Rússland Pútín nýtti stefnuræðu sína í gær til að kynna breytingar á stjórnarskránni.
Rússland Pútín nýtti stefnuræðu sína í gær til að kynna breytingar á stjórnarskránni. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Ríkisstjórn Rússlands sagði óvænt af sér í gær eftir að Vladimír Pútín Rússlandsforseti nýtti stefnuræðu sína til þess að leggja til breytingar á stjórnarskránni sem eiga að styrkja völd rússneska þingsins, Dúmunnar, á kostnað forsetans.

Dímítrí Medvedev forsætisráðherra sagði að stjórnarskrárbreytingarnar myndu gjörbreyta valdajafnvægi landsins, hvort sem litið væri til löggjafarvalds, framkvæmdavalds eða dómsvalds, og því væri rétt að ríkisstjórnin stigi til hliðar. Pútín útnefndi Míkhaíl Mishústín, yfirmann rússnesku skattstofunnar, til að gegna embætti forsætisráðherra. Medvedev mun hins vegar taka sæti sem varaformaður rússneska þjóðaröryggisráðsins, en Pútín er þar í forsæti.

Segir Rússa vilja breytingar

Á meðal þeirra valda sem færð yrðu til Dúmunnar eru valdið til að útnefna forsætisráðherrann og helstu ráðherra, sem nú liggur hjá forsetaembættinu. Þá er lagt til að hlutverk héraðsstjóra verði eflt og strangari kröfur gerðar um þjóðerni þeirra sem veljast eiga til að gegna æðstu embættum þjóðarinnar.

Pútín sagði í ávarpi sínu að Rússar hefðu sett fram skýrar kröfur um breytingar. Þá lofaði hann því að breytingarnar yrðu bornar undir þjóðina áður en þær tækju gildi. „Við munum bara geta byggt sterkt og farsælt Rússland á grunni virðingar fyrir almenningsálitinu,“ sagði Pútín í ræðu sinni.

„Leiðtogi til lífstíðar“

Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní sagði hins vegar öruggt að atkvæðagreiðsla um stjórnarskrárbreytingar yrði aldrei marktæk, og að markmið Pútíns væri að tryggja að hann yrði „leiðtogi til lífstíðar“.

Kjörtímabil Pútíns rennur út árið 2024 og er honum samkvæmt núgildandi stjórnarskrá óheimilt að bjóða sig fram til embættisins á ný. Sérfræðingar í málefnum Rússlands litu á tillögurnar í gær sem vísbendingu um að hann hygðist mögulega taka sæti í ríkisráði Rússlands, sem fær aukin völd taki breytingarnar gildi.