„Óvissustigið gildir áfram, sem og rýmingaráætlun fyrir ákveðin svæði. Veðrið er þó heldur að ganga niður og staðan að skána,“ sagði Magni Hreinn Jónsson á ofanflóðavakt Veðurstofunnar í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.

„Óvissustigið gildir áfram, sem og rýmingaráætlun fyrir ákveðin svæði. Veðrið er þó heldur að ganga niður og staðan að skána,“ sagði Magni Hreinn Jónsson á ofanflóðavakt Veðurstofunnar í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.

Í gær könnuðu snjóflóðaathugunarmenn og sérfræðingar Veðurstofunnar umfang flóðsins á Flateyri, þangað sem þeir fóru frá Ísafirði með varðskipinu Þór. Athuganir sýna að flóðin hafa farið yfir varnargarðana bæði í Innra-Bæjargili og Skollahvilft, en flóðið á síðarnefnda staðnum olli tjóni í höfninni. Margt bendir jafnframt til að meira hafi flætt yfir Skollahvilftargarðinn en hinn.

Út frá fyrirliggjandi upplýsingum, segir á vef Veðurstofunnar, er áætlað að flóðin á Flateyri í gær kunni að vera sambærileg að stærð við það sem féll úr Skollahvilft í október 1995 og olli mannskaða. Flóð yfir varnargarðana á Flateyri á tveimur stöðum nú segir Veðurstofan kalla á endurmat á virkni þeirra. Einnig að farið verið yfir mat á hættu á staðnum sem gert var 2004. sbs@mbl.is