[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fanney Ólöf Lárusdóttir fæddist 16. janúar 1970 á Kirkjubæjarklaustri II og ólst þar upp. „Ég stundaði hestamennsku og íþróttir þegar færi gafst en annars var unnið af kappi við landbúnaðarstörf hjá foreldrum mínum eftir að aldur og geta leyfðu.

Fanney Ólöf Lárusdóttir fæddist 16. janúar 1970 á Kirkjubæjarklaustri II og ólst þar upp. „Ég stundaði hestamennsku og íþróttir þegar færi gafst en annars var unnið af kappi við landbúnaðarstörf hjá foreldrum mínum eftir að aldur og geta leyfðu.“

Fanney gekk í Kirkjubæjarskóla á Síðu og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1990. Þá lá leiðin í Bændaskólann á Hvanneyri og útskrifaðist hún sem búfræðingur 1991 og búfræðikandídat 1995 frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri (þá Framhaldsdeildin á Hvanneyri).

Sumarstörf Fanneyjar þegar hún var í námi voru meðal annars hótelstörf á Hótel Eddu Kirkjubæjarklaustri, bankastarfsmaður við Landsbankann á Kirkjubæjarklaustri og landbúnaðarstörf hjá foreldrum á Kirkjubæjarklaustri II. Fanney þurfti að bíða eitt ár til að komast í Framhaldsdeildina á Hvanneyri, 1991-1992. Þá vann hún m.a. í sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri, síðan við fiskvinnslu hjá Granda í sex vikur. „Ég bjó þá í Reykjavík, sem er það lengsta sem ég hef haldið til í Reykjavík samfleytt.“ Eftir áramót 1991/1992 vann Fanney fjóra mánuði við tamningar í Austur-Landeyjum. Haustið 1992 hóf hún síðan nám við Framhaldsdeildina á Hvanneyri.

Að námi loknu hóf Fanney störf hjá Landgræðslu ríkisins sem héraðsfulltrúi í Skaftárhreppi 1995-1997, ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands 1995-2012 og síðan ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins frá stofnun þess 2013. Í ársbyrjun 2003 tóku Fanney og eiginmaður hennar, Sverrir, við sauðfjárbúi foreldra Fanneyjar á Kirkjubæjarklaustri II og eru með um 500 fjár.

„Að námi loknu frá Hvanneyri fékk ég strax starf sem ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands og var strax sett í sauðfjárræktina þar enda er það mitt mesta áhugasvið. Í dag sé ég t.d. um skipulagningu sauðfjárdóma fyrir fjórar sýslur auk þess sem ég fer um sveitir og dæmi lömb hjá sauðfjárbændum og aðstoða þá þannig við ásetningsvalið.“

Fanney var virk í félagsmálum bænda um nokkurra ára skeið. Hún sat m.a. í stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda og stjórn Bændasamtaka Íslands í nokkur ár. Hún hefur verið félagsmaður í Hestamannafélaginu Kóp frá unga aldri og var í stjórn félagsins um nokkurra árabil og gjaldkeri í nokkur ár.

Fanney hefur verið félagsmaður í Ungmennafélaginu Ármanni frá unga aldri. Hún var virk sem iðkandi á yngri árum en er í dag að þjálfa krakkablak yfir vetrartímann og hefur þjálfað frá árinu 2013. Hún hefur tekið þátt í blaki kvenna á vegum Umf. Ármanns í um 10 ár og er nú þjálfari á þessum æfingum. Hún var kosin í stjórn UMFÁ veturinn 2018 og tók við sem formaður 2019.

Vegna áhuga fyrir hreyfingu barna og unglinga var Fanney fengin til afleysinga við íþróttakennslu á vorönn 2019 við Kirkjubæjarskóla og jafnframt sá hún um hluta sumaríþróttaæfinga UMFÁ fyrir börn og unglinga sumarið 2018 og 2019.

Helstu áhugamál Fanneyjar eru ferðalög innanlands með fjölskyldunni, hestamennska og íþróttir, bæði þátttaka og að fylgjast með því sem er að gerast í íþróttalífinu hverju sinni. „Sérstakt áhugamál þessi árin er mikilvægi hreyfingar almennt og þá sérstaklega hreyfing barna og unglinga.“

Fanney var mjög virk í hestamennsku frá unga aldri og keppti oft á hestamannamótum Kóps og einnig stórmótum á Hellu hér áður fyrr. „Ég hef lagt þá iðju á hilluna í bili og snýst hestamennskan í dag meira um góða útreiðartúra heima fyrir og hestaferðir.

Á menntaskólaárunum var ég mjög virk í öllum íþróttagreinum sem í boði voru, gilti einu hvort það var blak, körfubolti, fótbolti eða frjálsar íþróttir. Mætt var á allar æfingar sem voru í boði. Má segja að blakáhugi minn hafi kviknað á Laugarvatni.“

Sauðfé og sauðfjárrækt hefur samt verið stærsta áhugamál Fanneyjar alla tíð. „Á uppvaxtarárunum tók ég fullan þátt í búskapnum hjá foreldrum mínum og átti sauðkindin hug minn allan. Ef verið var að vinna í fénu vildi ég alltaf vera með og taka fullan þátt í því þótt ég réði varla við hlutverkið þegar ég var krakki. Heyskapur og smalamennska og allt tengt sauðfénu hefur átt hug minn í gegnum tíðina. Sauðburður stendur samt alltaf upp úr. Að taka á móti lömbunum og sjá allt lífið kvikna á vorin.“

Fjölskylda

Eiginmaður Fanneyjar er Sverrir Gíslason, f. 6. apríl 1969, sauðfjárbóndi. Foreldrar Sverris voru hjónin Gísli Vigfússon, f. 29.8. 1923, d. 1.3. 2007, bóndi á Flögu í Skaftártungu, og Sigríður Sigurðardóttir, f. 19.1. 1934, d. 11.5. 2017, húsfreyja og ferðaþjónustubóndi á Flögu II.

Börn Fanneyjar og Sverris: 1) Svanhildur, f. 21.8. 1999, d. 25.8. 1999; 2) Sólrún Lára, f. 4.6. 2002, nemi í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti; 3) Sigurður Gísli, f. 13.7. 2006, nemi við Kirkjubæjarskóla á Síðu; 4) Ásgeir Örn, f. 24.2. 2008, nemi við Kirkjubæjarskóla á Síðu.

Systkini Fanneyjar eru Guðrún Lárusdóttir, f. 24.8. 1966, bóndi í Keldudal í Skagafirði; Kristín Lárusdóttir, f. 11.3. 1971, starfar við tamningar og er sauðfjárbóndi á Syðri-Fljótum í Meðallandi.

Foreldrar Fanneyjar: Hjónin Lárus Valdimarsson, f. 29.6. 1940, d. 22.2. 2016, sauðfjárbóndi á Kirkjubæjarklaustri II allan sinn starfsaldur og fjallkóngur á Miðafrétti til margra ára, og Sólrún Ólafsdóttir, f. 28.2. 1948, sauðfjárbóndi á Kirkjubæjarklaustri II til ársins 2003 og hefur starfað við bókhald fyrir bændur um margra ára skeið. Hún er búsett á Kirkjubæjarklaustri II.