Knútur Bjarnason fæddist á Grenivík 9. mars 1930. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 1. janúar 2020.

Foreldrar hans voru Bjarni Áskelsson, fæddur 30. janúar 1900, d. 25. janúar 1965 og Jakobína Sigrún Vilhjálmsdóttir, fædd 24. júlí 1904, d. 7. nóvember 1975. Bræður Knúts voru 1) Áskell Vilhjálmur, f. 17. desember 1932, d. 21. mars 2011. 2) Grímur , f. 4. desember 1936.

Eiginkona Knúts Bjarnasonar er Bryndís Stefánsdóttir f. 15. október 1934. Börn þeirra eru; 1) Stefanía dómritari, f. 1959. Eiginmaður Ólafur Helgi Árnason vélstjóri, f. 1958. Börn þeirra eru Brynjar, f. 1982, Ingibjörg, f. 1989, maki Ólafur Böðvar Ágústsson, f. 1984, og eiga þau Daníel Myrkva og Matthías Werner. Jón Bjarni, f. 1995, unnusta Jóhanna Vigdís Pétursdóttir, f. 1996. 2) Knútur verktaki, f. 1961, kvæntist Sigríði Marteinsdóttur f. 1957, sonur Sindri Fannar. Þau skildu; í sambúð með Elenu Orlovu, f. 1964, og hennar sonur Georg Orlov, f. 2001. 3) Bjarni, f. 1977, maki Pálmey Magnúsdóttir, f. 1981, og þeirra synir eru Bergur Fáfnir og Nökkvi Fenrir.

Knútur ólst upp á Grenivík og fór síðan í Stýrimannaskólann í Reykjavík og lauk fiskimannaprófi 1953. Var fyrst á smábátum frá Grenivík 1943-1945 og síðan á ýmsum skipum á síldveiðum og vertíðum til 1957. Eignaðist þá 8 tonna bát með öðrum og gerði hann út frá Grenivík til 1959. Fór síðan sem stýrimaður á Oddgeir ÞH 222 hjá útgerðarfélaginu Gjögri og var síðan skipstjóri þar frá 1967 til ársloka 1974. Skipstjóri á Verði ÞH 4 frá áramótum 1975 til maíloka það ár. Hóf störf hjá Reykjavíkurhöfn 1975 og var þar til sjötugs. Fyrstu árin var hann á dráttarbátnum Magna og í framhaldi við hafnarvörslu. Samhliða því gerði hann út trillu, Brand RE 99, og stundaði grásleppuveiðar öll vor og einnig var róið með línu á haustin. Hann hætti útgerð á 73. ári og seldi bát og búnað. Á sama tíma eignuðust þau hjónin landskika fyrir austan fjall og var það hugðarefnið síðustu ár á meðan heilsa leyfði. Síðasta hálfa árið bjó Knútur á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ.

Útför Knúts fer fram í Hafnarfjarðarkirkju í dag, 16. janúar 2020, og hefst athöfnin klukkan 13.

Kæri afi minn, þá er komið að kveðjustund. Þegar ég hugsa um þær minningar sem við höfum átt saman standa hæst ferðirnar á trillunni og í verbúðinni. Við fórum iðulega niður á bryggju þegar ég var í heimsókn þar sem ég fékk að skoða heiminn frá nýju og spennandi sjónarhorni. Ég veit ekki hvort amma og mamma vissu það en það var ekki nóg með að ég fékk að vera með á trillunni, heldur fékk ég jafnvel að stýra henni og sitja ofan á stýrishúsinu á meðan þú sást um vélina. Svo kíktum við í verbúðina þar sem ég fékk að leika mér að hrognunum, kreista þau á milli fingranna og skoða hin ýmsu furðuverur sem komu í netið. Við áttum líka margar stundir í sumarbústaðnum þar sem ég fékk að smíða, mála og hjálpa til að vild – svo lengi sem ég passaði mig á sýkjunum. Svo gæddum við okkur á afabrauði úr boxinu, samloku úr hvítu brauði og rúgbrauði smurðu með smjöri og osti. Enn í dag þekki ég engan annan sem leggur sér slíkt til munns! Heima var alltaf rólegt, ég man ekki eftir því að hafa heyrt þig hækka róminn við nokkurn mann og ég held að það sé eitthvað sem ég hef reynt að tileinka mér í eigin uppeldi og fjölskyldulífi. Hjá ykkur ömmu fékk ég grásleppu, grjónagraut og heimaþurrkaðan harðfisk og við eyddum tímanum niðri í bílskúr við öngla og net eða börðum harðfisk. Þegar ég fór svo að fullorðnast og það fór að draga úr þér kynntist ég þér á nýjan hátt. Þá tók ég meira eftir sérviskunni og sveitamanninum sem þú hefur alltaf verið. Ég fór að vinna við að sinna eldra fólki sem mér fannst gaman og gefandi. En þegar þú, minn eigin afi, varst orðinn eins og þeir sem ég hafði sinnt í vinnunni vissi ég ekki alveg hvernig ég átti að vera. Í vinnunni var allt öðruvísi að sinna því fólki sem var farið að gleyma sjálfu sér og öðrum, ég gat alltaf spjallað við það og átt með því notalegar stundir. En það var einhver feimni gagnvart því þegar það snéri að þér. Þegar þú hættir að geta talað um daginn og veginn dró ég mig til hlés, en þú mundir eftir skipunum. Þegar ég hafði ekkert að segja tók Ólafur eiginmaður minn við og þið rædduð um skipin og skoðuðuð umferðina og mér leið eins og hann væri framlenging af mér. Þið náðuð þið saman með öðrum hætti og mér leið vel við það. Í lokin var það léttir að þú skyldir fá að fara því af tvennu illu er hvíldin betri en að vita ekki af sjálfum sér. Ég er ekki sorgmædd nú þegar við kveðjumst í hinsta sinn, heldur glöð í hjarta með fullt af minningum. Ég hefði ekki getað hugsað mér betri afa.

Ingibjörg Ólafsdóttir.

Í dag er til moldar borinn góður vinur minn, Knútur Bjarnason skipstjóri, fæddur og uppalinn á Grenivík í Höfðahverfi. Þrátt fyrir að við Knútur værum fæddir og aldir upp í sama sveitarfélaginu vissum við lítið hvor af öðrum fyrr en leiðir okkar lágu saman um borð í Oddgeiri ÞH-220 haustið 1963 þar sem hann gegndi starfi stýrimanns en ég vélstjóra. Af sjálfu leiðir að störf okkar lágu saman á margan hátt m.a. þegar kom að vélrænum veiðibúnaði skipsins.

Oddgeir var einn hinna svokölluðu vertíðarbáta sem stunduðu nótaveiði yfir sumarið og fram undir jól og síðan netaveiði frá áramótum og fram í maí.

Um miðjan sjöunda áratuginn var mikil síldveiði á svæði um 40-80 sjómílur austur af landinu sem var nefnt Rauðatorgið vegna þess að þarna var að veiðum mikill fjöldi rússneskra reknetaveiðiskipa. Þrátt fyrir að síldveiði í nót og reknet fari illa saman stunduðu íslensku skipin nótaveiði á sama svæði og þau rússnesku sem leiddi oft til vandræða þegar búið var að kasta og skipið rak með nótina út á bólin sem halda reknetunum uppi. Ef það gerðist var næsta víst að nótin rifnaði. Allt kapp var því lagt á að sökkva bólunum, sem var gert með því að skjóta á flotið í þeim bæði með riffli og haglabyssu en oftar en ekki nægði það ekki, þá datt Knúti í hug það snjallræði að festa beittan hníf á langa bambusstöng og skera með honum göt á bólin. Þennan búnað kölluðum við atgeir. Það verður að segjast eins og er að Knútur gat verið býsna svipfastur þegar atgeirnum var brugðið og hafði þá allt yfirbragð þeirra fornkappa sem beittu vopninu til forna en með honum bjargaðist margt kastið.

Á fiskveiðum getur margt gengið á , stroffur og tóg af hinum ýmsu stærðum og gerðum hrökkva í sundur og til þess að sem minnst röskun verði á veiðunum þarf að hafa hraðar hendur við að lagfæra það sem úr lagi fer hverju sinni. Á meðan við Knútur vorum saman til sjós man ég ekki til þess að hann ætti ekki á lager þau sérgerðu tóg og stroffur sem aflaga fóru í það og það sinnið og því einfalt að skipta um án þess að dýrmætur veiðitími tapaðist. Þrátt fyrir að Knútur væri alvörugefinn í fasi og trúlega ekki allra eins og sagt er var hann einstaklega þægilegur í allri umgengni og hafði það sem kallað er góða nærveru. Hann var góður félagi umtalsgóður og lagði ekki öðrum illt til. Mér finnst ég geta lýst honum sem gegnheilum manni af gamla skólanum sem aldrei mátti vamm sitt vita í smáu sem stóru. Hann var orðheldinn, munnlegt samkomulag af hans vörum var ekki síðra en fest á blað.

Með Knúti er genginn drengur góður sem sinnti starfi sínu hvert sem það var af dugnaði, trúmennsku og jákvæðni, hafði bætandi áhrif hvar sem hann kom. Kæri félagi, bestu þakkir fyrir samstarið og góða ferð og farsæla landtöku í sumarlandinu eilífa.

Eftirlifandi eiginkonu og öðrum nákomnum vottum við hjónin samúð okkar.

Guðrún og Helgi Laxdal.