[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Julius Rothlaender, bassaleikur; Ægir Sindri Bjarnason, trommuleikur; Erik DeLuca, gítarleikur; Alison MacNeil, gítarleikur og söngur. Ali Chant sá um upptökur; Bob Weston hljómjafnaði. Gefið út 2019 af Why not? plötuútgáfu.

Það er stundum erfitt að halda sönsum í janúar, enda jólin og ljósin komin ofaní kassa, en sólin ekki ennþá farin að skína almennilega á mann. Þá er mikilvægt að dunda sér eitthvað, hvort sem það er dúkasaumur, bókalestur eða hlustun á nýja og skemmtilega tónlist. Ending Friendships með Lauru Secord kom út í lok síðasta árs á Bandcamp og á hljómplötu og er einmitt rétta platan til að hlusta á í janúar.

Þarna er kunnuglegur hljómur á ferð og minnir óneitanlega á hljómsveitina Kimono, enda er Alison MacNeil úr þeirri sveit, en hún syngur og leikur á gítar í Lauru Secord. Þetta er fyrsta plata sveitarinnar og um er að ræða skemmtilega og óræða blöndu af grípandi og tilraunakenndu rokk-poppi, með beygjum og sveigjum sem koma á óvart.

Platan hefst á tveimur grípandi og áleitnum lögum: „Embrace“ og „I Thought, I Thought“, og það er í hinu síðarnefnda sem maður heyrir almennilega hve margslungin þessi plata er. Hljóðheimurinn verður flóknari og enn meira spennandi þegar þriðja lagið, „Aeroplanes“, hefst með dularfullri og tilraunakenndri byrjun sem springur út með framúrskarandi trommuinnkomu. Lögin renna saman og birtast því hlustendum eins og kaflar í bók sem ekki er til nema á þessari plötu. Ég heyri grugg-áhrif við hliðina á Elliott Smith og tilraunakenndari tóna í anda Pink Floyd eða Velvet Underground en jafnfram er hljómurinn afskaplega frumlegur og nýr. Það er kraftur í flutningnum og bandið skiptir um gír og bætir í eða dregur úr, rétt eins og á þarf að halda og lögin verða tímalaus.

Hið sjö og hálfrar mínútu langa „This Place Is the Answer to a Question I'm not Asking“ er gott dæmi um kaflaskipt lag sem heldur athygli manns óskiptri og heldur einnig áfram að koma manni á óvart. „Crop Circles“ er annað dæmi um ótrúlega kaflaskipta útsetningu og þar eru jafnframt smá svartmálms-áhrif sem smellpassa.

Ending Friendships er, eins og nafnið bendir til, ekki beint um gleðilega hluti og þarna eru sambandsslit og uppgjör í textum. Þetta ætti einhvern veginn ekki að vera plata sem auðvelt væri að hlusta á í janúar á Íslandi, en gengur engu að síður alveg prýðilega upp. Líklega er það angurvær og blíðleg rödd Alison í bland við ómstríða gítarveggi og þrumandi trommu- og bassaleik sem hristir uppí manni en róar á sama tíma. Þegar því er svo blandað saman við grípandi lög og fyrirtaks tilfinningu fyrir útsetningum er ljóst að útkoman er bráðnauðsynleg. Hún er eiginlega platan sem ég var ekki að leita að og þannig plötur skipta oft mestu máli.

Það koma auðvitað alls ekki það margar tilraunakenndar rokk/popp-plötur út á Íslandi á ári hverju. Þróunin er fremur sú að poppið hafi orðið poppaðra og rokkið harðara síðustu ár. Það er þó ekkert því til fyrirstöðu að blanda þessu kyrfilega saman til að rugla aðeins í þreyttum janúar-hlustendum og það tekst Lauru Secord vel. Þessi plata hljómar alveg framúrskarandi í heyrnartólum undir teppi, eða sem hávær tiltektarplata til að koma sér í gang.

Ragnheiður Eiríksdóttir