Hversu dýrkeyptur verður þessi hörmulegi síðari hálfleikur hjá íslenska landsliðinu í handbolta í gær þegar það tapaði fyrir Ungverjum í Malmö?
Hversu dýrkeyptur verður þessi hörmulegi síðari hálfleikur hjá íslenska landsliðinu í handbolta í gær þegar það tapaði fyrir Ungverjum í Malmö?

Einhverjir gleðjast sjálfsagt yfir því að Danir skuli vera úr leik á EM en það hefði svo sannarlega verið hagur íslenska liðsins að taka stigalausa Dani með sér í milliriðilinn.

Losna þar með við Ungverjana út úr keppninni um ólympíusætið, auk þess sem Danir hefðu verið afar líklegir til að geta hjálpað íslenska liðinu talsvert til að ná takmarki sínu með því að vinna helstu keppinauta þess í milliriðlinum.

Nú verður leiðin til Tókýó mun erfiðari því Ísland fer inn í milliriðilinn með tveimur stigum minna en Ungverjaland og Slóvenía í okkar riðli og Austurríki í hinum riðlinum. Þessi þrjú lið hafa þegar náð forskoti á okkar menn.

Auk þessara þjóða eru Hvíta-Rússland, Tékkland og Portúgal áfram með í baráttunni um tvö eða mögulega þrjú sæti í undankeppni Ólympíuleikanna sem fer fram í aprílmánuði.

Fyrsti leikur milliriðilsins er gegn Slóveníu á morgun og hann verður hreinlega að vinnast til að Ísland geti blandað sér í þessa keppni og haldið ólympíudraumnum lifandi.

Einhverjir voru farnir að láta sig dreyma um að komast alla leið í undanúrslit eftir sigrana flottu á Dönum og Rússum.

Auðvitað er allt opið enn. Það þýðir ekkert að leggjast í eymd og volæði yfir einum tapleik. Það munu Guðmundur og lærisveinar hans örugglega ekki gera.