Alþýðublaðið 2. mars 1971 Undir liðnum „Alþýðublaðið segir“: „Við getum ekki dansað kringum fuglshaminn en látið þetta fólk lönd og leið. Krækjum okkur í blessaðan geirguflinn. En sendum FYRST eftir fólkinu.“
Alþýðublaðið 2. mars 1971 Undir liðnum „Alþýðublaðið segir“: „Við getum ekki dansað kringum fuglshaminn en látið þetta fólk lönd og leið. Krækjum okkur í blessaðan geirguflinn. En sendum FYRST eftir fólkinu.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ólaf Bjarna Andrésson: "Fyrir vikið mætti ætla að sá sem þannig hugsar geti skilið að aðrir kunni að bera svipaðar tilfinningar í garð þeirra sem að þeim standa og að ef orðstír þeirra er meiddur að ósekju þá kalli það á viðbrögð og leiðréttingu."

Tilefni fyrirsagnarinnar er bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið.

Þótt sjálfur beri ég ekki nafnið Ketill samsama ég mig því ágætlega enda var sá Ketill Ketilsson sem Andri Snær vísar til í bók sinni langafi minn og það sem meira er, að varla get ég annað en tekið það til mín þegar mér er sagt að skömm hafi löngum hvílt á afkomendum þessa manns. Hann hafi drepið síðasta geirfuglinn og væri ráð fyrir andvaralausan samtímann að horfa til hans sem vítis til varnaðar; varla vilji menn feta í fótspor Ketils Ketilssonar, varla vilji menn verða Ketill!

Sögunni skal skilað af sanngirni

Áður en ég gef Andra Snæ sjálfum orðið, þannig að ég leggi honum ekki orð í munn, langar mig til að skýra ögn hvers vegna okkur afkomendum Ketils Ketilssonar líkar þessi málflutningur illa, þykir hann ósanngjarn og beinlínis villandi sögufölsun.

Þá er þess að geta að þessi afi móður minnar er ekki látinn njóta sannmælis. Honum er skilað til okkar samtíma sem allt öðrum manni en hann raunverulega var.

Í Hávamálum segir að þótt mannlífið sé hverfult deyi orðstír aldrei „hveim er sér góðan getur“. Orðstír Ketils Ketilssonar virðist af þeim heimildum sem ég hef séð hafa verið óumdeildur. Það eru síðari tíma menn sem hafa reynt að hafa af honum mannorðið, gera orðstír hans að engu. Og verra en það, snúa honum upp í andhverfu sína, illvirkja sem eigi að hafa skömm á. Og enn er á þessu hamrað nú á bók Andra Snæs Magnasonar.

Vitanlega er það svo að jafnvel hinum bestu mönnum getur orðið á í lífinu og þannig gæti það hafa gerst að það hefði hent hinn mætasta mann að vera valdur að óhappaverki svo sem að reka smiðshöggið á útrýmingu dýrategundar. Verra er þegar slíkt er hermt upp á menn að ósekju. Uppi með það hefur langafi minn verið látinn sitja þótt órækar heimildir sýni svo ekki verður um villst að söguburðurinn um hann er ósannur. Er nú mál að linni.

Svo mælist Andra Snæ

Víkur þá sögunni að þeirri afbökun á orðspori þessa manns sem Andri Snær hefur nú gert að sinni. Skal nú vitnað í fyrrnefnda bók hans:

„Útdauði dýrategundar af mann avöldum er stórviðburður. Á Íslandi misstum við geirfuglinn þann 3. júní árið 1844 þegar síðustu tveir fuglarnir voru drepnir í Eldey. Fræðiheiti geirfuglsins er Pinguinus impennis og það hefði verið fallegt að eiga okkar eigin norrænu mörgæs en því miður tíðkaðist ekki að friða dýr á þessum tíma. Árið 1929 varð nokkur ritdeila í blöðum út af þessum fugli þegar Peter Nielsen fuglafræðingur á Eyrarbakka skrifaði um síðustu geirfuglana í Lesbók Morgunblaðsins. Hann lýsti því hvernig hamir þeirra urðu verðmætari meðal safnara eftir því sem fuglinn varð sjaldgæfari. Að lokum fengu sjómenn ígildi heillar vertíðar í laun fyrir að fanga fugla og egg fyrir evrópska safnara, sem stuðlaði að enn hraðari tortímingu tegundarinnar. Ólafur Ketilsson, sonur mannsins sem drap síðasta geirfuglinn, svarar Peter í aðsendri grein og þykir vegið að æru föður síns. Peter svarar Ólafi og segir að hann hafi ekki nefnt nein nöfn í sinni grein og útskýrir af hverju hann fór þá leið:

„Af lotningu fyrir minningu dáins manns, og til þess að særa ekki tilfinningar ættingja hans og vina, nefndi ég ekki nafn þess manns, sem mér hafði verið sagt að drepið hefði síðustu geirfuglana, sem vitað var um að til væru í heiminum, eða verið hafði svo ógæfusamur að valda dauða þeirra, enda áleit ég að það kæmi almenningi ekki við og óþarft væri að halda því á lofti. (P. Nielsen: „Síðustu geirfuglarnir“.

Vísir, 12. september 1929, bls. 5).“

„Því alls ekki ósennilegt“

„En úr því að Ólafur stígur fram“ – og er enn vitnað í bók Andra Snæs – „telur Peter Nielsen ástæðu til að árétta hvað gerðist örlagaríka júnídaginn árið 1844 og vísar í danska skýrslu:

„Sé þessi skýrsla rétt, sem mér virðist engin ástæða til að vefengja, þá hefur hann heitið Jón, maðurinn sem veiddi næstsíðasta geirfuglinn og Sigurður, sá sem veiddi þann síðasta, en maðurinn sem handlék síðasta geirfuglseggið – sem ekki er ólíklegt að hafi verið svo gráungað að um líf hafi verið að ræða innan undir skurninni – hann segir prófessor Newton að hafi heitið Ketill. Það er því alls ekki ósennilegt, að það hafi einmitt verið Ketill, sem drap síðasta geirfuglinn!“

Samkvæmt lesbókinni fæddist Peter Nielsen árið 1844, þremur mánuðum og fimm dögum fyrir drápið á síðasta geirfuglinum, og lánaðist því ekki að sjá þessa skepnu. Árið 1929 var hann orðinn 86 ára og búinn að vera lamaður í nítján ár en ritfærnin bendir til að hann hafi verið skýr í höfðinu og hann er hárbeittur í ádeilu sinni.“

(Andri Snær Magnason: Um tímann og vatnið, bls. 139-144.)

Tilefni til leiðréttingar

Þótt ekki deili ég aðdáun á ályktunargáfu Peters Nielsens í þessu skrifi hans og hvernig hann fer þar með staðreyndir þá efast ég ekki um góðan hug hans hvað varðar baráttu fyrir verndun dýra í útrýmingarhættu og að þar hafi framlag hans verið mikilvægt. Það truflar mig óneitanlega að hann skyldi ekki hafa leiðrétt sína fyrri frásögn eftir að honum barst í hendur dönsk þýðing á sjálfri frumheimildinni þar sem greinir frá þeim atburðum sem um ræðir. Í þá heimild hefði Andri Snær Magnason einnig getað skyggnst áður en hann kvað upp sína dóma því hún er nú öllum aðgengileg, ekki aðeins í danskri þýðingu heldur einnig á ensku. Því máli sem hún var rituð á.

Frumheimildir

Árið 1861 birtist í Bretlandi greinargerð sem byggðist á rannsóknum tveggja breskra náttúrufræðinga, Johns Wolleys og Alfreds Newtons, sem komið höfðu til Íslands í geirfuglaleit þremur árum áður. (A. Newton (1861) Abstract of Mr. J. Wolley's researches in Iceland respecting the Gare-fowl or Great Auk (Alea Impennis, Linn) Ibis 3 (4): 374-399).

Greinargerðin, sem er afar nákvæm, er sú heimild sem er áreiðanlegust því hún stendur næst þeim sem best þekktu til. Vísindamennirnir ræddu við yfir hundrað manns þar á meðal tólf af fjórtán sem tóku þátt í síðasta leiðangrinum til að fanga geirfugl í Eldey. Þarna lýsa þeir nákvæmlega hvernig þrír menn hafi treyst sér upp í eyna í miklum sjógangi, þeirra á meðal Ketill Ketilsson. Félagar Ketils drápu tvo fugla, en um þátt Ketils segir: „Ketil(l) then returned to the sloping shelf whence the birds had started, and saw an egg lying on the lava slab, which he knew to be a Gare-fowl's. He took it up, but finding it was broken, put it down again.“ Það er því alveg ljóst að Ketill drap engan geirfugl í þessari ferð, og það er þess vegna gróf sögufölsun að segja að hann hafi drepið síðasta geirfuglinn! Það sem meira er, hann hvorki stýrði umræddum leiðangri, né kom hann á nokkurn hátt að sölu geirfuglanna þótt slíku hafi einnig ranglega verið haldið fram.

Geirfuglinn fórnarlamb sjósóknara og safnara

Niðurstaða bresku vísindamannanna var sú að geirfugli hefði nánast verið útrýmt í Eldey á áratugunum áður en síðustu fuglarnir hafi verið drepnir og má ráða að safnarar hafi þar ekki átt lítinn hlut að máli því flestir uppstoppaðir geirfuglar á söfnum á þessum tíma, svo og geirfuglsegg, eigi uppruna sinn í Eldey.

Hitt sé þó ljóst að aldrei hafi verið mikið um geirfugl við Íslandsstrendur miðað við ýmis önnur svæði.

Geirfuglinn hafi verið útbreiddastur á Nýfundnalandi en þó orðið útdauður þar um aldamótin 1800. Sjómenn höfðu nýtt hann óspart til matar og til beitu og gekk mjög ört á stofninn af þeim sökum. Þetta er í góðu samræmi við niðurstöður síðari tíma vísindamanna. Þannig segir í grein eftir Ævar Petersen fuglafræðing sem ber heitið Brot úr sögu geirfuglsins (Náttúrufræðingurinn, 65. árgangur 1995, bl. 53-66): „Þótt Íslendingar hafi orðið svo ólánsamir að drepa síðustu tvo geirfuglana er á engan hátt hægt að kenna þeim einum um að hafa útrýmt tegundinni. Örlög hennar voru að mestu ráðin annars staðar því aðeins smábrot af heildarstofninum var hér við land. Hins vegar er sjálfsagt að draga lærdóm af þessum atburði og vera hans ávallt minnug í umgengni okkar við náttúruna.“

Hvað er þá rétt?

Upp úr stendur þá þetta: Geirfuglinn var kominn í bráða útrýmingarhættu þegar Ketill Ketilsson er barn og unglingur. Menn höfðu nýtt sér fuglinn til manneldis og síðan varð hann eftirsóttur söfnurum sem áður segir. Sjómenn á þessum tíma nýttu sér þetta og flýtti það enn fyrir útrýmingunni. Árið 1844 voru aðeins tveir fuglar eftir, að því er best er vitað, þegar send var sveit manna út í Eldey. Þrír menn fóru upp í eyna, einn af þeim var Ketill Ketilsson sem þá var kornungur maður, tvítugur að aldri, og á þeim tíma ekki sá forgöngumaður sem hann síðar varð, hvað þá gerandi í geirfuglaútgerðinni sem var að líða undir lok þegar hann var á barnsaldri! En upp í eyna fór hann, félagar hans drepa þá tvo fugla sem þeir sjá, hann tekur upp egg, sér það er brotið og leggur það frá sér. En hér byrjar svo síðari tíma spuninn, „ ætla má að eggið hafi verið gráungað“ og það því „einmitt verið Ketill, sem drap síðasta geirfuglinn!“

Undir venjulegum kringumstæðum hefðu menn leitt þetta tal hjá sér svo út í hött sem það var. En það hefur aldeilis ekki verið gert.

Ekki kann ég skýringu á því hvers vegna aðförin að mannorði Ketils Ketilssonar varð eins lífseig og raun ber vitni. Ég get mér þess til að vegna þess hve hann átti eftir að verða stöndugur maður þá hafi menn hneigst til að eigna honum allar gjörðir, góðar og illar, slíkur gerandi varð hann þegar á ævina leið.

Kannski fáum við síðbúnar útskýringar ritstjóra Alþýðublaðsins

Hvað skýrir hins vegar rætnina sem fram kemur í skrifum um hann og afkomendur hans veit ég ekki. Á meðal afkomenda hans voru vissulega kröftugir og málsmetandi einstaklingar. Nefni ég þar Odd Ólafsson, lækni á Reykjalundi og alþingismann, Ásbjörn Ólafsson heildsala, Sigurð Ólafsson, bóksala, Gunnar Ólafsson bifreiðastjóra, Unni Ólafsdóttur listakonu og marga fleiri sem Alþýðublaðið telur alla skilmerkilega upp í grein um þessa vafasömu ætt í ítarlegri umfjöllun árið 1971. Í tilvísun til móður minnar, Margrétar Helgu Vilhjálmsdóttur, sem einnig er talin þarna upp, segir hvaða manni hún er gift og er það eflaust dæmigert fyrir tíðarandann! Ekki veit ég til þess að Alþýðublaðið hafi átti einhverjar óuppgerðar sakir við foreldra mína og almennt voru þau hlynnt því að vernda náttúru Íslands!

Fróðlegt væri, sögunnar vegna, að heyra hvernig ritstjóri blaðsins á þessum tíma, Sighvatur Björgvinsson, skýrir þessi skrif blaðsins jafn ótrúleg og þau voru, að ógleymdri myndskreytingunni: „Okkur tókst að verða okkur úti um mynd af manninum sem drap síðasta geirfuglinn hér við land árið 1844 eða fyrir réttum 127 árum síðan. Maður þessi var Ketill Ketilsson, bóndi í Kotvogi í Höfnum.“

Daginn eftir andmælti dr. Finnur Guðmundsson, fuglafræðingur, þessum furðulega málflutningi og rangfærslum Alþýðublaðsins en enga afsökunarbeiðni hef ég séð af hálfu blaðsins og var þó áhugi mikill á málinu því á þessum tíma fór fram peningasöfnun til að kaupa til landsins uppstoppaðan Eldeyjargeirfugl.

En hver var Ketill?

Ketill Ketilsson var fæddur á Svalbarði á Álftanesi árið 1823. Barnungur missti hann móður sína og flutti hann með föður sínum sjö ára gamall að Kirkjuvogi í Höfnum. Síðar flutti hann að Kotvogi og bjó þar með konu sinni, Vigdísi Eiríksdóttur frá Litla-Landi I Ölfusi, til æviloka árið 1902.

Sem fulltíða maður gerðist Ketill umsvifamikill útgerðarmaður með meiru og fór af honum einkar gott orð. Tekið var til þess hve hjálpsamur hann var öllum þeim sem stóðu höllum fæti og þurftu aðstoðar við í lífinu. Haft er eftir Finni Jónssyni, fræðimanni á Kjörseyri að Ketill Ketilsson stórbóndi, „formaður, sjósóknari og dannebrogsmaður“ hafi verið „tilkomumesti maður“, sem hann hafi séð og kynnst á ævinni. (Jón Thorarensen, Litla Skinnið bls. 27-42).

Hjálpsamur og listfengur og öllum hjálparhella

Sem dæmi um frumkvæði hans og dugnað má vísa til ýmissa mannvirkja og er þar þekktust Hvalsneskirkja sem hann reisti á eigin kostnað, fyrst timburkirkju og síðan steinkirkju, sem enn stendur.

Í sinni kunnu og merku bók, Íslenskum þjóðlögum, tekur Bjarni Þorsteinsson sérstaklega til þess hve ríkri tónlistargáfu Ketill hafi búið yfir og miðlað henni vel. Sjálfur hafi hann sungið betur en flestir menn.

Frá því er skemmst að segja að þar sem Ketill fór blómstraði byggð því athafna- og menningarlíf naut óspart góðs af framlagi hans. Um þetta ber samtímamönnum Ketils Ketilssonar almennt saman um.

Og þá spyr ég: Hver vill ekki vera slíkur maður?

Svari hver fyrir sig.

Við Andri Snær ættum að skilja hvor annan

Andri Snær Magnason skrifar þannig ekki í neinu tómarúmi þegar hann fjallar um illvirkjann sem útrýmdi geirfuglinum og hans afkomendum.

Væri fróðlegt að fá það fram hvort hann er reiðubúinn að endurmeta skrif sín í ljósi þess sem hér hefur verið bent á. Bók hans er samfelldur óður til forfeðra hans, foreldra, afa og amma, og frændgarðsins alls og sjálfur segist hann tileinka skrif sín börnum sínum og barnabörnum. Ég kann að meta þessa ræktarsemi. Fyrir vikið mætti ætla að sá sem þannig hugsar geti skilið að aðrir kunni að bera svipaðar tilfinningar í garð þeirra sem að þeim standa og að ef orðstír þeirra er meiddur að ósekju þá kalli það á viðbrögð og leiðréttingu.

Spyr sá sem fær þennan dóm:

„Þegar amma og afi fæddust var fólk á lífi sem var uppi á tímum geirfuglanna. Þá hvíldi skömm yfir afkomendum Ketils og félaga hans sem drápu síðustu dýrin Ef við skoðum spár vísindamanna og gerum ekkert róttækt núna verður dómur sögunnar um sjöttu útrýminguna á svipaða leið. Tilvist okkar verður sveipuð skömm. Kannski verður öll saga okkar hlaðin aukamerkingu um afleiðingarnar: Við vissum hvað var að gerast. Við vorum öll Ketill.“

Eitt er víst að Andri Snær Magnason telur sig ekki hafa verið Ketil Ketilsson í sínum gjörðum og vill forða öðrum frá slíkum örlögum.

Ég er hins vegar fullkomlega sáttur við minninguna um langafa minn. Og höfundi Tímans og vatnsins og hverjum þeim sem heyra vill, vil ég trúa fyrir því að ég vil gjarnan vera Ketill.

Höfundur er afkomandi Ketils Ketilssonar.

Höf.: Ólaf Bjarna Andrésson