Markaður Talið er að tækifæri séu á Japansmarkaði.
Markaður Talið er að tækifæri séu á Japansmarkaði. — AFP
Fulltrúar þriggja japanskra fisksölufyrirtækja, Maruha, Okada Suisan og Azuma, munu á miðvikudag í næstu viku halda kynningu hjá Þekkingarsetri Vestmannaeyja.

Fulltrúar þriggja japanskra fisksölufyrirtækja, Maruha, Okada Suisan og Azuma, munu á miðvikudag í næstu viku halda kynningu hjá Þekkingarsetri Vestmannaeyja. „Þetta eru risastór sölufyrirtæki sem ætla að koma til okkar og ræða japanska markaðinn og tengda markaði, fjalla um tegundir og afurðir og hvort einhver tækifæri eru í viðskiptum milli landanna,“ segir Hrafn Sævaldsson, nýsköpunar- og þróunarstjóri þekkingarsetursins.

„Þetta eru rosalega stór fyrirtæki,“ ítrekar Hrafn og vísar meðal annars til veltu Maruha, en hún nemur um 920 milljörðum japanskra jena, jafnvirði um þúsund milljarða íslenskra króna, og hefur fyrirtækið 11.300 starfsmenn samkvæmt Financial Times.

Þróaður markaður

Okada Suisan sérhæfir sig í vinnslu og sölu loðnu og loðnuafurða og er með um 50% markaðshlutdeild í Japan. Félagið, sem Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum varð meðeigandi í árið 2017, selur til um 50 þúsund verslana.

Hrafn segir tækifæri geta falist í sölu íslenskra sjávarafurða til Japans. „Þessi fyrirtæki eru meðal annars í loðnu, loðnuhrognum, grálúðu, karfa og makríl, bæði landfryst og sjófryst. Þetta er rosalega þróaður markaður og hægt að læra mikið af þeim, enda alþjóðleg fyrirtæki sem hafa þekkingu á þróuninni í greininni.“ gso@mbl.is