Jónas Haraldsson
Jónas Haraldsson
Eftir Jónas Haraldsson: "Fullyrði ég að ekkert sendiráð annarra ríkja hefði nokkurn tímann sýnt slíka framkomu og tillitsleysi gagnvart nágrönnum sínum eða öðrum."

Með skrifum þessum vil ég ítreka fyrri áskoranir mínar frá árunum 2013 og 2016 til kínverska sendiráðsins um að hið niðurnídda hús þeirra á Víðimel 29, sem staðið hefur autt og ónotað síðan 2012 eða nú í átta ár, verði selt, gefið eða brotið niður og fjarlægt.

Hér skal rifjað upp, að þetta hús þótti með betri húsum bæjarins og oft nefnt kanslarahöllin. Húsið var eitt örfárra húsa sem steinuð voru að utan með hrafntinnu og silfurbergi og með koparþaki. Nokkru eftir að kínverska alþýðulýðveldið keypti húsið árið 1973 undir sendiráð var málningu sullað á allt húsið að utan og einnig á koparþakið, eins og um járnþak væri að ræða. Árið 1995 tókst sem betur fer að koma í veg fyrir að veitt yrði leyfi fyrir því að garðurinn yrði lagður undir bílskýli úr timbri. Hefði leyfi fengist má rétt ímynda sér hvernig ástandið á þeim væri í dag miðað við umgengnina hjá sendiráðsmönnum í gegnum tíðina. Þá hefur hirðan á garðinum alla tíð verið þeim til vansæmdar og hefur t.d. garðaúrgangi verið safnað í einn haug síðustu árin, svo dæmi sé nefnt um vanhirðuna þar.

Ástand hússins sjálfs er fyrir löngu orðið stórfellt lýti á nánasta umhverfi hér í Vesturbænum, eins og allir geta séð. Húsið er eins og draugabæli í skammdeginu. Veturinn 2018 kom upp mikill vatnsleki á 2. hæð hússins og stóðu sendiráðsmenn, loks er þeir komu, við að ausa m.a. með matardiskum og skvettu vatninu út um glugga! Vatnsskemmdirnar urðu slíkar að parketið glæsilega gengur nú í bylgjum þegar gengið er á því segja þeir sem skoðað hafa húsið. Bættist þá enn frekar við mygluna í húsinu. Í óveðrinu, sem gekk nýlega yfir landið, brotnaði á bak aftur annar fjarskiptaskermurinn á þakinu og dettur væntanlega fyrr en síðar niður í garðinn. Þriðja hvern dag hafa undanfarið komið tveir starfsmenn sendiráðsins og lýst með vasaljósi á nýja smekklásinn, sem settur var á garðskálahurðina, og einnig upp í glugga hússins.

Fyrir stuttu var brotist inn í húsið og farið inn um opinn glugga í kjallaranum, sem lengi hafði staðið opinn. Sjá mátti utan frá á tveimur stöðum að veggjakrotarar höfðu verið á ferli inn í húsinu og teiknað á veggi og krotað. Frekar en það hefði maður nú haldið að einhverjir hefðu tekið sig til og skrifað á útveggi hússins einhver kunnugleg nöfn úr afrekaskrá kínverska kommúnistaflokksins varðandi mannréttindabrot og kúgunartilburði, t.d. Tiananmentorg, Úígúrar, Tíbet, Falun Gong eða Hong Kong. Að minnsta kosti hefðu veggjakrotararnir þá ekki angað á eftir af myglulykt innan úr húsinu og almenningur jafnframt getað virt fyrir sér afurðina.

Takist ekki að selja húsið, sem að mínu mati væri hægt sem ígildi fokhelds húss og verðlagt sem slíkt, ef þá einhver treystir sér til að endurbyggja það frá grunni með tilheyrandi kostnaði, þá liggur ekkert annað fyrir en að brjóta verði húsið niður og fjarlægja og því verði fylgt fast eftir. Að gjörónýtt húsið verði áfram látið grotna niður næstu árin eða áratugina verður ekki liðið lengur. Menn eru fyrir löngu orðnir fullsaddir á þessu óþolandi ástandi og þeirri lítilsvirðingu sem okkur næstu nágrönnum hefur verið sýnd í gegnum árin. Fullyrði ég að ekkert sendiráð annarra ríkja hefði nokkurn tímann sýnt slíka framkomu og tillitsleysi gagnvart nágrönnum sínum eða öðrum. Aðalatriðið fyrir okkur mörg hér í Vesturbænum er að kínverska sendiráðið ráðstafi Víðimel 29 með einhverjum framangreindum hætti og þeir hverfi af svæðinu og þótt löngu fyrr hefði verið. Ekki munum við næstu nágrannar harma brottför þeirra.

Höfundur er lögfræðingur.