Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, útnefndi í gær sjö þingmenn úr sínum röðum til þess að sækja mál deildarinnar á hendur Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir öldungadeildinni.

Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, útnefndi í gær sjö þingmenn úr sínum röðum til þess að sækja mál deildarinnar á hendur Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir öldungadeildinni. Adam Schiff, sem fór fyrir rannsókn fulltrúadeildarinnar, var valinn til þess að leiða teymið en Jerry Nadler, formaður dómsmálanefndar fulltrúadeildarinnar, var einnig útnefndur. Flestir af þeim sjö þingmönnum sem Pelosi útnefndi eru með reynslu sem saksóknarar í bandaríska réttarkerfinu.

Útnefningin var nauðsynlegur undanfari þess að fulltrúadeildin gæti sent ákærur sínar formlega áfram til öldungadeildarinnar, en ekki var búið að því þegar Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöldi.

Gert er ráð fyrir að réttarhald öldungadeildarinnar hefjist á þriðjudaginn og munnlegur málflutningur verði í tvær vikur eftir það.