[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Sigríður Á.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, sendi Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) greinargerð í síðustu viku vegna fyrirhugaðs málflutnings fyrir efri deild réttarins í febrúar. Verður þá tekin fyrir áfrýjun íslenska ríkisins í máli undirréttar MDE frá 12. mars 2019 (26374/18) sem höfðað var á hendur ríkinu vegna dóms Hæstaréttar Íslands í maí 2018. Sigríður á ekki aðild að málinu fyrir MDE en vegna ásakana í greinargerð stefnanda á hendur henni persónulega taldi hún sig knúna til þess að svara þeim. Taldi undirréttur MDE að annmarkar á skipan dómara við Landsrétt færu í bága við réttinn til réttlátrar málsmeðferðar. Fimm dómarar af sjö voru þessar skoðunar.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður höfðaði málið gegn ríkinu á þeim grundvelli að Arnfríður Einarsdóttir landsréttardómari hefði ekki verið löglega skipuð er hún dæmdi í sakamáli skjólstæðings hans. Af því leiddi að skjólstæðingur hans hefði ekki notið réttlátrar meðferðar í málinu fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli í samræmi við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sigríður bendir á að Hæstiréttur Íslands hafnaði þessum málflutningi í maí 2018.

Játning lá fyrir í málinu

Dómsmálið fyrir Landsrétti (871/2018) varðaði meintan ítrekaðan akstur sakbornings undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Sakfellt var í málinu en í dómi landsréttar segir að hinn ákærði hafi „skýlaust játað brot sín“. Hæstiréttur staðfesti dóminn í maí 2018 (mál númer 10/2018) og hafnaði þeim málflutningi að sakborningur hefði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar og mannréttinda. Það er þessi niðurstaða Hæstaréttar sem er til umfjöllunar hjá MDE. Málsaðilar höfðu frest til 11. nóvember til að skila greinargerð til efri deildar Mannréttindadómstóls Evrópu. Það var hins vegar ekki fyrr en 30. desember sem Sigríður fékk afrit af greinargerð Vilhjálms í málinu.

Í greinargerð Sigríðar er ýmsum atriðum andmælt. Til upprifjunar komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu í málum tveggja umsækjenda um stöðu dómara við Landsrétt (591 og 592/2017) að Sigríður hefði sem ráðherra ekki sinnt rannsóknarskyldu er hún kaus að víkja frá hæfnisröð dómaranefndar og velja fjóra dómara á kostnað jafnmargra sem dómaranefndin hafði tilnefnt.

Sigríður hafnar því í greinargerðinni að hafa gerst brotleg við lögin að þessu leyti, nánar tiltekið að hafa ekki farið að 10. grein stjórnsýslulaga, rannsóknarreglunni, sem kveður á um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.

Matskennd regla

Sigríður bendir á að 10. greinin sé matskennd regla. Skýringar skorti á því hvenær mál teljist nægilega upplýst. Hún hafi engu að síður rannsakað málið af kostgæfni og meðal annars lesið yfir gögn hæfnisnefndarinnar. Nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að 33 umsækjendur væru vel hæfir til að gegna stöðu dómara. Hins vegar væru 15 þeirra hæfari en aðrir. Hún hafi ekki fallist á þá niðurstöðu heldur talið að níu umsækjendur til viðbótar væru meðal þeirra hæfustu.

Þá hafi hún fundið að vægi einstakra matsþátta og meðal annars talið að dómarareynsla ætti að vega þyngra í matinu. Sá sem varð efstur í hæfnisröðinni hefði til dæmis fengið 10 í einkunn fyrir menntun en sá sem varð annar aðeins 1. Slíkt mat hljóti að vera gagnrýnivert. Jafnframt hafi þurft að huga að kynjasjónarmiðum. Sá galli sé á dómum Hæstaréttar (591 og 592/2017) að ekki sé getið um hvað ráðherra hafi átt að rannsaka betur.

Þá rifjar Sigríður upp að Hæstiréttur fjalli efnislega í sömu dómum í raun um brot á rökstuðningsreglu en ekki rannsóknarreglu. Hún hafi sem ráðherra rökstutt val sitt í samræmi við reglur um rökstuðning í íslenskum stjórnsýslurétti, þ.e.a.s. rökstutt af hverju hún valdi fjóra nýja dómara en ekki einhverja aðra. Það sé jafnan ekki rökstutt í íslenskum stjórnsýslurétti af hverju einhver fái ekki starf.

Sigríður telur undirrétt MDE aðeins hafa horft til dóma Hæstaréttar frá 2017 (591 og 592) í málum Ástráðs Haraldssonar og Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar gegn ríkinu en ekki haft hliðsjón af dómi Hæstaréttar (10/2018) þar sem hinn áfrýjaði dómur í máli skjólstæðings Vilhjálms var staðfestur. En niðurstaða Hæstaréttar var að ekki væri næg ástæða „til að draga á réttmætan hátt í efa að ákærði hafi, þrátt fyrir annmarka á málsmeðferð dómsmálaráðherra, fengið notið í Landsrétti réttlátrar meðferðar máls síns fyrir óháðum og óhlutdrægum dómendum“.

Þá bendir Sigríður á að minnihluti dómaranna við undirrétt MDE – tveir dómarar af sjö – hafi skilað séráliti. Þar komi fram að þeir telji meirihlutann hafa látið pólitíska umræðu á Íslandi trufla lögfræðina sem lá fyrir dómstólnum. Jafnframt telji minnihlutinn að skjólstæðingur Vilhjálms hafi fengið réttláta málsmeðferð. Minnihlutinn hafi í því efni vísað til þeirrar niðurstöðu Hæstaréttar að það standist ekki að skjólstæðingur Vilhjálms hafi ekki fengið réttláta málsmeðferð. Arnfríður hafi verið löglega skipaður dómari og óvilhöll. Ennfremur rifjar Sigríður upp að það sé meginréttarfarsatriði í fræðum um Mannréttindadómstól Evrópu að nálægðarreglan sé virt – að dómstóllinn verði að eftirláta það innlendum dómstólum að túlka innlend lög. Að öðrum kosti hefðu ríkin trúlega ekki tekið þátt í þessu samstarfi.

Hafnar ásökunum um spillingu

Sigríður vísar í greinargerð sinni á bug ýmsum atriðum í greinargerð Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, sem láti sér ekki nægja að vísa til dómsorða heldur beri á hana saknæma háttsemi, meðal annars spillingu og pólitísk hrossakaup.

Meðal annars vísar Sigríður því á bug að meintur vinskapur hennar við málsaðila hafi haft áhrif á aðkomu hennar að dómaravalinu. Hún hafi aldrei bundist neinum 33 umsækjendanna um stöðu landsréttardómara vinaböndum, né heldur mökum þeirra. Hún hafi sérstaklega gætt að reglum um hæfi ráðherra þegar listi umsækjenda varð ljós og ekki hafi reynst ástæða til að segja sig frá málinu og engar ábendingar þess efnis borist frá umsækjendum eða öðrum.

Þá sé sú kenning Vilhjálms fráleit að Arnfríður Einarsdóttir hafi orðið dómari fyrir tilstilli eiginmanns síns, Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Slíkar athugasemdir Vilhjálms kunni að vera leifar af viðhorfum feðraveldisins.

Ásakanir um að Brynjar hafi stigið úr einhvers konar oddvitasæti í kosningunum 2017, svo hún [þ.e.a.s. Sigríður Á. Andersen] gæti áfram verið dómsmálaráðherra, standist hvorki í tíma né rúmi. Oddvitasæti séu engin ávísun á ráðherrasæti, eins og hafi komið glögglega í ljós þegar hún var skipuð ráðherra eftir kosningarnar 2016, þá neðar á lista en Brynjar.

Sigríður færir jafnframt rök fyrir því að skipan dómara sé ekki vélrænt ferli. Við hæfnismatið hafi dómnefndin metið starfsreynslu minna en efni stóðu til en gefið yngri umsækjendum hærri einkunn vegna fjölbreyttari starfsreynslu. Umboðsmaður Alþingis hafi gagnrýnt slík vinnubrögð.

Jafnframt bendir Sigríður á að nefnd um hæfni dómara hafi síðan horfið frá því vélræna hæfnismati sem viðhaft var vegna skipunar í Landsrétt. Nefndin segi nú ómögulegt að greina á milli sömu dómaraefna og áður var greint svo nákvæmlega á milli hjá sömu nefnd vegna Landsréttar fyrir tveimur árum.

„Þessi breytta nálgun leiddi til skipunar dómara við Hæstarétt í desember sl. sem reiknast hafði töluvert lægri en annar umsækjandanna um stöðuna þegar hæfni þeirra var síðast metin vegna Landsréttar,“ segir hún.

Rangfærslur um vantraust

Sigríður andmælir því sem látið er að liggja í dómi meirihluta MDE um að stjórnarandstaðan á Alþingi hafi verið einhuga um að styðja vantrauststillögu á hendur ráðherranum á Alþingi vegna þessa máls. Ekki hafi allir stjórnarandstæðingar stutt vantraustið í atkvæðagreiðslu. Einnig hafi það komið fram í skýringum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, er hann greiddi atkvæði um tillöguna, að hann styddi tillöguna með þeim einu rökum að hann vantreysti ríkisstjórninni. Þá hafi flokksbróðir hans, Bergþór Ólason, vitnað til þess í þingræðu að Ögmundur Jónasson, fv. innanríkisráðherra, hafi opinberlega gagnrýnt dóm MDE. Að mati Bergþórs væri sú niðurstaða MDE fráleit að mannréttindi hefðu verið brotin í landsréttarmálinu. Hvort tveggja vitni um að Vilhjálmur dragi upp ranga mynd af afstöðu stjórnarandstöðunnar.

Loks lýsir hún sig reiðubúna að koma fyrir yfirréttinn og gera nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum.

Þingmenn höfnuðu hæfnisröðinni

• Fyrrverandi dómsmálaráðherra segir stjórn og stjórnarandstöðu hafa krafist breytinga á listanum • Gagnrýni MDE á atkvæðagreiðslu um dómara lýsi grundvallarmisskilningi á ferli málsins í þinginu Sigríður Á. Andersen, fv. dómsmálaráðherra, segir meirihluta þingmanna ekki hafa fallist á lista hæfnisnefndarinnar. Þá fyrst og fremst út af kynjasjónarmiðum. Hallað hafi á konur. Til upprifjunar mynduðu Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð ríkisstjórn þegar skipað var í nýjan Landsrétt vorið 2017.

Sigríður segir aðspurð að þessi sjónarmið hafi heyrst jafnt frá báðum kynjum í liði þingmanna.

„Ég átti einkafundi með formönnum allra flokkanna í stjórn og stjórnarandstöðu. Þeir sögðu að listinn færi ekki svona í gegnum þingið. Sumir formennirnir lögðu til að ég tæki karl, bara einhvern karl, af listanum og setti inn konu í staðinn. Þá spurði ég á móti: Finnst þér málefnalegt að fjarlægja karl af listanum? Þá var fátt um svör.“

Vitnisburður fyrir héraðsdómi

Sigríður rifjar svo upp vitnisburð Hönnu Katrínar Friðriksson, þingflokksformanns Viðreisnar, fyrir héraðsdómi í skaðabótamáli tveggja umsækjenda sem ekki voru skipaðir. Hanna Katrín hefði þá staðfest að Viðreisn hefði ekki samþykkt lista hæfnisnefndarinnar óbreyttan.

Sigríður rifjar jafnframt upp að Gunnlaugur Claessen, formaður hæfnisnefndarinnar, hafi ekki viljað afhenda skorblaðið þar sem umsækjendum var raðað í hæfnisröð með nákvæmni – aðeins 0,03 munaði á þeim sem urðu í sætum 15 og 16.

Sigríður kveðst hafa óskað eftir því að sjá skjalið á rafrænu formi til að sjá mætti forsendur útreikninga. Gunnlaugur hafi hins vegar aðeins fallist á að afhenda pappírsútgáfuna.

Því hafi þurft að slá inn tölurnar til að átta sig á niðurröðuninni. Þá hafi hún rekið augun í að samtala allra matsþáttanna 12 hafi verið 105%.

Sendi þingmönnum bréf

Sigríður kveðst hafa kynnt skorblaðið fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Eftir að hún lagði sem ráðherra fram tillögu að nýjum hæfnislista með fjórum nýjum nöfnum hafi þinginu borist harðorð mótmæli.

M.a. hafi Ástráður Haraldsson, einn umsækjenda, sent öllum þingmönnum tölvubréf sama dag og fullyrt að ráðherrann væri að brjóta lög.

„Þingið fékk til sín gesti til að ræða málið. Björg Thorarensen lagaprófessor og fjöldi annarra sérfræðinga kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Eftir þvílíka ítarlega skoðun á málinu tók þingið þá ákvörðun að samþykkja mínar tillögur. Það hefði vel getað gert eitthvað annað, samþykkt sumar tillögurnar eða enga þeirra.

Þannig að þingið rannsakaði málið líka. Það er því ekki rétt af Hæstarétti að segja að ég hafi brotið rannsóknarregluna og þingið ekki bætt úr því,“ segir Sigríður.

Í dómi undirréttar Mannréttindadómstóls Evrópu sagði að sú ákvörðun að láta alþingismenn ekki greiða atkvæði um hverja og eina dómarastöðu, heldur samþykkja allar tillögurnar 15 í einu lagi, hefði dregið úr heilindum (e. integrity) dómaravalsins.

Sigríður segir þetta misskilning. Það segi í íslenskum lögum að við fyrstu skipun dómara í Landsrétt hafi borið að leggja fram tillögu um hvern og einn dómara fyrir þingið.

„Það var gert. Ég skrifaði 15 tillögur á 15 mismunandi blöð, hvert og eitt nafn, sem ég sendi til Alþingis með rökstuðningi. Svo hafði ég ekki afskipti af málinu í þinginu. Þingið fór alfarið sjálft með málið eftir það. Þetta var óvenjulegt þingmál. Hvorki lög né þingsályktunartillaga heldur einstakt mál sem kveðið er á um í lögum að þingið þurfti að afgreiða,“ segir Sigríður.

Var vandlega athugað

„Skrifstofa Alþingis rannsakaði málið mjög vel og hvernig ætti að meðhöndla þetta. Tillögurnar 15 fóru fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem útbjó svo nefndarálit; lagði til að þingið samþykkti þessar 15 tillögur mínar. Svo koma nöfnin í númeraðri röð, frá 1 til 15, og þá segir forseti þingsins að greiða eigi atkvæði um 15 tillögur. Hann leggi hins vegar til að greidd séu atkvæði um þær í einu lagi nema einhver þingmaður óski þess að greidd verði atkvæði um hvert og eitt dómaraefni sérstaklega. Það óskaði enginn eftir því. Þetta er alvanalegt. Aðdragandinn var að forseti, með atbeina þingskrifstofu, kynnti áform sín og möguleika í stöðunni vel fyrir þingflokksformönnum. Allir á þeim fundi voru sáttir með fyrirhugað fyrirkomulag og enginn ágreiningur um fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar.

Ég lagðist reyndar eindregið gegn því að greidd yrðu atkvæði um þetta í einu lagi og tjáði þingflokksformanni mínum að ég teldi rétt að þingmenn yrðu látnir standa frammi fyrir valinu á hverju dómaraefni fyrir sig. En það var ekki hlustað á mig.“

Ekki hlutverk dómstólanna

Sigríður lýsir sig hins vegar sammála forseta Alþingis og skrifstofustjóra Alþingis sem hafi útbúið minnisblað í kjölfar dóms MDE. Þar segi að þinginu sé í sjálfsvald sett hvernig það hagar atkvæðagreiðslum. Það sé ekki hlutverk dómstóla að ganga inn á svið löggjafans með afskiptum af því hvernig atkvæðagreiðslur á þinginu fara fram.

„Það gilda þingskaparlög um starfshætti Alþingis, hefðir og venjur í þinghúsinu, sem dómstólarnir sem ein grein ríkisins á ekki að skipta sér af, og hvað þá erlendur dómstóll,“ segir Sigríður. Hún segir aðspurð að ef dómurinn verði staðfestur í efri deild MDE í febrúar muni það að sínu mati ekki hafa neinar afleiðingar.

„Þá hlýtur Hæstiréttur að árétta það sem hann hefur margsagt að dómarar við Landsrétt eru löglega skipaðir samkvæmt íslenskri stjórnskipan. Eitthvert álit frá Strassborg mun ekki breyta neinu um það þótt vissulega megi líta á það sem hvatningu til þess að endurskoða reglur og vinnubrögð um skipan dómara,“ segir Sigríður Á. Andersen.

baldura@mbl.is