarnan gengið á hólm við ýmis ríkjandi viðhorf. Hann tók þeim áskorunum og tókst gjarnan á við sjónarmið sem gengu gegn hefðbundnum gildum. Á þessu sviði var hann mikilvirkur og kom víða við. Í skrifum hans endurspeglaðist mikill sannfæring á þeim málstað sem hann varði, sannfæring sem getur aðeins hafa sprottið af því að hann hafði helgað lífið baráttumálum sínum.

Hann lýsti sjálfum sér sem aðgerða- og umbótasinna og nýtti óspart bæði blogg og innhringiþætti til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Sum þeirra mála sem hann tjáði sig um voru eða eru hita- og átakamál. Það eru ekki allir tilbúnir að opinbera afstöðu í slíkum málum, hvað þá ganga fram fyrir skjöldu á opinberum vettvangi og einkum og sér í lagi ekki ef sú frammistaða brýtur á meginstraumi. En við þetta var hann bæði duglegur og djarfur og hlaut fyrir bæði lof og last. Hann barðist samt málefnalega og drengilega og uppskar virðingu margra andstæðinga.

Hann fékkst við ljóðagerð og gaf út bækurnar Sumarljóð 1991, Hjartablóð 1995 og Melancholic Joy 2011. Ljóð og skrif á erlendum málum er einnig að finna á bloggsíðunni jonvalurjensson.livejournal.com.

Ég var svo lánsamur að vera í vinahópi Jóns og ég veit að ég á eftir að sakna hans. Reykjavíkurferðirnar verða ekki hinar sömu þegar hann er horfinn af sviðinu með glaðvært bros sitt, hlýlegt fas og fróðleik. Nú er langri vöku lokið. Mér er efst í hug þakklæti fyrir afar ánægjuleg kynni. Hvíl í friði, vinur og ármaður Íslands. Megi ljósið eilífa lýsa þér. Aðstandendum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Ragnar Geir Brynjólfsson.

Mig langar að minnast vinar míns Jóns Vals Jenssonar. Jón var náinn okkur heima og við hittumst oft og hringdumst á. Það brást varla síðustu árin að hann kastaði fram vísu í samtali okkar, oft gamansamri úr daglegu lífi, úr baráttunni á netinu eða vegna ýmissa mála sem efst voru á baugi.

Drengurinn minn Davíð Kirill þekkti hann líka og kom oft heim til hans á Framnesveginn. Okkur fannst gaman að hitta Jón og koma til hans í bækurnar. Davíð hafi aldrei séð svona mikið af bókum á ævinni og þær lágu þvers og kruss og út um allt og auk þess gat drengurinn raðað í sig af öllum sortum og ráðið sér töluvert. Það var ávallt gleðileg og létt stemning í kringum Jón og hann hafði tengslamenn úr öllum áttum, sérstaklega hjá kristnum mönnum sem hann leitaði ráða hjá og hlýddi á, sama úr hvaða söfnuðum þeir voru, allir fengu atkvæði í huga Jóns.

Hann var sérlega Biblíufróður og trúarlega séð voru fáir sem voru eins vel að sér í ritningunni. Skýringar hans aldrei innantóm fræðimennska heldur komu þær frá hjarta hins trúandi manns og stíllinn þótti mér stundum minna á postulann Pál. Hann yfirgaf róttæk vinstri stjórnmál, var orðinn miðju konservatífur með aldrinum og hélt fram viðhorfum gegn niðurrífandi guðleysisöflum við öll tækifæri. Það var hetjuleg barátta og við sem kristnir erum trúum því að sá sem gerir það á skikkanlegan hátt, fái Guð laun fyrir, því það er ekki sama hvernig allt fer og maðurinn getur verið verkfæri Guðs ef hann vandar sig og biður um leiðsögn. Hann var einn þessara manna í hersveit Guðs með góðan vilja. Þannig var það í mínum huga að minnsta kosti. Sakir gáfna sinna hélt hann þannig á penna að hann lagði andstæðinga sína í rökræðum án þess þó að særa þá að ráði og var það einstakt. Mótstöðumenn hans stóðu fljótt upp og urðu vinir eða kankvísir andstæðingar, allt eftir atvikum. Rökvísi og gamansemi af sérstakri tegund átti vel við hann og sumir lásu eiginlega allt sem hann skrifaði því skrifin höfðu skemmtigildi langt umfram venjulegt þras. Hann varð þjóðþekktur fyrir þetta og háði baráttu á mörgum vígstöðvum; gegn Icesave og fyrir sjálfstæði þjóðarinnar gegn ESB, gegn rétthugsun og hvers kyns merkingarleysu. Við vorum saman nokkrir í Kristnum stjórnmálasamtökum og hittumst til að spjalla um mál sem voru ofarlega á baugi, sérstaklega fóstureyðingar. Ég veit ekki um neinn mann hérlendis sem barðist eins ötullega gegn fóstureyðingum um margra árataga skeið. Jón Valur var kaþólskur og kirkjurækinn og margir hans traustustu bandamanna voru innan kirkjunnar, mestmegnis hámenntaðir menn og konur. Þetta var yndislegt samfélag, hófsamt, einlægt og farsælt í alla staði. Guð gefi hinum burtsofnaða þjóni sínum, sálu hans, að hvíla á stað ljóssins, í sælunnar bústað og heimkynnum friðar Guðs þar sem öll þjáning, sorg og mæða er á braut. Guð fyrirgefi honum allar syndir hans, sakir fyrirbæna heilagrar Guðs móður og bæna allra heilaga. Guð blessi þig og varðveiti vinur minn um alla eilífð. Guð blessi og varðveiti syrgjandi börnin þín.

Guðmundur Pálsson.

Jón Valur var eftirminnilegur maður og setti sterkan svip á samtíma sinn. Ég man fyrst eftir Jóni Val úr sundlaugunum fyrir meira en tuttugu árum að ræða stjórnmál bæði innlend og erlend. Ekki voru allir sammála Jóni en menn hlustuðu samt margir því ekki fór fram hjá nokkrum manni að þarna talaði skarpgreindur maður með rökum og með mikla þekkingu á málefnunum. Jón talaði fyrir íhaldssömum gildum, hafði sterka þjóðerniskennd, studdi kristin gildi og þjóðleg hægri viðhorf.

Hann fór oft á móti straumnum og fékk því marga róttæka vinstri menn upp á móti sér, en hann talaði ekki bara við þá sem voru sammála honum, hann lagði sig sérstaklega fram um að rökræða við þá sem voru ósammála honum og hlusta á þeirra sjónarmið. En Jón gerði samt ætíð miklar kröfur um að menn kæmu með rök og gætu getið heimilda, alveg eins og hann gerði ætíð til sjálfs sín. Oft mátti Jón þola aðkast og að farið var gegn honum með gífuryrðum og ofstæki og honum gerðar upp vondar skoðanir, þetta var gert bæði opinberlega fyrir framan hann eða að honum fjarstöddum í ræðu og riti. Jón lét sér fátt um finnast og fannst lítið til manna koma sem fóru fram með slíkum rakalausum dólgshætti. Sjálfur var hann harður í horn að taka en ávallt kurteis og vandur að öllum sínum málatilbúnaði. Annálaður íslenskumaður og gríðarlega vandaður og afkastamikill í skrifum.

Eftir Jón liggja þúsundir blogggreina, auk tuga ef ekki hundraða blaðagreina. Hann hélt úti af miklum eljuskap a.m.k. fimm bloggsíðum hjá Morgunblaðinu sem allar sneru að hans hjartans málum. Stjórnmálin voru hans líf og yndi og hans líf snerist um þau. Er leiðir okkar Jóns Vals lágu fyrst saman vorum við í flestu á öndverðum meiði í stjórnmálunum, hann til hægri en ég taldi mig þá þjóðlegan vinstri mann á móti veru bandaríska hersins í landinu. Engu að síður ræddum við oft pólitík okkur til ánægju og gagns. Þegar vinstrið varð undirlagt af ESB-óværunni og varð æ óþjóðlegra færðist ég endanlega frá vinstrinu og nær Jóni í stjórnmálunum. Leiðir okkar í baráttumálum stjórnmálanna hafa svo legið nokkuð þétt saman undanfarin áratug eða svo. Báðir höfum við verið virkir í baráttunni gegn ESB-innlimun landsins og verið harðir gegn EES-samningnum. Við höfum staðið saman á Austurvelli við að mótmæla Evrópusambandinu, innleiðingu 3ja orkupakkans, útlendingalögunum og margt fleira mætti telja. Við komum báðir að stofnun Íslensku þjóðfylkingarinnar árið 2016. Þó svo að leiðir skildu síðan þegar ég og hópur fólks fórum og stofnuðum Frelsisflokkinn var samt alltaf skilningur og gagnkvæm virðing okkar á milli. Hans stóra hugsjón var að sjá sameiningu og uppgang þjóðlegs stjórnmálaafls sem gæti af krafti leitt baráttuna fyrir sjálfstæði lands og þjóðar og veitt landsöluöflunum sterkt viðnám. Jóns Vals verður sárt saknað en minningin um þennan góða en óvenjulega mann mun lifa og óeigingjörn barátta hans mun blása okkur sem eftir stöndum eldmóði í brjóst.

Ég votta börnum og aðstandendum Jóns Vals innilega samúð.

Gunnlaugur Ingvarsson.

Jón Valur Jensson var hugsjónamaður, ódeigur í baráttu fyrir málefnum sem hann bar fyrir brjósti. Hann var gagnmenntaður mannvinur, tók málstað þjóðar sinnar og varði lífsrétt ófæddra barna.

Jón Valur barðist fyrir hugsjónamálum sínum af þekkingu og brást aldrei. Hann stóð vörð um sjálfstæði þjóðarinnar og fullveldi, barðist gegn Icesave með þjóðarheiður að kjörorði og þriðja orkupakkanum með áherslu á fullveldi þjóðarinnar yfir mikilvægum orkuauðlindum sínum.

Jón Valur naut viðurkenningar sem einn fremsti ættfræðingur þjóðarinnar. Kynntist ég Jóni þegar ég sótti ættfræðinámskeið hjá honum fyrir margt löngu. Lagði hann mikla áherslu á gagnrýna meðferð ættfræðiheimilda. Við hittumst oft á lífsleiðinni, ræddum saman, síðast eigi alls fyrir löngu, um sameiginleg hugðarefni á sviði þjóðmála og menningarmála. Blessi þig voru jafnan orð hans þegar við kvöddumst.

Jón Valur barðist fyrir þjóðlegum gildum og hag þjóðarinnar, var mikill áhugamaður um sögu lands og lýðs og hafði djúpan skilning á mikilvægi kirkju og kristni á leið þjóðarinnar frá árdögum til samtímans.

Jón Valur bar eitt mál fyrir brjósti umfram öll önnur: Lífsrétt ófæddra barna sem var heilagur í hans augum. Hann fjallaði um þau málefni af þekkingu og virðingu án áreitni og af skilningi. Honum voru það mikil vonbrigði þegar meirihluti á Alþingi samþykkti að rýmka verulega tímamörk fóstureyðinga.

Ég átti því láni að fagna að eiga vináttu Jóns Vals Jenssonar. Bros hans var kankvíst og einlægt og náði til augnanna sem höfðu mildan blæ. Jón Valur var mannkostamaður sem gekk fram af heilindum og djörfung.

Jón Valur Jensson féll frá um aldur fram og er sárt saknað. Börnum hans og ástvinum færi ég innilegar samúðarkveðjur. Með alúð og þakklæti kveð ég hann sem einlægt barðist fyrir góðum málstað með orðum hans sjálfs: Blessi þig.

Ólafur Ísleifsson.

Árið var nýhafið þegar sú sorgarfregn barst að fallinn væri frá Jón Valur Jensson.

Hann var einn eftirminnilegasti þjóðmálarýnir þessarar aldar á Íslandi.

Jón Valur tilheyrði kynslóð sem skipaði sér í fylkingar eftir hugmyndakerfum. Urðu þá gjarnan skörp skil og hvergi gefið eftir. Um leið var hann heitur og einlægur trúmaður sem sótti kraft og fullvissu í trúna.

Síðar á ævinni varð Jón Valur áberandi í hópi svonefndra bloggara sem sögðu skoðun sína á mönnum og málefnum á eigin netsíðum.

Eftir efnahagshrunið urðu slíkir höfundar áberandi í þjóðmálaumræðunni á Íslandi en bloggin birtust gjarnan sem krækja á fréttir netmiðla. Við bloggin mátti skrifa athugasemdir og urðu þræðirnir stundum langir.

Þegar Jón Valur var annars vegar virtust sem sjö sverð væru á lofti. Slík voru afköstin. Mörg samtök nutu krafta hans.

Á þessum árum tók Jón Valur eindregna afstöðu í Icesave-deilunni; var meðal þúsunda Íslendinga sem töldu teflt á tæpasta vað með þjóðarhag. Jón Valur skrifaði ótal blogg við fréttir, rökræddi við menn á förnum vegi, skrifaði greinar í blöð og hringdi í símatíma Útvarps Sögu. Það var sama hvar borið var niður. Hvarvetna skein í gegn einlæg barátta fyrir þjóðarhag. Jón Valur hafði engan persónulegan ávinning af málinu. Þvert á móti tók það frá honum mikinn tíma og orku á erfiðum tímum.

Rétt er að halda þessu til haga. Baráttan gleymist ekki þeim sem lifðu hana. Söguritarar eiga að halda til haga skrifum Jóns Vals og annarra í Icesave-deilunni. Þau hafa ótvírætt sögulegt gildi.

Á þessum árum starfaði Jón Valur um hríð sem prófarkalesari á Morgunblaðinu.

Með málfari sínu, síðu hári, hæglátri festu og trúarlegri þjóðrækni kom hann mér fyrir sjónir sem 19. aldar maður. Það mátti vel sjá hann fyrir sér sem stuðningsmann Jóns forseta. Viðkvæmni í bland við mikla einlægni í hugsjónabaráttunni.

Jón Valur tók ósjaldan umdeilda afstöðu í erfiðum málum. Eins og gengur var maður misjafnlega sammála. Eftir stendur að hann þorði að sigla á móti straumnum. Það gerði hann um margt einstakan í þessum tíðaranda.

Jón Valur mætti andstreymi en hafði sannfæringu manns sem telur sig berjast góðu baráttunni.

Baldur Arnarson.

Ég var staddur í bókabúð í miðbæ Reykjavíkur, sem seldi notaðar námsbækur. Ég var nýfluttur með foreldrum mínum suður og var að skipta um skóla, fara úr MA eftir skemmtilegan vetur í 3. bekk og hefja nám í 4. bekk MR. Þetta var haustið 1968. Í bókabúðinni var svipsterkur ungur maður sem vék sér að mér og spurði mig í hvaða bekk ég væri að fara. Í ljós kom að við vorum að fara í sama bekkinn og þetta var upphaf að rúmlega hálfrar aldar vinskap okkar Jóns Vals. Við urðum samferða í MR og síðan í guðfræðideild HÍ á áttunda áratugnum. Eftir háskólanám skildi leiðir en ávallt var samband á milli okkar. Við skrifuðumst á meðan hann lagði stund á framhaldsnám við trúarheimspeki og kristna siðfræði við háskólann í Cambridge á Englandi og ég var prestur og bóndi norður á Miklabæ í Blönduhlíð.

Strax í MR kom í ljós að Jón Valur var skarpgáfaður, hann náði frábærum árangri í þeim fögum sem hann hafði áhuga fyrir og vann til að mynda gullpennann í ritgerðasamkeppni menntaskólans. Síðar varð hann landsþekktur penni á samfélagsmiðlum og þar barðist hann tíðum við andstæðinga kirkju og kristni sem vönduðu honum ekki kveðjurnar en hann lét ekki deigan síga og þynnti aldrei út þau gildi sem grundvöllur kristninnar er byggður á. Kristin lífsverndarstefna til varnar okkar minnstu bræðrum og systrum var tíðum eitt grunnstefja í boðun hans.

Það var gott að eiga góðan og tryggan vin og ekki var verra að við vorum með svipaða sýn á lífið og tilveruna, vildum útbreiða þá lífsskoðun að kenning Krists um kærleikann ætti að vera í fyrirrúmi í lífi og starfi okkar hér á jörð.

Ég er þakklátur fyrir að hafa átt samleið með vini mínum Jóni Val. Við Elsa færum börnum hans og öllum ástvinum okkar innilegustu samúðarkveðjur vegna andláts hans. Við, sem eftir erum og kunnum að meta mannkosti hans, hefðum gjarnan viljað hafa hann lengur með okkur á vegferð jarðlífsins.

Guð blessi Jón Val Jensson.

Þórsteinn Ragnarsson.

Vinur minn, Jón Valur Jensson, er látinn.

Tengsl okkar voru aðallega í kringum ritstörfin. Þannig sagði hann mér að hann hefði þegar uppgötvað líflega hlið á sér sem fagurkeralegu ljóðskáldi um náttúruna á námsárum sínum í menntaskóla. Og í Æviskrám samtíðarmanna minnist hann þess er hann hlaut Gullpennasjóðsverðlaun MR fyrir ritgerð sína eina árið 1971.

Ég kynntist honum fyrst um 1986, þegar við vorum báðir orðnir áberandi kjallaragreinahöfundar í DV.

Næst var það í kringum 1997, er við vorum báðir orðnir félagar í Rithöfundasambandi Íslands, en í félagatali þess, frá aldamótunum síðustu, er hann flokkaður sem ljóðskáld, fræðiritahöfundur og ættfræðihöfundur.

Hann gekk og til liðs við mig 1998 er ég hafði stofnað Hellasarhópinn; árlegt upplestrarfélag skálda er höfðu vitnað mikið í forngríska menningararfinn í ritverkum sínum.

Síðan gekk hann í Vináttufélag Íslands og Kanada er ég hafði stofnað 1995. (Einnig kynntist ég þar betur dóttur hans, sem hafði áður lesið upp með mér í ljóðskáldafélagi en gekk nú brátt í stjórn Vináttufélags Íslands og Kanada!)

Einnig skrifuðumst við seinna á í Morgunblaðinu.

Fyrir mér var Jón Valur Jensson fyrst og fremst tilfinningaríkt ljúfmenni og hugsjónamaður og litlu eldri en ég sjálfur!

Um árið kvaðst hann hafa ort reffilegt kvæði um hinn galvaska Pútín Rússlandsleiðtoga handa hópi sínum einum um stjórnmál. Gat ég þá bent honum á að ég hefði þegar birt langa rímu um Pútín í anda Sigurðar Breiðfjörð í einni af nýlegri ljóðabókum mínum. Heitir hún Pútíns rímur, og er inngangsvísan þannig:

Pútín, Rússlands pótentat

pústum vil ég mæra,

þann er þegi aðra gat

þaggað með að særa.

Tryggvi V. Líndal.

Vinur minn og baráttumaðurinn Jón Valur var ekki allra en ég get borið að hann var hjartahreinn og ávallt einlægur. Jón Valur var sannkristinn og átti það til að vanda um við þá sem hann taldi fara út af sporinu, „hinum þrönga vegi“, sem Kristur boðaði. Veraldarhyggjumönnum líkaði þetta misvel og því var það sem saksóknarinn stefndi þessum ráðvanda manni fyrir hatursorðræðu. En dómskerfið stóðst þessa þolraun og Jón Valur var sýknaður, góðu heilli. Jón Valur hafði ríka réttlætiskennd og stóð jafnan fremstur í baráttunni fyrir fullveldi Íslands. Ég trúi því að vinir og andstæðingar Jóns viðurkenni að það er mikið skarð fyrir skildi í mannflórunni. Ég er viss um að Jón Valur Jensson saknar þess sárt að geta ekki tjáð sig á blogginu og vandað um við okkur ef þess þarf, sjálfur sakna ég þess líka. Farðu í friði gamli vinur.

Sigurður Þórðarson.

Að fornvini mínum, Jóni Val Jenssyni, gengnum verður íslenskt samfélag grárra og dauflegra en áður. Við þurfum ekki endilega að vera sammála fólki til að virða gáfur þess, rökfestu og manngildi.

Kynntumst við Jón í 4. bekk Menntaskólans í Reykjavík. Ungt fólk er stundum yfirborðskennt og fordómafullt og átti það sannarlega við um mig. Ef satt skal segja leist mér ekki meir en svo á þennan langa slána til að byrja með. Taldi ég víst í grunnfærni æskunnar að hann væri bæði treggáfaður og leiðinlegur. Ekki leið á löngu áður en í ljós kom að Jón var bæði fluggáfaður og með afbrigðum skemmtilegur. Urðum við brátt nánir vinir og félagar. Entist sú vinátta ævilangt þó að samskiptin hafi minnkað frá menntaskóla- og háskólaárunum.

Vinahópurinn með forgangsröðunina á hreinu. Fyrsta krafan var að skemmta sér og hafa gaman af þessu öllu saman. Uppátæki okkar voru mörg og af margvíslegum toga. Held ég að þau hafi oftast verið réttum megin við lögin. Þó vil ég ekki fullyrða að ekki hafi verið brotin einhver ákvæði lögreglusamþykktar Reykjavíkur. Ef svo var voru afbrotin ekki alvarlegs eðlis og aldrei neinn meiddur. Einhverju sinni ræddi Guðni Guðmundsson rektor þessi mál við okkur drengina í tíma. Sagði hann að hann hefði engar áhyggjur af okkur, því að við gerðum allt í gleði en ekki í illkvittni og mannvonsku. Sagði rektor að hér væri allur munur á. Þó held ég ekki að við félagarnir hefðum neitt sérstaklega viljað að ævintýri okkar væru skráð og birt almenningi.

Lengst af vorum við Jón ósammála í mörgum efnum og þótti okkur það betra. Hann hafði eindregnar skoðanir og fór ekkert í felur með þær. Höfðum við ómælda ánægju af endalausum þrætum um stjórnmál, trúmál og önnur samfélagsmál. Nú dvel ég fjarri Íslands ströndum. Þá á ég það til að hlusta á Útvarp Sögu til að heyra ástkæra ylhýra málið talað. Ævinlega gladdi það mig að heyra í Jóni Val. Það minnti á unglingsárin, skoðanirnar eindregnar og málamiðlun ekki inni í myndinni. Bar hann af meðal margra þeirra sem hringdu inn hvað rökfestu og skýran málflutning varðar.

Við Jón fórum í langt handfæraúthald á Sigurði Sveinssyni SH37 þar sem bróðir minn Sigurður Arnór var skipstjóri. Jón Valur var þannig maður að þar sem hann var gerðust sögur og skemmtilegheit. Það átti við um þennan túr. Jón stytti okkur stundirnar með fjörlegum skoðanaskiptum og óhefðbundnum viðhorfum til málanna. Hann var kappsmaður mikill og hlífði sér ekki við að draga þann gula úr sjávardjúpunum. Átti hann það til að standa við rúlluna þegar aðrir áhafnarmeðlimir lágu fyrir og létu líða úr sér þreytuna. Var hann enda með efstu mönnum á bátnum.

Vorum við Jón seinast í sambandi fyrir stuttu. Var ég glaður að heyra í honum og er feginn að hafa átt við hann samfélag svo nýlega nú að honum gengnum. Hann var enn hinn góði og gamli Jón Valur með sitt sérstæða skopskyn og andlega fjör sem ætíð einkenndi hann. Votta ég vinum og aðstandendum innilega samúð við fráfall góðs drengs.

Valdimar Hreiðarsson.