Karamba Diaby, eini svarti þingmaður Þýskalands, tilkynnti í gær að göt eftir byssukúlur hefðu verið á rúðum skrifstofu sinnar þegar hann mætti til vinnu þar í gær.

Karamba Diaby, eini svarti þingmaður Þýskalands, tilkynnti í gær að göt eftir byssukúlur hefðu verið á rúðum skrifstofu sinnar þegar hann mætti til vinnu þar í gær.

Diaby, sem situr fyrir þýska Sósíaldemókrataflokkinn, setti mynd af einni rúðunni á Twitter í gær, og sáust þar þrjú kúlnagöt. Þá sagði Diaby að ein rúðan, sem var með áprentuðu andliti hans, hefði verið skotin nokkrum sinnum.

Lögreglan rannsakar nú atvikið. Talið er að loftbyssa með mjúkum kúlum hafi verið notuð til verksins, en engin af kúlunum braust alla leið í gegnum tvöfalda glerið í rúðum skrifstofunnar.

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, lýsti yfir á Twitter-síðu sinni að hin grunaða árás væri „ótrúleg, ógeðsleg og heigulsverk“.

Diaby var fyrst kjörinn á þing fyrir borgina Halle frá árinu 2013, en hann hefur átt heima í Þýskalandi frá árinu 1980.