Skólabörn Tómstundariðkun geti farið fram í göngu- og hjólafæri.
Skólabörn Tómstundariðkun geti farið fram í göngu- og hjólafæri. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Leggja á aukna áherslu á iðn-, list- og verknám á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2024, þannig að hlutfall nema sem velja annað en bóknám eftir grunnskóla verði 20%.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Leggja á aukna áherslu á iðn-, list- og verknám á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2024, þannig að hlutfall nema sem velja annað en bóknám eftir grunnskóla verði 20%. Árið 2024 verði einnig fyrstu tvær Borgarlínuleiðir farnar að þjónusta íbúa höfuðborgarsvæðisins, urðun sorps hafi þá minnkað um 25% og farþegum almenningssamgangna fjölgað um 30%. Enn fremur skal að því stefnt að hamingja íbúa höfuðborgarsvæðisins aukist þannig að árið 2024 upplifi 65% íbúanna sig hamingjusöm.

Þessi markmið má finna meðal fjölmargra markmiða og áherslna sem sett eru fram í Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024, sem birt hefur verið á Samráðsgátt stjórnvalda. Um er að ræða stefnuskjal sem unnið hefur verið m.a. í samráði kjörinna fulltrúa og við hagaðila innan höfuðborgarsvæðisins, eins og það er orðað, á undanförnum mánuðum. Felur það í sér stöðumat höfuðborgarsvæðisins, framtíðarsýn og markmið í tilgreindum málaflokkum ásamt skilgreindum leiðum að markmiðunum.

Fjölmörg metnaðarfull markmið eru sett fram í sóknaráætluninni, sum hver með mælikvörðum, sem ná á fram til ársins 2024. Bæta á aðgengi að grænum svæðum í íbúakjörnum til að stuðla að aukinni hreyfingu og auka þátttöku barna frá efnaminni og fjölskyldum af erlendum uppruna í íþrótta- og tómstundastarfi. Endurnýtingarhlutfall úrgangs frá heimilum verði 95% og hlutfall íbúðarbyggðar á miðkjarna og samgöngumiðuð þjónustusvæði vaxi úr 32% í 40%, svo dæmi sé tekin. Enn fremur er að því stefnt að 50% vagna Strætó verði knúin með öðru en jarðefnaeldsneyti eftir fimm ár.

Í kafla um velferð og samfélag segir m.a. að stefna sé sett á það markmið að menntun og tómstundir barna verði efldar og sett eru markmið um að hlutfall 13 til 15 ára ungmenna sem meta andlega heilsu sína góða eða mjög góða verði komið í 83% árið 2024 en skv. könnunum Lýðheilsuvísa var hlutfallið 69% árið 2018. Jafnframt verði hlutfall 13-15 ára ungmenna sem meta líkamlega heilsu sína góða komið í 83% árið 2024, en 78% ólögráða ungmenna mátu heilsu sína góða eða mjög góða árið 2018.

Í kafla um samgöngur kemur fram að vilji sé til að stuðla að góðu úrvali rafmagnshlaupahjóla, deilibíla o.s.frv. á endastöð Borgarlínu, komið verði á appi fyrir deilihagkerfi fyrir samgöngur (bíla, hjól o.s.frv.) og hleðslustöðvum verði fjölgað.

Dregið úr fasteignasköttum

Í sérstökum kafla um vilja haghafa á höfuðborgarsvæðinu segir m.a. að gera eigi meira af því að örva nýsköpun og bæta samgöngur við nærsvæði höfuðborgarsvæðisins. Draga eigi úr fasteignasköttum á fyrirtæki, dregið verði úr bílferðum til vinnu og úr þörf fólks til að nota einkabílinn. Byrjað verði á að ræða sameiningu sveitarfélaga og nýsköpun í menntamálum verði aukin. Er enn fremur lagt til að byrjað verði á áætlun um uppbyggingu hjólastíga og unnið að sameiginlegri rafvæðingu í samgöngumálum. Lýst er vilja til að dregið verði úr urðun sorps og akstri strætisvagna sem ekki eru umhverfisvænir verði hætt á þessu tímabili. Hætt verði ,,að taka á móti mengandi skemmtiferðaskipum“ og hætt verði að brenna svartolíu í höfnum. Tryggja á ungum foreldrum góð úrræði í dagvistun fyrir börn.

Styðja betur við börn

Með framtíðarsýninni í Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins er dregin upp mynd af eftirsóknarverðri stöðu sem ætlunin er að ná á næstu árum. Í upptalningu á vilja svonefndra „haghafa“ á höfuðborgarsvæðinu segir m.a. að styðja þurfi betur við börn frá efnaminni heimilum og að íþrótta- og tómstundaiðkun barna geti farið fram í göngufæri og hjólafæri. Byrjað verði á Sundabraut, hætt verði að skipuleggja allt úr frá einkabílnum, hætt að dæla seyru út í Faxaflóa og draga þurfi úr ,,sálarlausri steypu og andlausum svæðum“.